laugardagur, apríl 14, 2007

14. apríl 2007 - Ein hræðilega ómannglögg á landsfundi



“Hvað ert þú að gera hér?”
Er það nema von að ég spyrði gamla vinkonu eins og bjáni er ég hitti hana á landsfundi Samfylkingarinnar í Egilshöll á föstudag. Fyrir góðum þremur áratugum síðan höfðum við unnið ötullega að því að bylta þjóðskipulaginu í anda hins kínverska landsföður, reka herinn og ganga úr NATÓ. Síðan þá höfðum við einungis hist við örfá tilfelli og þá helst við “ættarmót” gamalla vinstrimanna við Tjörnina í tengslum við kertafleytingu í minningu fórnarlamba kjarnorkusprengjunnar og svo við friðargönguna á Þorláksmessu.

Og nú var hún komin á landsfund Samfylkingarinnar og ég vissi ekki einu sinni að hún væri gengin í Samfylkinguna. Hún var ekkert ein um það, því margan sá ég gamlan Allaballann á landsfundinum auk eins og annars byltingarsinna fyrri ára.

-----oOo-----

Ég var nýmætt á landsfund Samfylkingarinnar í Egilshöll, er ég taldi mig sjá góða bloggvinkonu mína í hópi nýkominna Norðlendinga og fagnaði henni ákaft og hún fagnaði mér sömuleiðis ákaft, enda ávallt gaman er stuðningsfólk jafnaðarstefnu hittast.
“Og hvernig gekk ferðin suður?”
“Suður? Ég bý nú í Suðurkjördæmi” svaraði konan.
Ég horfði betur á konuna og áttaði mig á að ég var að tala við Ragnheiði Hergeirsdóttur borgarstjóra í Árborg, en ekki Láru Stefánsdóttur varaþingmann og tölvufræðing á Akureyri.

Ég skammast mín alveg ofan í tær eftir þennan misskilning, en hafa verður í huga að bloggvinkonur lenda oft í vandræðum er þær hittast í fyrsta sinn í raunheimum.

-----oOo-----

Í starfshóp um jafnrétti tókst mér að vekja athygli á málefnum transgender einstaklinga. Eitt lítið hænufet í einu :)

-----oOo-----

Mona Sahlin stóð sig alveg snilldarlega! Góðar bloggvinkonur mínar stóðu sig og prýðilega á landsfundinum, en af öðrum bloggvinkonum ólöstuðum, fær Ingibjörg Stefánsdóttir bestu einkunn. Hún hefur aldrei látið fara mikið fyrir sér, en heillaði alla í kringum sig á landsfunginum :)


0 ummæli:







Skrifa ummæli