föstudagur, apríl 13, 2007

13. apríl 2007 - Smókur á kojustokknum










Þegar ég byrjaði til sjós fyrir rúmum fjórum áratugum þótti sjálfsagt og eðlilegt að áhafnarmeðlimir væru með öskubakka á kojustokknum sínum. Stundum voru öskubakkarnir hinir vönduðustu og mátti oft rekja handbragðið á öskubökkunum til handlagins vélstjóra á skipinu. Aðrir létu sér nægja að klippa út öskubakka úr niðursuðudósum.

Ekki fór alltaf vel. Veit ég sorgleg dæmi um reykingar í koju með banvænum afleiðingum og fimmtán árum eftir að ég byrjaði til sjós, man ég eftir viðvörunarskiltum í klefum skipa þar sem varað var við reykingum í kojunni. Sjálf reykti ég alla mína sjómennsku og reykti mikið í þrjá áratugi.

Í lok sjómennsku minnar, þegar ég var að leysa af á skipunum hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar voru komnar hertar reglur. Víða var fólk rekið upp í stakkageymslu til að reykja eða þá út á dekk og fannst sumum þetta alveg ómögulegt. Um leið má segja að með því að ég hætti að reykja, hætti ég að leysa af til sjós og hefi hvorki farið á sjó né reykt eftir árið 2000.

Ég hefi engar áhyggjur af velferð íslenskra sjómanna þótt bannað verði að reykja í borðsalnum eða í svefnherberginu eftir 1. júlí næstkomandi. Ég hefi hinsvegar meiri áhyggjur af skemmtilegu fólki sem stundar Næstabar og aðrar slíkar menningarstofnanir.

Sömuleiðis verður ekki gaman að vera i höllinni hjá Möggu smók eftir 15. ágúst þegar svipað reykingabann tekur gildi í Danmörku.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1264325


0 ummæli:







Skrifa ummæli