sunnudagur, apríl 08, 2007

8. apríl 2007 - Af lessublaki

Það var hringt í mig á laugardagsmorguninn og ég beðin um að taka tvær til þrjár stelpur frá Hollandi í gistingu. Það var ekki nema sjálfsagt, enda hafði ég áður boðist til að lofa tveimur stelpum að gista, en þá var talið að slíkt væri óþarfi. Því var ekki nema sjálfsagt að verða við þessari beiðni og finna pláss fyrir þrjár stelpur.

Það er ekkert gaman að þurfa að greiða himinháar upphæðir fyrir gistingu á Íslandi. Sjálf þekki ég erfiðleikana við að fá ódýra gistingu eftir að hafa gist á ósköp einföldu en rándýru hóteli í Genf sem og á fleiri stöðum. Að þessu sinni var mér beiðnin meir en svo ljúf því ég er á leiðinni á fund í Amsterdam eftir þrjár vikur og það verður gott að eiga góðar að þegar þangað verður komið, þó ekki verði til annars en að fá góða leiðsögn um borgina á hinum fræga “Queens day”. Hollendingar halda enn reglulega upp á afmælisdag gömlu drottningarinnar, hennar Júlíönu heitinnar og gera það með stæl. Mætti Svíar taka Hollendinga sér til fyrirmyndar, en Kalli kóngur á afmæli sama dag.

Svo veit ég einnig að nokkrir vinir mínir sem ekki eru sáttir við samkynhneigð, eru vísir til að reka upp ramakvein ef þeir sjá hversu vel Fylkismenn taka vel á móti stelpunum :)

-----oOo-----

Bæði liðin mín í enska boltanum unnu leiki sína á laugardag. Hetjunum í Halifaxhreppi tókst enn einu sinni að koma sér úr botnbaráttunni í kvenfélagsdeildinni með eins marks sigri á Cambridge, en United of Manchester vann Hrútarassana (Ramsbottom United) í efstu Vestfjarðadeild (NorthVest Counties Football League, Division one) með tveimur mörkum gegn einu. Getur nú fátt stöðvað þá úr þessu og óhætt að ryðja til í hillunum fyrir bikarinn.

-----oOo-----

Svo fær drengurinn sem langar til að komast á Moggabloggið hamingjuóskir með 32 ára afmælið. Megi kaninkan og Stefán Pálsson lifa sem lengst öllum til gleði.


0 ummæli:







Skrifa ummæli