miðvikudagur, apríl 04, 2007

4. apríl 2007 - Umhverfissóðinn Anna Kristjánsdóttir

Síðustu dagana og þá sérstaklega eftir álverskosninguna í Hafnarfirði er ég skyndilega orðin hið gráa mótvægi við hinn græna Ómar Ragnarsson. Til mín er vitnað eins og ég éti ál í öll mál og sé hinn versti umhverfissóði. Ofan á allt saman er ég ákaflega stolt af þessu orðspori sem af mér fer. Þó finnst mér eins og að verið sé að færa mér ákveðni í skoðunum sem erfitt sé að standa undir.

Það var sumarið 1996 sem Eskifirðingar með Emil Thorarensen í broddi fylkingar sýndu mér meiri virðingu en aðrir Íslendingar og þá sérstaklega íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Á þeim árum var ég ákaflega vinstrisinnuð og er reyndar enn, studdi enn Alþýðubandalagið sem ég hafði gert í fjölda ára og færði skoðanir mínar yfir á vinstrigræna við stofnun Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs þótt ekki væri ég sammála þeim í öllum málum.

Vegna kynna minna af Eskfirðingum, sá ég hvernig byggð fór hnignandi á Austfjörðum á síðustu árum tuttugustu aldarinnar sumpart vegna margsvikinna loforða stjórnvalda um fleiri undirstöður undir fábreytta atvinnuvegi þeirra. Þegar loks var farið út í framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði, var ekki hægt annað en að hrífast með og sjá hvernig vonarglampinn kom í stað vonleysis, hvernig fólk virtist vakna til lífsins og öll framkvæmdagleði reis upp úr öskustónni. Barátta Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs gegn virkjanframkvæmdum fyrir austan voru fyrir bragðið eins og hnefahögg í andlitið

Eftir áratugastörf sem vélfræðingur og á sjó sem vélstjóri hefi ég kynnst ágætlega kostum og göllum ýmissa málma og geri mér fulla grein fyrir hagnýti léttmálma umfram þyngri málma þar á meðal kostum áls fyrir umhverfi sitt. Þrátt fyrir þessa hagnýtu þekkingu á áli, er ég ekkert hætt að fara með dagblaðabunkana út í blaðagám, fer með áldósirnar eftir drykkju mína í endurvinnsluna, reyni eftir bestu getu að flokka annað sorp, nota sparperur og geng í vinnuna. Þar mættu margir svokallaðir umhverfisverndarsinnar taka mig sér til fyrirmyndar.

Ég er löngu hætt að styðja Vinstri hreyfinguna grænt framboð og held mig við Samfylkinguna, því rétt eins og ég hefi snúist í umhverfismálum, hefi ég einnig kynnst því hve Evrópusambandsaðild býður upp á marga kosti umfram ókosti rétt eins og ál býður stundum upp á kosti umfram stál.


Mér þykir hrefnukjöt gott á bragðið!

-----oOo-----

P.s. Minn vinstrigræni Subaru átti 10 ára afmæli í gær. Í tilefni dagsins skolaði ég lauslega af honum skítinn, enda er hann búinn að þjóna mér dyggilega í næstum helming af líftíma sínum, en innan við 40 þúsund kílómetra af sínum 150 þúsund kílómetrum. Til hamingju.


0 ummæli:







Skrifa ummæli