Eins og allir vita sem þekkja mig er ég með dálítið blæti fyrir stórum gámaskipum og þegar ég tala um gámaskip á ég við risastór gámaskip. Sjálf var ég á fyrsta gámaskipi Íslendinga sem kallað var því nafni, en Bakkafoss (II) sem var smíðaður í Þýskalandi 1970 telst vera fyrsta skip Íslendinga sem var útbúið frá upphafi sem gámaskip og keypt til Íslands 1974. Það voru vissulega nokkur önnur skip sem gátu flutt nokkra tugi gáma þar á meðal Dettifoss og Mánafoss sem voru smíðuð fyrir Eimskipafélagið 1970-1971, en þau skip voru fyrst og fremst brettaflutningaskip með möguleika á gámaflutningum, gátu þó borið rúmlega 80 gámaeiningar hvort auk annars flutnings. Flutningaskip Eimskafélagsins og Samskipa í dag bera frá um 700 gámaeiningum til 1457 gámaeininga hvert en stærstu skipin eru Goðafoss og Dettifoss, skip sem eru smíðuð fyrir danskar útgerðir um miðjan tíunda áratug síðustu aldar og keypt til Íslands eftir aldamótin og eru undir fána Antigua&Barbuda.
Þegar Mærsk lét byggja fyrir sig E-týpuna á árunum 2006-2008 (Emma Mærsk og sjö systurskip, öll smíðuð í Óðinsvéum) voru þau skip skráð fyrir 11.000 gámaeiningar miðað við 14 tonna lestun að jafnaði í hverjum gám, en geta í reynd borið 15.500 gámaeiningar. Síðar komu enn stærri skip og Triple-E týpan (Mærsk-McKinney Möller og 19 systurskip) bera að hámarki 18.270 gámaeiningar, en þau eru smíðuð í Suður-Kóreu og eru tæplega 400 metrar á lengd og 58 metrar á breidd og eru afhent á árunum 2013-2015.
Þau eru ekki lengur stærst. Kínverska skipafélagið CSCL hefur þegar fengið fjögur af fimm skipum afhent sem bera allt að 19.100 gámaeiningum, skipin einnig smíðuð í Suður-Kóreu sem segir allt um vantraustið gagnvart kínverskri skipasmíði, en Svissneska skipafélagið MSC hefur þegar fengið tvö enn stærri skip eða sem bera 19.224 gámaeiningar hvort. Þessi skip heita MSC Oscar og MSC Oliver, en minnst sex skip sömu stærðar eru í smíðum hjá Daewoo skipasmíðastöðinni í Suður-Kóreu, á sama stað og risaskip Mærsk eru smíðuð.
Þróuninni er samt engan vegin lokið. Mitsui OSK Lines (MOL) hefur gert samning við Samsung um smíði á fjórum skipum sem munu geta borið 20.150 gámaeiningar hvert og á næstu árum fáum við að sjá fréttir af enn stærri skipum.
Ég hugsa með skelfingu til þess ef eitthvert þessara skipa ferst í hafi. Það eru ekki mörg ár síðan eitt skip frá MOL brotnaði í sundur í miðju á leið sinni yfir Indlandshafið til Evrópu, en sem betur fer án manntjóns. Það skip, MOL Comfort var þó einungis 8.540 gámaeiningar að stærð og 316 metrar á lengd.
Hér má sjá ágætt yfirlit yfir stærstu gámaskip heimsins í dag. Þess ber þó að geta að þótt talið sé að 35 manns sigli þessum skipum yfir hafið er hægt að sigla þeim með 13 manna áhöfn en t.d. hjá Mærsk er áhöfnin 18 manns:
P.s. Í dag, 31. mars 2015 birtust fréttir þess efnis að CMA-CGM útgerðin hefði samið um þrjú 20.600 gáma skip frá Hanjin Heavy Industries í Busan,Suður-Kóreu.