þriðjudagur, apríl 03, 2007

3. apríl 2007 - Vafasamt heiti á verðlaunum

Útgáfa ættfræðirita verður seint talin til gróðafyrirtækja á Íslandi. Snemma á níunda áratug tuttugustu aldar stofnaði Þorsteinn Jónsson ættfræðibókaútgáfuna Sögustein og hóf útgáfu ættfræðirita, fyrst í formi bæklinga, en um 1985 hóf hann útgáfu vandaðra ættfræðirita með nýju útliti þar sem myndir voru hafðar með viðeigandi texta, nýtt fyrirkomulag sem hafði lítt verið gert áður á Íslandi. Titlarnir urðu tíu ef mig misminnir ekki, niu niðjatöl og byggðatalið Ölfusingar og urðu bindin samtals 17. Með þessari útgáfu braut Þorsteinn blað í íslenskri ættfræðibókaútgáfu, ekki eingöngu vegna breyttrar uppsetningar niðjatalanna, heldur og með mjög svo stórhuga útgáfustarfsemi. Um 1990 fór Sögusteinn á hausinn.

Þrátt fyrir áfallið, lét Þorsteinn ekki deigan síga, en stofnaði Líf og sögu á rústunum sem síðar rann inn í Þjóðsögu og alltaf urðu útgáfurnar vandaðri og vandaðri. Svo stofnaði Þorsteinn útgáfufyrirtækið Byggðir og bú sem urðu að Sögusteini hinum seinni sem rann svo inn í Geneologia Islandorum og varð gjaldþrota um árið 2000.

Nú hafa verið stofnuð barnabókaverðlaun sem bera nafnið Sögusteinn. Þegar skoðuð er saga og andlát hinna tveggja útgáfufyrirtækja sem báru nafnið Sögusteinn, myndi maður ætla að nafnið Sögusteinn þætti ekki gæfulegt nafn á slíkt þarfaþing sem barnabókaverðlaun eru.


0 ummæli:







Skrifa ummæli