Í mörg ár stóð ég í þeirri trú að Ísland væri einstakt og fremst allra í notkun jarðhita til húshitunar og rafmagnsframleiðslu. Þessu hélt ég að auki fram við alla sem nenntu að hlusta á mál mitt og vissulega eru Íslendingar í fararbroddi þjóða á þessu sviði.
Nokkru eftir að ég hóf störf hjá Hitaveitunni var ég að ræða þessi mál við Steinar Frímannsson verkfræðing sem benti mér á að notkun jarðhita til húshitunar hefði hafist mun fyrr vestur í Bandaríkjunum, en nútíma hitaveituvæðing þar hefði hafist árið 1892 eða 38 árum fyrr en Laugaveitan í Reykjavík hóf starfsemi sína. Í dag eru jarðgufuvirkjanir víða í vesturríkjum Bandaríkjanna, Idaho, Nevada, Kaliforníu, Utah, Hawaii og víðar og eru þær notaðar bæði til rafmagnsframleiðslu sem og beint til húshitunar.
Við nánari lestur á sögu hitaveitu í Idaho kom í ljós að verkamenn við námagröft í Idaho höfðu nýtt sér jarðhita til baða og þvotta allt frá því um miðja nítjándu öld, en frumbyggjarnir,
indjánar, á undan þeim.
Auk þessa eru til jarðvarmavirkjanir víðar í heiminum, Nýja-Sjálandi, Japan og víðar auk áðurnefndra landa.
Þegar ofangreint er haft í huga, varð ég í fyrstu uppfull efasemda er ég heyrði fyrst af væntanlegri heimsókn nefndar á vegum bandaríska orkumálaráðuneytisins til að kynna sér notkun gufuafls á Íslandi og fór að ímynda mér iðnaðarnjósnir og að einhverjir ætluðu að ræna íslenska vísindamenn heiðrinum af frumkvöðlastarfi sínu í þágu uppbyggingar jarðhitaiðnaðar í heiminum, en í reynd er ekkert að óttast.
Íslendingar eru og munu áfram verða í fremstu röð vísindamanna á sviði jarðhita, hvort heldur er einir sér eða í samstarfi við vísindamenn annarra þjóða. Sjálf mun ég að sjálfsögðu halda áfram að vera stolt af samstarfsfólki mínu hjá Orkuveitunni sem og hjá öðrum orkufyrirtækjum sem hafa unnið ótrúlegt starf, íslensku þjóðinni sem og öðrum þjóðum til heilla.
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item150473/
http://www1.eere.energy.gov/geothermal/history.html
http://www.idwr.idaho.gov/energy/
alternative_fuels/geothermal/history.htm
-----oOo-----
Svo fá kisurnar mínar, þær Tárhildur og Hrafnhildur, hamingjuóskir með tveggja ára afmælið.
miðvikudagur, apríl 11, 2007
11. apríl 2007 - Nýting jarðvarma!!!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:27
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli