mánudagur, apríl 02, 2007

1. apríl 2007 - II - Aprílgabb



1. apríl 1976.
Ég var rétt komin úr skólanum rétt eftir hádegið þegar síminn hringdi hjá mér. Ég svaraði.
“Ertu að selja Cadillac?” spurði röddin í símanum.
“Enginn Cadillac hér til sölu,” svaraði ég með góðri samvisku enda enginn bíll í eigu bláfátæks skólanemandans á árinu 1976 og ég lagði á.
Síminn hringdi strax aftur og aftur var spurt um Cadillac til sölu og enn neitaði ég. Svo var hringt í þriðja sinn og spurt eftir eðalvagninum. Ég fór að verða forvitin og spurði manninn hvernig honum dytti í hug að leita að Cadillac hjá mér?
“Hann var auglýstur í Dagblaðinu í síma 19069.”

Þetta fór að verða grunsamlegt. Þetta var símanúmerið mitt. Ég hljóp út í búð og keypti Dagblaðið sem var nýlega stofnað, frjálst og óháð dagblað á þessum tíma og í harðri samkeppni við dagblaðið Vísir. Í smáauglýsingum blaðsins var auglýsingin:
Cadillac Eldorado árgerð 1968 til sölu. Eins og nýr. Glæsikerra og allt í rafmagni. Verð 400 þúsund, 100 þúsund út og 20 þúsund á mánuði. Upplýsingar í síma 19069.
Nú hringdi síminn látlaust hjá mér og ég komst ekki til þess að hringja úr eigin síma til að kanna þennan misskilning með símanúmerið. Að endingu fór ég yfir í næstu íbúð og fékk að hringja þaðan í Dagblaðið og spurði hvort þetta væri ekki örugglega vitlaust símanúmer. Því var harðneitað á Dagblaðinu, en er ég spurði hver hefði lagt inn auglýsinguna fékk ég að heyra að hún hefði verið lögð inn í mínu nafni. Þá vissi ég skýringuna!!!!

Ári fyrr hafði ég verið að stríða góðum vini mínum. Tvær stelpur höfðu auglýst eftir spilafélögum í bridge og ég hafði sent inn bréf í nafni þessa vinar míns þar sem hann lýsti yfir vankunnáttu í bridge en væri þess betri í fatapóker. Síðan setti ég nafn hans undir og sendi bréfið. Nokkrum dögum síðar fékk þessi vinur minn bréf frá stúlkunum þar sem þær voru uppfullar vandlætingar á hugsunum bréfritara, hvort hann hugsaði bara með neðri hlutanum.

Nú var semsagt komið að hinni sætu hefnd fyrir hrekkinn árinu áður. Það var ekki liðið langt á eftirmiðdaginn þennan fyrsta apríldag ársins 1976 þegar vinurinn kom “óvænt” í heimsókn og þar með fékk ég staðfest að hann hefði lagt inn auglýsinguna þótt hann neitaði því. Ég hirti þó ekki um að kreista hann til játninga, en síminn var ónothæfur hjá mér næstu dagana. Í hvert sinn sem símanum var stungið í samband byrjaði hann að hringja, jafnt eftir miðnætti sem klukkan sjö að morgni. Fyrst eftir viku var hægt að hafa símann tengdan og ró komst á hjá mér.

Vini mínum hafði vissulega tekist að koma fram hefndum eftir hrekkinn forðum, en nú tók verra við hjá honum. Í fjölda ára eftir þetta beið hann þess að ég svaraði fyrir mig á 1. apríl. Í mörg ár þorði hann vart að svara síma þennan dag, fullviss um að ég væri að gera sér einhvern grikk. Mín hefnd var hinsvegar fólgin í að gera ekki neitt.

Það fer að koma tími á hefndaraðgerðir. Hugmynd óskast! .

Þessi frásögn birtist áður 1. apríl 2005.


0 ummæli:







Skrifa ummæli