miðvikudagur, september 26, 2012

27. september 2012 - Strákarnir á borginni



Það er miðvikudagskvöld og ekkert í sjónvarpinu, útvarpið er sömuleiðis lélegt og ég set disk undir geislann og í þetta sinn verður Bubbi nokkur Mortens fyrir valinu, reyndar eins og oft áður. Þegar lagið um strákana á Borginni hljómar fer ég að hugsa til baka í tíma. Árið er 1984 og ég er að gægjast út úr skápnum.

Hvernig hafði lífið verið fram að þessu. Ég var uppfull fordóma í feluleik fyrir sjálfri mér. Hvenær sem tækifæri gafst gerði ég lítið úr samkynhneigðum í heyranda hljóði, en um leið og ég var ein með sjálfri mér reyndi ég að komast í kynni við þennan „óþjóðalýð“.  Það eru 28 ár síðan þetta lag hljómaði fyrst og ég fullyrði hér og nú að lagið „Strákarnir á Borginni“ olli straumhvörfum í afstöðunni til hinsegin fólks á Íslandi, þá sérstaklega samkynhneigðra. Samkynhneigð hafði verið í felum öll ár uns Samtökin 78 voru stofnuð fáeinum árum fyrr og fæstir voru reiðubúnir til að kyngja því að samkynhneigð væri eitthvað sem væri til frambúðar. Meira að segja ég var uppfull fordóma, fylgdi straumunum, var meðvirk fjöldanum eins og það heitir í dag.

Þótt ég hafi reynt að kíkja aðeins út úr skápnum eftir hjónaskilnað vorið 1984 var það ekki af neinni alvöru, rétt til að kynnast hinsegin lífinu en svo lenti ég í sambandi og skellti skáphurðinni á eftir mér. Það liðu enn fleiri ár áður en ég kom út aftur og þá af alvöru.

Lagið Strákarnir á Borginni kom út um svipað leyti og ég gægðist út. Lagið fylgdi mér því eftir að ég lokaði mig aftur inni fann ég að ég var að gera rangt. Ég var að loka á fólkið mitt því ég var hrædd og þorði ekki að taka skrefið og vera ég sjálf. Rétt eins og að dyraverðir hata þá, hóta að skera undan þeim og flá, var ég engan veginn reiðubúin að ganga alla leið og lenda í sömu örlögum og hommarnir sem láta skera undan sér og flá.

Árin eftir að lagið „Strákarnir á Borginni“ kom út á plötunni „Ný spor“ fann ég hve afstaða fólks breyttist í garð samkynhneigðra og hinir harðgerðustu karlar hlustuðu á „Strákana á Borginni“ eins og ekkert væri sjálfsagðara en að strákurinn væri hommi.

Í dag stend ég frammi fyrir því að meðal sterkasta stuðningsfólks transfólks er fólk sem ekki er trans. Á sama hátt held ég að hinn gagnkynhneigði Bubbi Mortens hafi gert meira fyrir samkynhneigða en aðrir Íslendingar gerðu á þessum árum sem samkynhneigð öðlaðist viðurkenningu á Íslandi.

Takk Bubbi!  


0 ummæli:







Skrifa ummæli