föstudagur, febrúar 10, 2012

10. febrúar 2012 - Um alvopnaða sérsveitarmenn

Eins og allir Íslendingar vita er Guðríður Haraldsdóttir illræmd um land allt fyrir afbrot sín og dæmd fyrir voðaverk sín. Hún hefur þó ekki látið þar við sitja, heldur var hún staðin að verki fyrir að vera illa sofin og tilhöfð í strætisvagnaskýli á Skipaskaga á dögunum, en var bjargað frá frekari glæpum af vöskum sérsveitarmanni sem var á leið í vinnuna. Er ég las um hræðilega glæpi hennar rifjaðist upp fyrir mér lítið atvik frá fyrstu árum mínum í Svíþjóð og gat þeirra í fáeinum orðum og nú heimtar Guðríður að ég játi mína glæpi fyrir alþjóð. Mér er það ljúft.

Ég vil taka fram að þetta atvik átti sér stað áður en ég kom opinberlega úr skápnum með tilfinningar mínar, lifði í vitlausu kynhlutverki opinberlega og með sítt hár.

Ég var einhverju sinni á laugardagsmorgni á leið á vaktina mína með strætisvagni kannski árið 1991 og ég var einasti farþeginn í vagninum. Ég hafði tekið vagninn í Jakobsberg í Järfälla og leið hans lá um Barkarby og síðan gegnum Hässelby gård áður en hann kom á stoppistöðina mína nærri Hässelby strand þar sem ég var vön að hoppa af og ganga síðasta spölinn í vinnuna. Vagninn hélt áfram í gegnum Vinsta og Veddesta áður en komið var til Barkarby station og eftir stutta tímajöfnun þar hélt vagninn áfram í átti til Hässelby. Þegar farið er frá Barkarby station er smákafli þar sem er 30 kílómetra hámarkshraði. Þegar ekið var þar í gegn sá ég lögreglubíl fullan af lögregluþjónum og hugsaði með mér, djöfull eru sænskir lögregluþjónar vitlausir að reyna að ná bílum fyrir of hraðan akstur klukkan sex að morgni.

Vagninn hélt áfram og ég var áfram eini farþeginn í vagninum þar sem hann ók Skälbyvägen. Þegar við komum að gatnamótunum við Byleden þar sem er stuttur kafli með 30 kílómetra hámarkshraða sá ég annan lögreglubíl fullan af lögregluþjónum og enn undraðist ég ákafa lögreglunnar að grípa glæpsamlega bílstjóra sem fara yfir 30 kílómetra hraða. Áfram hélt strætisvagninn til enda Skälbyvägen og beygir þá til hægri inn á Växthusvägen í Hässelby. Þá var ekki komist lengra því við vorum umkringd af lögreglubílum. Lögreglubílar höfðu lokað götunni fyrir framan okkur og það voru lögreglubílar sem lokuðu öllum undankomuleiðum fyrir aftan okkur. Allt í kring voru sérsveitarmenn með alvæpni og miðuðu þeim að strætisvagninum. Mér var hætt að standa á sama.

Þar sem ég sat í strætisvagninum sá ég ofan á kollana á sérsveitarmönnum sem hlupu fram með vagninum og einhverjir gáfu fyrirskipanir og bílstjórinn opnaði dyrnar hjá sér. Einn sérsveitarmaðurinn kemur hálfur inn í vagninn, er enn í hnipri í skjóli við spjald við innganginn í vagninn og kallar eitthvað aftur eftir vagninum. Ég heyrði ekkert hvað hann sagði enda með skemmda heyrn frá sjómennskunni. Ég stóð því upp, gekk frameftir vagninum og kallaði á móti:
„Varstu að kalla á mig?“
Við þessi orð mín stóð sérsveitarmaðurinn upp í öllu sínu veldi og bað mig að koma fram og sýna sér skilríki. Ég gerði það, hann kallaði eitthvað til félaga sinna og það var sem léttir færi um allt umhverfið. Slökkt var á bláum ljósum og byssunum var slakað niður.
„Hvað er í gangi“ spurði ég.
„Það var hættulegur og síðhærður strokufangi á ferð í Jakobsberg í nótt og við héldum að það værir þú.“
„Þá vitið þið betur“ svaraði ég.
„Það er rétt, en mundu eitt,“ sagði sérsveitarmaðurinn, „ef þú lendir aftur í þeirri aðstöðu að lögreglan krefst þess af þér að þú komir fram með hendur fyrir ofan höfuð, reyndu þá að hlýða.“

Eftir þetta ævintýri gat strætisvagninn haldið áfram og lögreglan haldið áfram leit sinni að hættulegum afbrotamanni. Þessi töf kostaði það að ég kom hálftíma of seint á vaktina mína við Hässelbyverket, en aldrei fékk ég svar við einni spurningu minni til sérsveitarmannanna:

„Hvernig dettur ykkur í hug að hættulegur glæpamaður leggi á flótta undan réttvísinni með strætisvagni klukkan sex á laugardagsmorgni?“


0 ummæli:







Skrifa ummæli