föstudagur, apríl 06, 2007

6. apríl 2007 - Að krossfesta mann

Páskarnir voru alltaf dálítið sérstakir hjá mér sem barni. Ekki var það einvörðungu vegna páskaeggsins ljúffenga, fremur vegna þess atburðar sem átti sér stað á hverju ári, að Jesús Kr. Jósefsson var krossfestur. Í gegnum alla mína bernsku var vesalings maðurinn krossfestur minnst einu sinni á ári, eða svo mátti ætla af þeim hryllingssögum sem lesnar voru upp í kirkjum landsins á hverju ári. Alltaf las presturinn upp píslarsöguna með tilþrifum eins og hún hefði skeð í gær Og alltaf vorkenndi ég vesalings Jesús jafn mikið að láta krossfesta sig. Af hverju reyndi hann ekki að flýja eða fá aðstoð við að frelsa sig frá mönnunum sem reyndu að krossfesta hann. Sjálf sór ég og sárt við lagði að gera mitt besta til að koma í veg fyrir að hann yrði krossfestur næsta ár. Það var þó örlítil bót í máli, að hann reis upp frá dauðum á þriðja degi og fór ekki til pabba síns fyrr en á uppstigningardag. Kannski var þessu best lýst í ljóði Steins Steinarr, Passíusálm nr 51.

Um leið og Jesús Kr. Jósefsson hvarf okkur sjónum með uppstigningu sinni, var um leið lagður grundvöllur að endurfæðingunni á jólunum, því að sjálfsögðu fæddist Jesús á hverjum jólum, rétt eins og hann dó á hverjum leiðinlegum föstudeginum langa þegar ekkert skemmtilegt mátti gera. Á páskadag fékk maður allavega páskaegg í sárabætur fyrir að mega ekki leika sér.

Síðan presturinn las píslarsöguna með tilþrifum er liðinn langur tími. Ímyndun bernskunnar og hin sterku tengsl við raunveruleikann sitja enn í mér, þótt það sé að verða hálf öld frá því ég komst að því að þessi saga var nærri tveggja árþúsunda gömul.



-----oOo-----

Í gærkvöldi gleymdi ég auðvitað að segja nýjustu fréttir frá köppunum í United of Manchester,
en þeir unnu eitthvað lið í botnbaráttunni á miðvikudag með átta mörkum gegn engu. Það segir kannski heilmikið um breiddina í liðinu að sjö leikmenn skoruðu þessi átta mörk.


0 ummæli:







Skrifa ummæli