Það er hættulegt starf að vera hermaður og enn hættulegra að vera hermaður í stríði en sýnu hættulegra er þó að vera bandarískt fallbyssufóður í Írak, en samkvæmt opinberum bandarískum tölum hafa 3257 bandarískir hermenn látið lífið í Írak frá því stríðið hófst (og 3118 síðan stríðinu lauk samkvæmt yfirlýsingum George Dobbljú Bush) . Þetta þýðir að 2,2 hermenn hafa fallið að jafnaði á hverjum degi frá því stríðið hófst fyrir rúmum fjórum árum.
Þegar haft er í huga að margfalt fleiri Írakar hafa fallið í stríðinu, þykir mannfall Bandaríkjamanna ekki mikið. Þó rak mig í rogastans þegar Morgunblaðið sá ástæðu til að geta eins hermanns sem fallið hafði í stríðinu eins og Mogginn gerði á miðvikudag, en sá hermaður er væntanlega númer 3257 í röð fallinna Bandaríkjamanna og sá ellefti sem fellur í apríl 2007.
Þetta mannfall Bandaríkjamanna þykir kannski ekki mikið miðað við höfðatölu allra Bandaríkjamanna og kannski talið eðlilegur fórnarkostnaður ríkis sem er í stríði, en þessir menn sem hafa fallið, féllu í tilgangsleysi rétt eins og það var talið eðlilegur fórnarkostnaður að drekkja 20-50 íslenskum sjómönnum á hverju ári frá örófi alda til seinni hluta tuttugustu aldarinnar.
-----oOo-----
Halldór Ásgrímsson vildi gera sem minnst úr stuðningi sínum og Davíðs við stríðsreksturinn í Írak og benti á að Íslendingar hefðu ekki tekið þátt í stríðinu. Hann er greinilega búinn að gleyma því að með stuðningi sínum þurftu Íslendingar að greiða fyrir vopna- og herflutninga til Írak og jafnvel taka þátt í þeim. Þótt enginn íslenskur hermaður hafi ekki barist í stríðinu, þá er sökin eftir sem áður hin sama, því með aðgerðum sínum studdu Halldór og Davíð við innrásina og því samsekir innrásinni.
Það væri fróðlegt að vita hversu mörgum atkvæðum Framsóknarflokkurinn hefur tapað vegna þeirrar þrjósku Halldórs Ásgrímssonar að neita að biðjast afsökunar á frumhlaupinu frá 2003.
fimmtudagur, apríl 05, 2007
5. apríl 2007 -Bara einn?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:29
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli