fimmtudagur, janúar 19, 2012

19. janúar 2012 - Séra Sigríður Guðmarsdóttir

Vorið 2010 fékk ég símtal frá prestinum í Grafarholtssókn. Presturinn vildi fá mig og aðra í stjórn Samtakanna 78 til samtals um frumvarp til laga um ein hjúskaparlög. Að sjálfsögðu sagði ég já sem og einhver fleiri í stjórn Samtakanna. Við biðum eftir jákvæðri afstöðu kirkjunnar og Sigríður Guðmarsdóttir tók af skarið. Auk okkar sem teljumst hinsegin voru nokkrir jákvæðir prestar á hádegisfundinum, Guðrún í Grafarvogssókn, Jón Helgi í Langholtssókn og einhver fleiri sem ég man ekki lengur.

Ég þekkti ekki Sigríði frá fyrri tíð. Það kom þó fljótlega í ljós að faðir hennar, Guðmar Magnússon hafði tekið við af mér í stjórn Ættfræðifélagsins og því þekkti ég hann ágætlega. Slík ættartengsl eru ekki til að draga úr áliti á einni manneskju, enda er Guðmar einn þeirra sem ekki er hægt annað en að bera virðingu fyrir. Þá er ekki verra að vita af afkomendum hans sem standa enn framar í baráttunni fyrir mannréttindum á öllum sviðum.

Við Sigríður áttum ágætis samstarf um vorið, aðallega í tengslum við prestastefnu þá um vorið þar sem ekki tókst að fá fram ítrasta stuðning við ein hjúskaparlög þrátt fyrir baráttu hennar og 92 annarra kirkjunnar þjóna fyrir lagafrumvarpinu. Lögin náðu samt í gegn og við þökkuðum 93 prestum fyrir stuðning þeirra á hátíðarsamkomu hinn 27. júní þegar ný hjúskaparlög tóku gildi.

Við Sigríður höfum verið ágætlega kunnug síðan þá og ég veit að hún er færust allra til að leiða þjóðkirkjuna.

Á langri ævi hefi ég kynnst tveimur biskupum. Ég kynntist Ólafi Skúlasyni lítillega á sjöunda áratugnum þegar hann var sóknarprestur í Bústaðasókn og kom niður í Ræsi hf að hitta sóknarnefndarformanninn Axel Ludvig Sveins, mann sem því miður féll frá alltof snemma. Síðar lýsti hann yfir undrun sinni og skelfingu er ég kom fram í íslensku tímariti og sjónvarpi og talaði um tilfinningar mínar. Þetta var eitthvað sem hann þekkti ekki og því voru viðbröðin eðlileg. Í framhaldinu áttum við í bréfaskriftum þar sem hann bað fyrirgefningar á orðum sínum og urðu engin eftirmál af þessu máli. Karl Sigurbjörnsson  biskup var sóknarprestur í Hallgrímssókn er ég gekk í gegnum skilnað árið 1984 og þurfti að fá uppáskrift prests og leysti hann það mál vel. Það má deila um önnur verk þessara biskupa, en það er mér algjörlega óviðkomandi þótt deila megi um verkin á opinberum vettvangi.

Öfugt við þessa tvo biskupa veit ég engan ágalla á störfum Sigríðar Guðmarsdóttur, kannski einn, en hann er sá að ef hún verður biskup mun Grafarholtssókn missa sinn vinsæla og jákvæða prest. Ég ætla samt að styðja hana til biskups af fremsta megni.

Og þó, hver á að jarða mig ef séra Sigríður Guðmarsdóttir verður kjörin biskup?
  


0 ummæli:Skrifa ummæli