sunnudagur, september 30, 2012

30. september 2012 - Einelti

Umræðan um einelti hefur verið hávær síðustu dagana. Fleiri ungar stúlkur hafa stigið fram og líst því hvernig þær urðu fyrir einelti sem börn og hafa þær sagt frá líðan sinni í þessu sambandi. Þá hefur ungs drengs verið minnst sem varð fyrir einelti og svipti sig lífi fyrir rétt rúmu ári og fleiri aðilar hafa tjáð sig á netinu um einelti sem þau hafa orðið fyrir á fyrri árum.

Sjálf þekki ég einelti mjög vel. Ég hefi orðið fyrir alvarlegu einelti, jafnvel svo að ég hraktist úr vinnu vegna þessa, en um leið tel ég mig heppna að hafa aldrei látið bugast eða orðið fyrir alvarlegum líkamsmeiðingum. Ég lenti í einelti í skóla, ekki af hálfu samnemenda minna heldur af hálfu kennara á unglingsárunum. En það er langt um liðið og í dag hefi ég einungis gaman af minningunum og hvernig hispursleysi mitt sem svar við leiðinlegri framkomu kennara kostaði mig ferðir til skólastjórans í þeim fræga skóla sem kallaður var „Gaggó Vest“.

Um leið veit ég um fjölda samherja sem hafa orðið fyrir grófu einelti, jafnvel beinu ofbeldi og einhverjir samherja minna í baráttu sinni fyrir betra samfélagi hafa orðið að gjalda fyrir tilfinningar sínar og baráttu með lífinu, þar á meðal fólk sem ég hefi verið samferða í lífsbaráttunni.

Ég viðurkenni fúslega að hafa einnig lagt fólk í einelti, ekki bara fólk, heldur heilu stjórnmálahreyfingarnar. Ótaldir stjórnmálamenn hafa fengið það óþvegið hjá mér, kannski svo að þeim sárnaði, en þó hefi ég reynt að gæta þess að tala ekki illa um persónu þeirra eða fjölskyldur þótt það kunni að hafa verið misbrestur á slíku stöku sinnum.

Það heitir hinsvegar ekki einelti er ég reyni að svara fyrir mig er ráðist er á mig og baráttufélaga mína með fordómum og svívirðingum, ekki heldur þegar árásirnar eru færðar í „fræðilegan“ búning eins og þegar einn ónefndur andstæðingur transfólks á Íslandi reyndi að að sverta baráttu okkar og lítilsvirða hana með lygum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli