laugardagur, september 29, 2012
29. september 2012 - Kodak Instamatic
Á unglingsárunum átti ég litla einfalda myndavél sem hét Kodak Instamatic. Það voru engar stillingar á henni, bara að finna sér fórnarlamb til myndatöku og „klikk“ og viðfangsefnið var á filmu. Jú það var eitt atriði sem hægt var að stilla, ef of dimmt var úti setti maður flasskubb ofan á myndavélina og dugði hann fyrir fjórar myndir með flassi. Svo var bara að drífa sig með filmuna til Hans Petersen og sækja svo myndirnar viku síðar og njóta afrakstursins.
Ekki voru gæðin mikil. Notast var við meðalfókus og meðalhraða og meðaljósop. Samt lét maður sig hafa það enda þekkti maður fátt betra í myndatökum. Ekki var ég ein um að eiga svona myndavél. Ég held að margir ef ekki flestir unglingar hafi átt svona myndavélar og einungis þeir sem lengra voru komnir í myndatökum áttu betri myndavélar.
Síðar eignaðist ég betri myndavél og enn síðar eftir að stafræna tæknin náði tökum á ljósmyndatækninni varð algjör bylting í myndatökum almennings. Margir fengu sér góðar myndavélar, en aðrir náðu ótrúlegri færni í myndatökum á nýlegum gerð smávéla.
En allt hefur sinn enda, einnig góðu myndirnar því nú er komin ný della fáránleikans sem minnir verulega á gömlu Kodak Instamatic myndavélarnar. Þessi nýja della er kölluð Instagram og mun vera einhverskonar léleg eftirherma af gömlu Instamatic myndunum. Skyndilega er það orðið helsta hátískan að taka lélegar myndir og því lélegri sem þær eru og færðar úr fókus, því meira hrós fá þær og tilfinningarnar gjósa upp yfir fegurð ljótleikans.
Ein vinkona mín á Facebook var mynduð með fjólubláa kinn eins og hún væri með stærðar mar á kinninni. Hún setti þessa mynd þegar í stað sem aðalmynd hjá sér og meðvirku vinirnir áttu ekki orð yfir glæsileikanum. Einungis ég hafði rænu á að mótmæla rétt eins og litli drengurinn sem mótmælti nýju fötum keisarans, en það tók heldur enginn mark á mér. Á föstudag tók einhver mynd af Stefáni Pálssyni þar sem hann virtist allur úr lagi genginn og náfölur og síðast í morgun birtist mynd af Sigmundi „Óbama Íslands“ Gunnlaugssyni þar sem hann talaði yfir hausamótunum á flokkssystkinum sínum sem sáust öll í þoku sem og helsta vonarprinsessa Framsóknarflokksins sem sat við hlið formannins og virtist vera með eldrautt andlit í hinu fáfengilega litrófi Instagram.
Nei takk, ég er löngu búin að kasta minni gömlu Instamatic myndavél og ég ætla ekki gera myndatökurnar enn verri með Instagram.
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 13:25
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli