Ég átti erfiða nótt fyrir tólf árum síðan, aðfararnótt 24. apríl 1995 því senn kæmi að stóru stundinni í lífi mínu, endalokum þess gamla og upphafi hins nýja. Ég var orðin ágætlega undirbúin andlega, hafði gengið í gegnum slíkan fjölda af sálfræðiprófum og rannsóknum að það þurfti andlega nautsterka manneskju til að ganga í gegnum það allt, þurfti að gangast undir allskyns prófanir og erfið viðtöl, loks að sitja frammi fyrir einskonar dómi sem kvað úr um hæfni mína til að gangast undir leiðréttingu á kynferði mínu. Og nú lá ég á Karólínska sjúkrahúsinu í Solna og beið þess sem verða vildi.
Klukkan 07.30 um morguninn kom skurðlæknirinn Jan Eldh inn til mín, horfði ákveðið á mig og spurði eins og uppfullur efasemda:
“Ertu alveg viss um að þú viljir þetta?”
Spurningunni var auðsvarað og þar með var gefið grænt ljós á að fara með mig í rúminu niður á skurðstofu. Á leiðinni niður var mér hugsað til teiknibrandara af sjúklingi sem var á leiðinni á skurðarborðið og stendur á rúminu af angist yfir því sem biður hans. ég gjóaði augunum upp í loftið og sá að það var tæplega næg lofthæð á göngum sjúkrahússins til að standa uppi á rúminu. Auk þess sá ég enga ástæðu til að óttast neitt.
Ég hafði fengið kæruleysissprautu áður en mér var ekið niður á skurðstofu og hún var farin að virka. Inni á skurðstofunni voru hjúkrunarfræðingar að undirbúa aðgerðina og ég fór að gantast við þær og þetta væru endalokin fyrir ákveðinn líkamspart sem senn myndi hefja upp raust sína og syngja stefið góða úr The Wall með Pink Floyd:
“Goodbye cruel world, I´m leaving you today, Goodbye, Goodbye, Goodbye.
Goodbye all you people, There´s nothing you can say, To make me change my mind,
Goodbye.”
Ég sofnaði.
Þegar ég vaknaði aftur var ég á uppvakningunni. Ég var þreytt, en mér leið ágætlega samt og fann ekki fyrir sársauka. Ég lyfti upp lakinu sem lá yfir mér og það leyndi sér ekki að aðgerðin var afstaðin. Mér varð hugsað til ýmissa ævisagna fólks sem hafði gengið í gegnum svipaðar aðgerðir og ég, fólks á borð við Caroline Cossey og April Ashley og þeirra vítiskvala sem þær lýstu eftir aðgerðir sínar og í huga mér hljómuðu orð Jan Eldh sem lýsti því eitt sinn yfir á fundi að ef nokkur myndi líða slíkar þjáningar sem þær stöllur lýstu, þá myndi hann hætta samstundis að gera svona aðgerðir.
Allt í kringum mig lágu sjúklingar í rúmum sínum eftir hinar ýmsu aðgerðir. Einn eða tveir voru ælandi. Hjúkrunarfólk á þönum út um allt. Rúm með fólki voru sótt, Önnur komu í staðinn. Í einu rúminu lá Danni, sænskur vinur minn. Hann hafði farið í aðgerð í hina áttina mánuði áður, en nú hafði hann farið í litla lagfæringaraðgerð. Hann var vaknaður og rúminu hans var rennt þétt upp að mínu. Hann teygði handlegginn í átt til mín og ég teygði mig á móti þar til við gátum tekist í hendur. Síðan lágum við hvort í sínu rúmi og héldumst í hendur. Öll orð voru óþörf. Við höfðum barist langri baráttu fyrir tilverurétti okkar og nú var stærsti sigurinn unninn.
Um kvöldið þegar ég var komin inn á stofuna, leið mér yndislega þótt ég gæti vart hreyft mig. Á náttborðinu var blómvöndur í vasa. Áður en sjúkrahúsdvölinni lauk voru blómvendirnir í litlu sjúkrastofunni minni orðnir ellefu. Það eru komin tólf ár frá þessari góðu stundu.
P.s. Af skepnuskap mínum sendi ég bróður mínum póstkort af spítalanum og að sjálfsögðu stóð þar:
Til hamingju bróðir, þú hefur eignast systur!
þriðjudagur, apríl 24, 2007
24. apríl 2007 - Goodbye Cruel World...
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:33
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli