fimmtudagur, apríl 26, 2007

26. apríl 2007 - Hætt, búin, farin?



Nei kæri lesandi, þér er alveg óhætt að hætta að gleðjast því ég er ekki hætt að blogga. Ég var hinsvegar að ljúka góðu verkefni í gær og get því fagnað.

Undanfarna mánuði hefi ég tekið þátt í bráðabirgðastjórn lítils hópverkefnis sem nú er orðið formlegt félag með aðalfundi sem haldinn var í gær. Um leið sagði ég mig úr stjórn og er því óbreyttur meðlimur um leið og ég held áfram um sinn að starfa að baráttumálum okkar á alþjóðasviði. Að sjálfsögðu er ég að tala um félagið Trans-Ísland, en held áfram í Transgender Europe (TGEU).

Í þeim tilfellum þar sem ég hefi verið í forsvari fyrir félagi, hefi ég ávallt lagt áherslu á valddreifingu, að margar hendur vinna létt verk og að sem flestir komi að stjórn hvort heldur er að stjórn félags eða einstakra verkefna. Með því að Trans-Ísland er orðið formlegt félag er sjálfsagt að víkja af hólmi þótt ekki sé til annars en að forðast einræðistilburði, en sú er hættan ef ein manneskja er of áberandi í umræðunni. Því færi ég mig út á hliðarlínuna án þess að segja alveg skilið við félagið.

Meðal ályktana sem samþykktar voru á fundinum var eftirfarandi ályktun:
Orðið kynskiptingur er náskylt orðinu kynvillingur og ber í sér bæði neikvæða og villandi merkingu.
Félagið vill hérmeð vekja athygli á að transgender fólk álítur að bæði þessi orð séu niðrandi. Félagið vill sérstaklega vekja athygli þeirra sem skrifa og fjalla um málefni transgender fólks, á neikvæðri merkingu orðsins, og að umfjöllun sem notar þetta orð mun verða álitin jafn neikvæð og fordómafull og umfjöllun sem notar orðið kynvillingur.
Félagið mælir með notkun orðanna trans eða transgender, ásamt orðalaginu, fólk sem leitar leiðréttingar á kyni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli