föstudagur, janúar 27, 2012

27. janúar 2012 - Um vantraust á hendur Kjartani Valgarðssyni

Ég kynntist ekki Kjartani Valgarðssyni fyrr en hann bauð sig fram til formanns Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Árin á undan hafði hann starfað hjá Þróunarsamvinnustofnun suður í Afríku og því víðs fjarri þegar ég kom inn í stjórn SffR. Því vissi ég einungis af honum af afspurn

Eftir að Kjartan hafði verið kjörinn formaður SffR var ég dálítið gagnrýnin á störf hans. Mér fannst hann óvæginn og harður stjórnandi bæði við sjálfan sig og aðra, en þó aðallega sjálfan sig. Eftir því sem ég kynntist honum betur sá ég hve við vorum á svipaðri línu í pólitík, bæði úr gamla Alþýðubandalaginu og bæði hrifin af störfum Socialdemokraterna í Svíþjóð þótt ég hafi aldrei verið meðlimur þar eins og Kjartan. Ég hætti að gagnrýna Kjartan. Ég gekk úr stjórn SffR á aðalfundi fyrir tæpu ári vegna mikilla anna á öðrum sviðum, hefi mætt illa á félagsfundi og stærri samkomur, en hjartað verður þó áfram á sama stað og fyrrum.

Síðastliðinn miðvikudag var haldinn félagsfundur í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík þar sem nokkrir tugir félagsmanna voru samankomnir þar á meðal ég sjálf. Þetta var óhefðbundinn félagsfundur án sérstakrar framsögu þar sem öllum viðstöddum var gefinn kostur á að tjá sig um atkvæðagreiðsluna á Alþingi nokkrum dögum áður þar sem frávísunartillögu Magnúsar Orra Schram og fleiri var hrundið, meðal annars með atkvæðum fjögurra þingmanna Samfylkingarinnar. Næstum allir fundargestir lýstu yfir óánægju með atkvæði fjórmenninganna þótt einhverjir hafi í framhjáhlaupi varið stöðu Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur forseta Alþingis er hún samþykkti fyrir jólin að taka þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar á dagskrá á fyrstu dögum þingsins eftir áramót og get ég fyllilega fallist á þau sjónarmið.

Í upphafi fundarins sagði Kjartan frá einhverjum úrsögnum úr SffR vegna úrslita atkvæðagreiðslunnar á Alþingi og hefur verið skýrt frá fundinum í fjölmiðlum þá aðallega í DV og á Eyjunni.

Á föstudagskvöldið las ég að komin væri fram krafa um vantraust á Kjartan vegna einhverra nafnlausra tölvupósta sem hann á að hafa sent DV. Ég veit ekkert hvað er til í slíku, hefi ekki heyrt það fyrr og tek fyrirvara við öllum nýjum „fréttum“ á Eyjunni. Kjartan hefur krafist þess að Samfylkingin starfi meira í samræmi við störf systurflokkanna á Norðurlöndunum og Þýskalandi, hætti allri óþarfa persónudýrkun og kjördæmapoti og vinni í samræmi við ályktanir flokksins á landsfundum. Slíkt er hið versta mál fyrir kjördæmapotarana sem vilja að flokkurinn snúist um sig og sín mál en ekki um þjóðina.     

Ef það er satt að komin sé krafa um vantraust á Kjartan Valgarðsson, skal ég vera fyrst til að mæta og lýsa yfir trausti mínu á hann. Um leið verður forystan að búast við stórfelldum úrsögnum úr Samfylkingunni, þar á meðal minni eigin verði slíkt vantraust samþykkt.  Best er þó ef Kjartani verða falin frekari trúnaðarstörf á vegum Samfylkingarinnar og íslensku þjóðarinnar.


fimmtudagur, janúar 19, 2012

19. janúar 2012 - Séra Sigríður Guðmarsdóttir

Vorið 2010 fékk ég símtal frá prestinum í Grafarholtssókn. Presturinn vildi fá mig og aðra í stjórn Samtakanna 78 til samtals um frumvarp til laga um ein hjúskaparlög. Að sjálfsögðu sagði ég já sem og einhver fleiri í stjórn Samtakanna. Við biðum eftir jákvæðri afstöðu kirkjunnar og Sigríður Guðmarsdóttir tók af skarið. Auk okkar sem teljumst hinsegin voru nokkrir jákvæðir prestar á hádegisfundinum, Guðrún í Grafarvogssókn, Jón Helgi í Langholtssókn og einhver fleiri sem ég man ekki lengur.

