sunnudagur, apríl 22, 2007

22. apríl 2007 - Enn af Lækjargötubrunanum


Á þeirri stundu sem húsin við Lækjartorg brunnu enn, gaf Vilhjálmur Vilhjálmsson borgarstjori út stórar yfirlýsingar um endurreisn húsanna. Sumir fylgjendur hans líktu frumkvæði hans við Giuliani borgarstjóra í New York er tvíburaturnarnir hrundu árið 2001. Sjálfri datt mér fremur í hug viðbrögð flokksbróður hans í Moderata samlingspartiet í Svíþjóð, Carl Bildt þáverandi forsætisráðherra, þegar Estoniu hvolfdi 28. september 1994, en skipið hafði ekki legið margar klukkustundir á hafsbotni er hann vildi ná því upp aftur. Til kynningar fyrir óupplýsta, þá liggur skipið enn á hafsbotni.

Vilhjálmur borgarstjóri hefur kveðið upp þá skoðun sína að endurreisa beri húsin á gatnamótum Lækjargötu og Austurstrætis í sem næst upprunalegri mynd. Spurningin er bara, hvaða upprunalegu mynd?

Í upphafi var ekkert, ekki einu sinni Austurstræti. Því er ákaflega erfitt að leita aftur til upphafsins, svona álíka erfitt og kröfur Frjálslynda flokksins um varðveislu upprunalega Laugavegarins í borgarstjórnarkosningunum í fyrra. Sú krafa þýddi í reynd að setja skyldi jarðýtu á Laugaveginn. Krafan um að endurbyggja hornið á Austurstræti og Lækjargötu í upphaflegri mynd er álíka fáránleg ef hún er ekki skilgreind miðað við ákveðinn tímapunkt. Þannig er ég ekki í nokkrum vafa um að bróðir minn vildi helst sjá Austurstræti 22 endurbyggt miðað við þann tíma er hann var að selja teppi á efri hæð hússins og vefnaðarvöruverslun í eigu sama fyrirtækis var á neðri hæðinni. Sjálf er ég ekki jafnhrifin og kunni bara ágætlega að sjá litlu gluggana á efri hæðinni fremur en flennistóra verslunarglugga sjöunda áratugarins þar uppi. Vilhjálmur borgarstjóri er svo kannski með þriðju hugmyndina að draumaútliti hússins, því hver og einn á sína minningu af þessu götuhorni.

Ef við höldum svo áfram með nostalgíuna, má rifja upp að einhver kom með þá hugmynd fyrir skömmu að opna Lækinn aftur, þ.e. lækinn sem Lækjargata er kennd við enda þykir fínt í útlöndum að hafa opinn læk í miðborgum. Ég er hinsvegar ekki jafnhrifin af þeirri hugmynd, enda gæti ég trúað að napurlegt væri að ganga eftir Lækjargötunni í norðanbáli með opinn læk sér til hliðar. Önnur hugmynd svona álíka vitlaus væri sú að færa gamla Íslandsbankahúsið (nú Héraðsdóm Reykjavíkur) við Lækjartorg í upprunalegt horf, þ.e. eins og það leit út áratugina frá 1906 og þar til byggt var ofan á húsið.

Það sem ég held að sé þó mikilvægast þegar litið er til þarfa íbúanna, er að byggja fremur lágreist hús á þessum stað þannig að það skyggi ekki um of á sólina, hús að hámarki þrjár hæðir. Það þarf ekkert að vera nákvæmlega eins og húsin sem brunnu en gjarnan í svipuðum stíl svo að sú götumynd sem flestir eiga sér af Lækjartorgi í minningunni raskist ekki um of.

Að endingu legg ég svo til að framhliðar húsanna Lækjargötu 2B og Lækjargötu 12 verði rifnar og byggð ný framhlið á húsin til að skapa samræmda götumynd af Lækjargötu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli