föstudagur, desember 26, 2014

26. desember 2014 - Um sögnina að éta


Ég tjáði mig á Facebook um að ungur myndarlegur maður og konan hans hefði gefið mér að éta á jóladag.  Þegar urðu miklar vangaveltur yfir sögninni „að éta“. Á þessu átti ég von því ég er ekki vön að tala um að fólk éti og finnst jafnvel óþægilegt að tala um að kettirnir mínir éti þótt mér hafi verið kennt í barnaskóla að menn borða en dýr éta.

Ástæður þessa orðalags míns á Facebook eiga sér stað í nærri hálfrar aldar skólaminningu frá þeim tíma er ég settist í landsprófsbekk í þeim fræga gagnfræðaskóla Gaggó Vest, þ.e. Gagnfræðaskóla Vesturbæjar sem þá var við Vonarstræti í Reykjavík.  Ekki veit ég hvort ákvörðun mín um að fara í landspróf hafi verið mjög ígrunduð, en allavega var ljóst að ég mætti mótlæti frá fyrsta degi. Reyndar var það ekki frá nemendum sem urðu margir ágætir kunningjar mínir á þessum tíma þótt flestir séu mér gleymdir í dag, fremur frá skólayfirvöldum og kannski var ég verst sjálfri mér.

Það byrjaði strax fyrsta skóladaginn. Við sátum og biðum eftir kennaranum og Björn Þorsteinsson sagnfræðingur geystist inn í kennslustofuna með sitt glæsilega, eldrauða og þrútna nef. Það varð skellihlátur í bekknum en fæst okkar höfðum séð manninn áður og ekki gert okkur í hugarlund hvernig hann leit út. Ég reyndi að hemja mig þar sem ég sat framarlega í skólastofunni en missti samt út úr mér eitthvert fliss, enda leit nef mannsins út eins og gervinef. Þrátt fyrir þetta var ég ein send til skólastjórans fyrir að gera grín að kennaranum. Ég var ekki sátt við þetta því ég hafði þó reynt að halda aftur af mér, öfugt við marga aðra nemendur. Skólastjórinn var Óskar Magnússon frá Tungunesi í Svínavatnshreppi,  nokkuð strangur sem gætti þess að halda nemendunum í hæfilegri fjarlægð og fékk ég þarna lexíu um hvernig ég ætti ekki að hegða mér í siðaðra manna samfélagi eða bjó ég kannski í vitlausu hverfi?  Höfðaborgin var enginn draumastaður fyrir verðandi menntafólk.  Ég kynntist Birni Þorsteinssyni aðeins síðar í sambandi við Samtök herstöðvaandstæðinga og urðu það hin ágætustu kynni.

Það liðu ekki margir dagar uns ég lenti aftur hjá skólastjóra. Náttúrufræðikennarinn hélt heilmikla tölu um hvernig menn éta hitt og þetta. Orð náttúrufræðikennarans voru í hrópandi ósamræmi við það sem mér hafði verið kennt í barnaskóla að Brúarlandi og ég missti úr mér að mér hefði verið kennt að menn borða en dýr éta. Ég var umsvifalaust send til skólastjóra þar sem mér var gerð grein fyrir því að kennarinn hefur ávallt rétt fyrir sér. Þá kom fyrir eitt atvik í enskutíma þar sem enskukennarinn lét mig lesa upphátt úr kennslubókinni texta um dálæti mitt á kjólum. Ég var ekki alveg reiðubúin að tjá mig neitt um slíkt, var í harðri varnarbaráttu við sjálfa mig og tilfinningar mínar og byrjaði að roðna og svitna um leið og ég byrjaði að stauta mig fram úr textanum um það hvað mér þætti gaman að vera í fallegum kjólum. Að lokum gafst ég upp, neitaði að lesa lengra og var umsvifalaust send til skólastjóra sem veitti mér ærlegt tiltal.

Ég viðurkenni alveg að ég var ekki alltaf saklaus af prettunum.  Jóhann Briem listmálari kenndi okkur myndlist. Þetta voru tveir samliggjandi tímar í viku sem hófust að þessu sinni með því að hann teiknaði skemmtilega mynd af ínúíta fyrir framan snjóhús og við hlið ínúítans teiknaði hann lítinn hund, allt mjög fallegt eins og honum einum var lagið. Í frímínútunum á milli tímanna notaði ég tækifærið, þurrkaði út hundinn og teiknaði leikfangabíl í staðinn og band frá honum upp í hendi ínúítans. Það kostaði ferð til skólastjóra.

Þegar kom að miðsvetrarprófum var ég löngu búin að fá nóg af skólasetunni, kennurum og skólastjóra og langaði mest til að koma mér í burtu, sem allra lengst frá þessum skóla. Þetta kom ágætlega fram í einkunnum á prófunum sem báru það með sér að ekki hefði mikið verið lesið fyrir prófin. Ég mætti þó í skólann eftir nýár ákveðin í að standa mig betur.

Fáeinum dögum eftir að skólinn hófst að nýju eftir jólafríið vorum við að þvælast fyrir utan skólann í frímínútum þegar Volkswagen bifreið af þeirri gerð sem var með eitthvað sem líktist handföngum upp úr stuðurum bílsins kom akandi Vonarstrætið og upp á gangstéttina við Iðnó, en bílstjórinn fór inn í leikhúsið. Gullið tækifæri til að gera at í bílstjóranum blasti við og nokkrir stórir og stæðilegir strákar í fjórða bekk drösluðu bílnum til svo að framendinn nam við húsið en afturendi bílsins við steinkant fyrir aftan hann. Sjálf horfði ég á aðfarirnar án þess að aðhafast neitt í málinu, en þótti þetta spaugilegt. Bíllinn stóð þarna frameftir degi, enda ekki á eins manns færi að færa hann í burtu, en hann var farinn morguninn eftir þegar ég mætti í skólann. Eigandi bílsins hafði að auki kvartað yfir þessu til skólastjórans og sá vissi alveg hver væri sökudólgurinn. Það var því ekki liðið langt á morguninn er ég var kölluð til skólastjóra og mér hótað öllu illu fyrir skemmdarverkin.

Það er mér enn ráðgáta hvernig skólastjórinn gat fundið það út ég ætti sök á þessu atviki, jafnlítil og pervisin og ég hafði ávallt verið, hvað þá að ég gæti alein flutt heilan bíl þversum nærri tvo metra. Ég gafst upp og það leið ekki á löngu uns ég var komin út á togara.   

26. desember 2014 - Eitrað kjöt og sykursjokk?


Í fréttum á jóladag var sagt frá því að mikið hefði verið að gera hjá sjúkraflutningamönnum á aðfangadagskvöld jóla sökum þess hve margir hefðu farið framúr sér í átinu á reyktu kjöti þá um kvöldið. Hvað ég skil sjúkraflutningamennina vel. Nú þegar fyrstu tveir dagar jóla eru liðnir er ég búin að troða í mig reyktu svíni og reyktri kind og líður alls ekki vel.  Til að gera málið enn verra var neytt mikils sykurs með þessu öllu, sykur í brúnuðum kartöflum, sykur í uppstúfnum, sykur í konfektinu og smákökunum og sykur í malti og appelsín og í öllu öðru sem neytt var.  Það er meira að segja hellingur af sykri í þessum ómissandi grænu baunum sem étnar eru af miklum móð yfir hátíðarnar.  Gætti ég þess þó vandlega að hliðra hjá sykruðu vörunum frá Mjólkursamsölunni.  Ekki er til að minnka neysluna að sömu kolvetnin og eru í sykri eru einnig í öli sem neytt er ótæpilega af yfir hátíðarnar.  

Það væri fróðlegt að vita hver meðalneysla Íslendingsins er á sykri yfir hátíðarnar.

Sem betur fer hafði ég beitt sjálfa mig aðhaldi allt haustið og var búin að léttast um nærri þrjú kíló umfram áætlun þegar kom að jólunum. það breytir ekki því að ég finn kílóin hlaðast á mig aftur á einungis tveimur dögum.  Ekki get ég kennt vondum útlendingum um þennan viðbjóð því sykurverksmiðjurnar eru allar í næsta nágrenni við mig, í Hálsaskógi, Ölgerðin, Nói-Síríus, Mjólkursamsalan.

Það er önnur hátíð framundan. Hún verður ekki eins slæm þar sem ég verð á vaktinni, en lærið bíður í frystinum og þar er nóg af fiski í neðsta hólfinu. Aðhaldinu er ekki lokið og ég verð orðin undir 75 kg í lok maí 2015
:)



fimmtudagur, desember 25, 2014

25. desember 2014 - Jól á sjó


Frægt var atvik sem kom fyrir á aðfangadag jóla árið 1970. Flutningaskipið Helgafell hélt úr höfn í Reykjavík um eftirmiðdaginn á aðfangadag jóla til þess eins að liggja í reiðuleysi í höfn í Noregi í einhverja daga áður en unnið var við skipið ef mig misminnir ekki.  Til þess að bæta gráu ofan á svart fórust tveir skipverjar í bílslysi á Keflavíkurveginum á leið til Reykjavíkur er komið var aftur til Íslands tveimur mánuðum síðar og annar þeirra sá aldrei nýfæddan son sinn sem fæddist í febrúar 1971. Nokkur blaðaskrif urðu vegna þessa máls er skipið hélt úr höfn á aðfangadag jóla og sárin ýfðust enn frekar eftir banaslysið á Keflavíkurveginum.  Fleiri dæmi voru um að skip héldu úr höfn á aðfangadag jóla þótt ekki kunni ég að nefna þau, en almennt var litið á slíkt sem mannvonsku og og tel ég að menn hafi hugsað sig tvisvar um áður en farið var úr heimahöfn á aðfangadag jóla eftir þetta.

Ellefu jólum eyddi ég á sjó eða í höfnum erlendis auk einna þar sem ég kom til heimahafnar á jóladag. Þessi jól voru misjöfn, stundum skemmtileg og jákvæð, stundum ekki. Það var t.d. gaman um borð í Bakkafossi um jólin 1976 þar sem ég var að leysa af í fyrsta sinn sem 1. vélstjóri undir stjórn Guðjóns Vilinbergssonar yfirvélstjóra og ég var enn í Vélskólanum þar sem margir nemendur sjómannaskólanna voru að leysa af í jólafríinu.  Þar á meðal var einn háseti sem var í stýrimannaskólanum og sem ég kynntist síðar, en það var ömurlegt að fylgjast með því í talstöðinni tíu árum síðar er hann og skipsfélagar hans  voru að berjast fyrir lífi sínu er Suðurlandið fórst, en við í öruggri höfn í Riga á sama tíma.  Það var ekki gaman er við komum eitt sinn heim til Reykjavíkur 29. desember eftir þriggja mánaða útilegu til þess eins að fara aftur úr höfn eftir sólarhringsdvöl í Reykjavík. Þá var heldur ekkert gaman að fylgjast með hásetunum hífa trollið sundurrifið úr festu á togara klukkan sex á aðfangadagskvöld jóla er ég var að leysa af þar um borð meðan ég var í Vélskólanum.

Jólatúrar Guðjóns Vilinbergssonar eru svo ævintýri útaf fyrir sig, en honum tókst að vera 26 jól á sjó á starfsferlinum að eigin sögn, en því er væntanlega lokið með því að hann er orðinn rúmlega sjötugur og ætti því að geta horft ánægður til baka á starfsferilinn og notið jólanna með fjölskyldunni þótt starfsorkan sé enn með ágætum.  


Jólin 2014 eru ákaflega ljúf fyrir mig. Ég er löngu hætt til sjós í föstu starfi og engin vakt fyrr en milli jóla og nýárs og svo um áramótin. Ég hefi vissulega oft verið á vakt á jólum og áramótum en það er allt annað mál að geta hitt fjölskylduna og vinafólkið milli vakta eða eftir vaktina og engin dramatík fólgin í slíku, kannski ef frá er talið atvik þar sem ég þurfti að kalla út mann á bakvakt fyrir fáeinum árum vegna bilunar í fráveitu og hann eyddi jólunum í að moka ógeði í einni hreinsistöðinni. Við erum enn að gantast með þetta þegar við hittumst.

Á miðnætti á aðfangadagskvöld jóla fylgdist ég með því er tvö skip Eimskipafélagsins héldu úr höfn í Reykjavík með stefnu á Færeyjar. Áhafnir Goðafoss og Lagarfoss höfðu fengið að njóta aðfangadagskvölds jóla í faðmi fjölskyldunnar áður en haldið var úr höfn og er það vel og þessu ber að fagna. Ég reikna með að áhafnir Dettifoss, Brúarfoss og Selfoss muni fagna gamlárskvöldi á sama hátt áður en lagt verður úr höfn aðfararnótt 1. janúar, en Brúarfoss og Selfoss eru á heimleið frá Evrópu á aðfangadagskvöld jóla. Helgafell er í höfn í Reykjavík og Arnarfell verður væntanlega heima um áramótin.

Nú ræður mannlegi þátturinn í starfsmannamálum skipafélaganna og er það vel og öllum fyrir bestu.  

laugardagur, desember 13, 2014

13. desember 2014 - Skólaheimsóknir í kirkju



Enn og aftur byrjar þessi angist trúlausra vegna kirkjuheimsókna skólabarna og þeir fara á límingunum vegna þess að skólabörnum er boðið í kirkjur.  Ekki ætla ég að æsa mig útaf þessu. Þegar ég var barn var okkur aldrei boðið í kirkju á skólatíma, hvorki í Brúarlandsskóla/Varmárskóla né í Laugarnesskóla. Vissulega fengum við Nýja testamentið á silfurfati frá Gideonsfélaginu, en það var einasta innrætingin sem ég varð fyrir af hálfu kirkjunnar og fékk ég þó tíu í kristinfræði í 12 ára bekk (eða var það í ellefu ára bekk, ég man það ekki, en tíu fékk ég eitt árið) 

Eitt árið fótbrotnaði uppáhaldskennarinn okkar á skíðum og var frá kennslu í sex vikur. Fyrstu vikurnar fengum við frí en svo hljóp séra Bjarni sóknarprestur (faðir Bjarka sagnfræðings og bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ) í skarðið og reyndist okkur betri en enginn, en ekki minnist ég þess að hann hafi reynt að hafa áhrif á okkur vesæla nemendurna eða innræta okkur trúna fremur en aðrir sveitungar okkar í Mosfellssveitinni.

Í dag sit ég hér heima hnuggin og græt örlög mín. Hugsið ykkur ef ég hefði fengið trúarlega innrætingu í Lágafellskirku á sínum tíma. Þá hefði ég kannski lifað upp til væntinga sveitunga minna og farið í prestaskólann og gerst prestur í Mosfellsprestakalli í stað þess að hanga í leiðindum á vaktinni yfir heitavatnsborholum í sömu kirkjusókn. 

Ég efa ekki að ég hefði orðið ágætis prestur enda var ég uppnefnd presturinn af sveitungum mínum í æsku.

þriðjudagur, desember 02, 2014

2. desember 2014 - Varmadælur


Loksins, loksins, loksins.

Í málgagni Ísfélags Vestmannaeyja (Morgunblaðinu)  í dag er forsíðufyrirsögn þess efnis að nú standi til að vinna varma úr „hlýjum“ sjó til notkunar í Vestmannaeyjabæ, en í blaðinu er tekið fram að varmadælur séu álitlegur kostur í nokkrum bæjum við sjávarsíðuna.  Mikið var að Íslendinga fyndu loksins upp varmadælur til þess að halda áfram að vera fremstir og bestir og uppfinningasamastir í heimi í tækniframförum.

Ekki man ég hversu mörg blogg ég hefi skrifað um varmadælur og ætlaðan hagnað af þeim í þeim byggðarlögum á Íslandi sem ekki búa við hitaveitu, en síðast nefndi ég þetta í október 2012 þegar mér ofbauð betlihjalið í sveitastjórnarmönnum á köldum svæðum á landinu.

http://velstyran.blogspot.com/2012/10/6-oktober-2012-fara-kold-svi-halloka.html

Sjálf var ég að vinna í nokkur ár í orkuveri  í Stokkhólmi þar sem við höfðum aðgang að tveimur varmadælum sem voru upphaflega í eigu Järfälla Energi og gáfu af sér 24 MW í varma hvor en tóku aðeins 9 MW hvor í rafmagni. Þess má geta að á hlýjum sumardögum dugðu varmadælurnar einar fyrir þessa 200.000 íbúa sem voru tengdir inn á vestra fjarvarmanetið í Stokkhólmi, Järfälla og Sollentuna, en auk þess vorum við með rafskautakatla til notkunar á sumrin auk stærri katla sem brenndu olíu trjákurli og fleiru sem voru notaðir á veturna.
 
Umræddar varmadælur eru staðsettar í Slammertorp í Järfälla, talsvert undir yfirborði jarðar og neðanvið mjólkurverksmiðju Arla. Varminn er sóttur í stöðuvatnið Mälaren og er hægt að dæla vatninu inn á eimarana frá tveimur mismunandi dýptum, af fjögurra metra dýpi þar sem hitastig vatnsins getur verið frá frostmarki og upp í 20°C hita eða frá um 20 metra dýpi, en á svo miklu dýpi er hitastigið ávallt nærri 4°C.  Þess má geta að varmadælurnar hafa verið í notkun frá því 1985.  

Það er ekki eftir neinu að bíða og alls ekki þar sem fjarvarmakerfi er þegar fyrir hendi eins og í Vestmannaeyjum.  Það þarf einungis að ákveða stærð varmadælanna, fyrirkomulag á eimurum og eimsvölum, fjölda þeirra til að tryggja sem hagkvæmastan rekstur og byrja svo að vinna!