Ég þekkti ekki Sigríði frá fyrri tíð. Það kom þó fljótlega í ljós að faðir hennar, Guðmar Magnússon hafði tekið við af mér í stjórn Ættfræðifélagsins og því þekkti ég hann ágætlega. Slík ættartengsl eru ekki til að draga úr áliti á einni manneskju, enda er Guðmar einn þeirra sem ekki er hægt annað en að bera virðingu fyrir. Þá er ekki verra að vita af afkomendum hans sem standa enn framar í baráttunni fyrir mannréttindum á öllum sviðum.

Við Sigríður áttum ágætis samstarf um vorið, aðallega í tengslum við prestastefnu þá um vorið þar sem ekki tókst að fá fram ítrasta stuðning við ein hjúskaparlög þrátt fyrir baráttu hennar og 92 annarra kirkjunnar þjóna fyrir lagafrumvarpinu. Lögin náðu samt í gegn og við þökkuðum 93 prestum fyrir stuðning þeirra á hátíðarsamkomu hinn 27. júní þegar ný hjúskaparlög tóku gildi.

Við Sigríður höfum verið ágætlega kunnug síðan þá og ég veit að hún er færust allra til að leiða þjóðkirkjuna.

Á langri ævi hefi ég kynnst tveimur biskupum. Ég kynntist Ólafi Skúlasyni lítillega á sjöunda áratugnum þegar hann var sóknarprestur í Bústaðasókn og kom niður í Ræsi hf að hitta sóknarnefndarformanninn Axel Ludvig Sveins, mann sem því miður féll frá alltof snemma. Síðar lýsti hann yfir undrun sinni og skelfingu er ég kom fram í íslensku tímariti og sjónvarpi og talaði um tilfinningar mínar. Þetta var eitthvað sem hann þekkti ekki og því voru viðbröðin eðlileg. Í framhaldinu áttum við í bréfaskriftum þar sem hann bað fyrirgefningar á orðum sínum og urðu engin eftirmál af þessu máli. Karl Sigurbjörnsson  biskup var sóknarprestur í Hallgrímssókn er ég gekk í gegnum skilnað árið 1984 og þurfti að fá uppáskrift prests og leysti hann það mál vel. Það má deila um önnur verk þessara biskupa, en það er mér algjörlega óviðkomandi þótt deila megi um verkin á opinberum vettvangi.

Öfugt við þessa tvo biskupa veit ég engan ágalla á störfum Sigríðar Guðmarsdóttur, kannski einn, en hann er sá að ef hún verður biskup mun Grafarholtssókn missa sinn vinsæla og jákvæða prest. Ég ætla samt að styðja hana til biskups af fremsta megni.

Og þó, hver á að jarða mig ef séra Sigríður Guðmarsdóttir verður kjörin biskup?
  

mánudagur, janúar 16, 2012

17. janúar 2012 - Vigdís Hauksdóttir

Ég hefi aldrei verið sérlega hrifin af orðum eða gerðum Vigdísar Hauksdóttur alþingismanns en hún situr á Alþingi í umboði stjórnmálaflokks sem hefur löngum verið tákn um liðna tíð, en fór að hallast ískyggilega til hægri á síðustu tveimur áratugum með forystusveit manna eins og Finns Ingólfssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Ég gat ekki séð að Vigdís hafi bætt álitið á Framsóknarflokknum með orðum sínum, ekki frekar en mágur hennar sem gekk svo langt að kyssa kýr til að öðlast virðingu meðal almennings.

Ég skal þó játa að eftir undarlega fréttamennsku að undanförnu fór ég að sakna skemmtilegu frasanna hennar á Alþingi sem minntu oft á Bibbu á Brávallagötunni. Á meðan Alþingi hefur verið í jólaleyfi hefur hvert hneykslismálið rekið annað í fjölmiðlum og samskiptasíður á borð við Facebook hafa verið uppfullar af hneykslisfréttum af kadmíuminnihaldi í áburði, iðnaðarsílikoni í brjóstafyllingum og iðnaðarsalti. Sjálf hefi ég tekið þessari umræðu léttilega þótt ég neyti íslenskra landbúnaðarafurða eins og aðrir íbúar Íslands, hefi enn ekki kostað á mig brjóstafyllingum hjá Jens skólafélaga mínum í gaggó og er við góða heilsu og óttast því lítt þótt einhver óhreinindi kunni að finnast í pulsunum, smjörinu eða flatbökunni. Umræðan var hinsvegar svo ofsakennd í fjölmiðlum að mér fór að blöskra og lá við að ég saknaði Alþingis vitandi að um leið og Vigdís Hauksdóttir byrjaði að tala eftir setninu Alþingis eftir jólaleyfi færi öll umræða að snúast um orð hennar þar sem hún eflir ríkisstjórnina með einkennilegum skömmum sínum.

Nú hefur Alþingi komið saman að nýju og hið fyrsta sem ég sá á Facebook var tilvitnun í blogg Illuga Jökulssonar þar sem hann vitnar í Vigdísi Hauksdóttur undir fyrirsögninni „Í skrípalandi“. Ég verð að játa að ég hélt að Illugi væri að gera grín að henni í pistli sínum en sá svo að facebooksíða Vigdísar er öllum opin. Ég læddist inn á síðuna og sá þar margt skemmtilegt, meðal annars að Framsóknarmenn í Reykjavík halda þorrablót fyrir miðjan janúar þótt þorrinn byrji ekki fyrr en rúmri viku síðar.  Um leið sá ég einnig að tilvísun Illuga var ekki höfð eftir Vigdísi á Alþingi í dag, heldur bein tilvitnun í orð hennar sjálfrar á Facebook frá því í gær, en þar stendur skrifað með orðum hennar:

Vigdís Hauksdóttir - er farin að hallast að því að "ráðendur" noti iðnaðarsaltið til að tala niður íslenska framleiðslu og landbúnaðarafurðir
- sé að krataáróðurinn stefnir í þá átt !!!

Takk Vigdís mín, mér finnst að ríkisstjórn Íslands undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur eigi að veita þér sérstaka viðurkenningu fyrir óeigingjarnan og dyggan stuðning við ríkisstjórnina í baráttu hennar fyrir endurreisn íslensks atvinnulífs án þess að eiga eina krónu eftir hrun fjármálakerfisins. Nú skil ég betur hvað Sigríður Ingibjörg vinkona mín á við er hún hrósar þér fyrir gott samstarf á Alþingi.

þriðjudagur, janúar 03, 2012

3. janúar 2012 - Eru vatnssalerni hátækni?

Frægt hátæknisjúkrahús hefur verið lengi í umræðunni þótt engir peningar séu til svo hægt sé að byggja það í Vatnsmýrinni neðan við gamla Landspítalann. Persónulega er ég á móti því að það sé byggt á þessum stað, hefði frekar kosið að sjá það nær stórum umferðaræðum í Fossvogi, nær Sæbraut/Reykjanesbraut og Kringlumýrarbraut, en til vara á einhverjum mun kyrrlátari stað fjær miðborgarmenguninni.

Þær breytingar sem þarf að gera á umferðinni svo hægt verði að byggja sjúkrahúsið á fyrirhuguðum stað mun skipta mörgum milljörðum sem bætast ofan á þá 40 milljara sem steinkumbaldinn mun kosta skattgreiðendur. Það er um leið alls ekki öruggt að hægt verði að koma allri þeirri umferð fyrir á gamla Landspítalasvæðinu, en umhverfi Landspítalans er þegar erfitt umferðinni á álagstímum. Það má svo deila um hvort monster af þeirri gerð sem fyrirhugað hátæknisjúkrahús sé ekki að verða úrelt þar sem margar aðgerðir verða sífellt auðveldari viðureignar og minni þörf á langleguplássum á sjúkrahúsum.

Stuðningsmenn hátæknisjúkrahúss neðan við gamla Landspítalann hafa bent á ýmis rök máli sínu til stuðnings, meðal annars fengið einhvern Norðmann til að reikna sparnað spítalans við rekstur á einum stað allt að 2,6 milljörðum króna á ári. Ég hefi enga aðstöðu til að rengja þessa upphæð þótt mér finnist hún ótrúlega há, en spyr mig um leið hverjir séu vextirnir af 40 milljörðunum sem hátæknisjúkrahúsið mun kosta auk kostnaðar vegna breytinga á umferðinni þegar engir peningar eru til í ríkisstjóði eftir hrunið 2008?

Nú hafa stuðningsmenn hátæknisjúkrahússins komið með nýtt vopn sem ég á engin svör við. Í viðtali við útvarpið í morgun benti lækningaforstjóri Landspítalans á nauðsyn þess að fjölga salernum á spítalanum til að koma í veg fyrir Noro sýkingu og því myndi vandamálið vegna Noro veirunnar leysast þegar spítalinn kæmist inn í hið nýja sjúkrahús þótt ekki nefndi notaði hann orðið hátækni í þessu sambandi. Þegar haft er í huga hversu mikil áhersla var á að nýi spítalinn yrði kallaður hátæknisjúkrahús get ég ekki skilið orð hans á annan veg en þann að hátæknin sé fólgin í fjölgun vatnssalerna.

Niðurstaðan er því þessi: Vatnssalerni eru hátækni!

sunnudagur, janúar 01, 2012

1. janúar 2012 - Um sjóslys

Árið 2011 leið án þess að nokkur íslenskur sjómaður biði bana við störf sín. Þetta eru ánægjuleg tíðindi og í annað sinn í Íslandssögunni sem heilt ár líður án mannskaða. Áður var árið 2008 laust við banaslys, en aldrei áður í sögu Íslands hafði heilt ár liðið án mannskaða.

Það er af sem áður var. Það er ekki langt síðan staðan var önnur og verri. Ekki eru margir áratugir liðnir síðan tölu sjómanna sem fórust mátti telja í mörgum tugum á hverju ári. Má þar benda á tölur sem Hagstofa Íslands vann árið 1990 fyrir Rannsóknarnefnd sjóslysa sem sýndi á árunum 1900 til 1990 fórust 4016 af slysförum við Íslandsstrendur eða á hafi úti eða um 45 manns á ári til jafnaðar. Sum árin voru virkilega svört eins og 1959 þegar 42 íslenskir sjómenn fórust í tveimur sjóslysum í febrúar, en mikill fjöldi á því ári öllu. Einnig má nefna mikinn fjölda sem fórust árin 1955, 1963 og 1968. Ástandið var reyndar svo slæmt á þessum tíma að þegar ég hóf störf á sjó árið 1966 mátti ég búast við að slasast á sjó fimm sinnum á starfsævinni og að líkindin á því að farast voru allt að þriðjungur af starfsævinni. Það var svo sannarlega þörf á aðgerðum en flestir ypptu öxlum og töluðu um eðlilegar fórnir við störf á erfiðustu hafsvæðum heimsins.

Það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum sem hlutir fóru að gerast á Íslandi. Með tilkomu Rannsóknarnefndar sjóslysa snemma á áttunda áratugnum og rannsóknum nefndarinnar á hinum ýmsu slysum kom berlega í ljós að víða var pottur brotinn í öryggismálum sjómanna á öllum sviðum, meðal þeirra sjálfra, útgerðarmanna, útbúnaði skipa og ekki síst í björgunarbúnaði í landi. Á meðan héldu sjóslysin áfram og á hverju ári fórust tugur eða tugir manna.

Um miðjan níunda áratuginn kemur þrennt til sögunnar. Landhelgisgæslan fær öfluga björgunarþyrlu í þjónustu sína, TF-SIF. Þá var Slysavarnarskóli sjómanna stofnaður og loks voru flotbúningar lögleiddir um borð í öllum íslenskum skipum. Árangurinn var ekki lengi að skila sér. Strax árið 1987 fórust innan við tugur manna á sjó og hefur slíkt verið árvisst frá því fyrir miðjan tíunda áratuginn og þá sérstaklega eftir aldamótin.

Eins og árið er getið var árið 2008 fyrsta árið án banaslysa á sjó. Með sjóslysum í desember 2009 og slysi árið 2010 var ljóst að ekki tækist að halda þeim árum banaslysalausum en það tókst í fyrra og að sjálfsögðu ber að fagna því.

Það er ljóst að allir þessir nýju öryggisþættir eiga sinn þátt í að svona er komið. Öryggisvitund sjómanna og Slysavarnarskóli sjómanna, betri björgunarþyrlur, Rannsóknarnefnd sjóslysa, flotbúningar og betri búnaður um borð í skipum. Það má þó hvergi slaka á kröfunum og það verður að gera þá kröfu til allra sem koma að þessum málum að allir haldi sér á tánum í öryggismálunum, annars mun ekki líða langur tími uns allt fer á verri veg að nýju. Þar horfi ég sérstaklega á þyrlurnar.    

Stundum hefur aðeins ein þyrla til taks og einstöku sinnum engin þyrla. Slíkt má ekki gerast og gera verður þá kröfu til eiganda björgunarþyrlanna, þ.e. ríkisins, að ávallt verði til nægur þyrlufloti til að fara í björgunaraðgerðir hvar sem er og hvenær sem er innan tvö hundruð mílna landhelginnar. Ef litið er til björgunarþyrlusveitar Varnaliðsins sáluga, þá voru þeir lengi með fimm þyrlur í sinni björgunarsveit á Keflavíkurflugvelli, tvær í stöðugu viðbragði, aðrar tvær til vara og loks eina í viðhaldi. Björgunarþyrlusveit fyrir heila þjóð má vart vera minni  ef takast á að bjarga öllum þeim sem þurfa á tafarlausri björgun að halda.