sunnudagur, febrúar 19, 2012

19. febrúar 2012 - Umburðarlyndi?


„Jæja, Anna,svona í alvöru; ættir þú ekki að þekkja það manna best að umburðarlyndi á skoðunum að vera í báðar áttir? Eða hvað? Ætlar þú líka að taka þátt einelti og í galdrabrennunni á Snorra af því að þeir líkar ekki við lífsstíl hans? Flest er nú til“.

Fyrir fáeinum dögum tjáði ég mig á Facebook í gamni um mynd af Snorra í Betel þar sem hann stóð undir regnboga og velti fyrir mér hvort hann væri á leið úr skápnum. Ofangreind orð segja allt sem segja þarf um þessi orð mín.

Mér þóttu þessi orð Guðmundar St. Ragnarssonar óeðlileg og óþægileg. Alla tíð hefi ég borið virðingu fyrir Snorra, fjölskyldu hans og öðrum ættingjum hans. Ég hefi aldrei talað illa um þetta fólk, þvert á móti tjáð mig jákvætt og þá sérstaklega um föðurbróður Snorra sem og son hans sem mig grunar að sé nágranni minn og hefur stundað það að aðstoða nágranna mína ef þeir lenda í erfiðleikum. Ég hafði meira að segja tjáð mig jákvætt nokkrum dögum áður á bloggi um þessa ágætu fjölskyldu. Því voru orð Guðmundar St. Ragnarssonar sem rýtingur í bakið.

Ég hefi orðið fyrir meiri fordómum en gengur og gerist um meðalmanninn á Íslandi. Ég hefi svarað með því að vera jákvæð gagnvart því fólki sem sýnir mér fordóma þótt vissulega hafi það komið fyrir að ég hafi misst mig þegar fólkið sem sýndi mér fordóma gekk of langt og óskað mér pyntinga og dauða. Ég hefi orðið að berjast fyrir tilveru minni með kjafti og klóm og ég tel að ég hafi unnið sigur á þann hátt að velflestir Íslendingar eru búnir að viðurkenna mig og eru sáttir við tilvist mína. Þessi barátta var ekki sársaukalaus og örin á sálinni eru varanleg.

Meðal verstu andstæðinga minna voru einstaklingar sem töldu sig vera í baráttu gegn mér af trúarlegum ástæðum. Ég lét orð þeirra fara framhjá mér eins og vindinn, en svaraði þó þegar á mig var ráðist, oftast þó með glensi og gríni.

Falleg mynd af Snorra í Betel undir regnboganum í DV, merki samkynhneigðra um allan heim, urðu til þess að ég setti inn færslu á þá leið að ég spurði hvort Snorri væri á leið úr skápnum. Spurningin var eðlileg því margir samkynhneigðir vinir mínir földu tilfinningar sínar á bakvið fordóma gagnvart samkynhneigðum. Sjálf þekki ég þetta af eigin reynslu þar sem ég byggði upp eigin fordóma á þeim árum er ég lifði í röngu kynhlutverki.

Kvörtun Guðmundar St. Ragnarssonar yfir orðum mínum er þó óásættanleg að einu leyti. Þótt ég hafi reynt að umbera hatur og fyrirlitningu fólks í minn garð, hefi ég aldrei gert mig seka um að kyssa á vöndinn, þennan vönd sem ég var barin með en neitaði að samþykkja og kyssa. Ég mun aldrei kyssa vöndinn og mun því aldrei  samþykkja orð Guðmundar um umburðarlyndi í þessum efnum. Það er kominn tími til að Guðmundur St. Ragnarsson sýni mér það umburðarlyndi að biðja mig afsökunar á orðum sínum.



0 ummæli:







Skrifa ummæli