Þegar gömlu húsin við Aðalstræti voru rifin og nýtt hótel á horni Aðalstrætis og Túngötu var byggt, var þess gætt að halda gömlu götumyndinni og byggja nýja hótelið í gamla götustílnum með safn til sögu Reykjavíkur í kjallaranum. Þessi enduruppbygging heppnaðist stórkostlega og er til mikillar fyrirmyndar.
Öfugt við enduruppbyggingu Aðalstrætis var farin þveröfug leið við uppbygginguna við Lækjargötu eftir Nýja bíó brunann fyrir nokkrum árum. Þar var byggt forljótt glerhýsi í staðinn, hús sem er sem afskræming á götumynd Lækjargötu.
Húsin við Lækjargötu 2 og Austurstræti 22 eru ónýt. Það má vera að hægt sé að endurbyggja húsið að Lækjargötu 2, en það er þó óvíst auk þess sem húsið hefur gengið í gegnum svo ítrekaðar endurnýjanir í gegnum árin að lítið er eftir af upphaflega húsinu. Því er eðlilegast að bæði húsin verði rifin til grunna og ný byggð á lóðinni. Mér finnst eðlilegast að notast verði við reynsluna af enduruppbyggingu Aðalstrætis og ný hús byggð í svipuðum stíl og gömlu húsin þó þannig að fari verði eftir ítrustu bygginga- og brunavarnareglugerðum. Þannig mætti hugsa sér að hækka mætti Lækjargötu 2 um allt að hálfan metra svo nýta mætti betur rishæðina.
Í leiðinni má Jón Ásgeir sýna af sér örlitla umhverfisvernd í verki og skipta út glerveggnum á Topshop (Iðuhúsinu) í eitthvað sem samræmist götumynd Lækjargötu.
-----oOo-----
Ég er að velta einu fyrir mér. Af hverju skyldu lögreglumenn vera svo sparsamir á notkun hjálma? Við Lækjartorgsbrunann sást mikill fjöldi fólks að störfum og margir með hjálma, en flestir lögreglumenn voru með húfur, þar á meðal lögreglustjórinn sjálfur. Sömu sögu var að segja af tjóninu við Vitastíg, en þar voru lögreglumenn með húfur og endurskinsvesti. Að öðru leyti tjái ég mig ekki um Vitastígstjónið.
fimmtudagur, apríl 19, 2007
19. apríl 2007 - Gullið tækifæri til endurreisnar
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:09
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli