föstudagur, júlí 29, 2016

29. júlí 2016 - Um skipanöfn og hjátrú.




Þessa dagana er í Reykjavíkurhöfn bandaríska rannsóknarskipið Neil Armstrong sem heitir eftir geimfaranum og fyrsta manninum sem sté fæti sínum á tunglið, Neil Alden Armstrong. Neil A. Armstrong var fæddur 1930 og lést árið 2012, 82 ára að aldri.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að gefa skipum nöfn eftir hetjum sem brotið hafa blað í sögu mannkyns, vísindamanna, landkönnuða og annarra sem fyrstir voru í sinni röð og sem fólk minnist öldum eftir jarðvist þeirra. Þannig heita stærstu skip skipafélagsins CMA CGM eftir slíkum hetjum þótt Neil Armstrong hafi enn ekki lent á kinnungi og skut einhvers risaskipa félagsins, en þess verður vafalaust ekki langt að bíða. Þá er ekki langt síðan miklar deilur uppstóðu um nafn á bresku hafrannsóknarskipi sem hefur verið í smíðum og fékk furðunafnið Boaty McBoatface í skoðanakönnun. Nafnið þótti þó ekki viðeigandi og það endaði með því að skipið hlaut nafn í höfuðið á þáttagerðarsnillingnum og náttúruverndarsinnanum David Attenborough og er það vel að hann skuli heiðraður á þennan mikilvæga hátt.

Þegar ég sá rannsóknarskipið Neil Armstrong í Reykjavíkurhöfn fór ég að leita að millinafninu Alden eða skammstöfuninni  A en sá hvergi. Mér þótti það miður. Kannski sérviska í mér en samt ekki ef grannt er skoðað.

Á unglingsárunum var ég háseti á bát vestur á Bíldudal sem bar nafnið Pétur Thorsteinsson eftir manninum sem fremstur stóð að uppbyggingu þorpsins á Bíldudal á seinnihluta nítjándu aldar. Þetta var gott skip, einn hinna svokölluðu tappatogara sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga í Stralsund í Austur-Þýskalandi á árunum 1958-1960, en einhverra hluta vegna fiskaðist ekki mjög vel á bátinn öfugt við flest önnur skip sömu gerðar. Ekki var hægt að kenna skipstjóranum um því fleiri aflaskipstjórar höfðu verið með bátinn og gert það gott á öðrum skipum, menn á borð við Pétur Valgarð Jóhannsson  og Þorstein Auðunsson, en Pétur Thorst. var hinsvegar aldrei sérstakt aflaskip. Af hverju?

Á Bíldudal þóttu sumir hafa skýringu á aflaleysi skipsins. Nafn skipsins var rangt! Maðurinn sem báturinn hét eftir hét nefnilega Pétur Jens Thorsteinsson og því hefði báturinn átt að bera fullt nafn mannsins eða að minnsta kosti joðið í millinafninu. Hver væri til dæmis Þorsteinn J. Vilhjálmsson ef ekki væri Joðið í nafninu?

Það er orðið of seint að gráta örlög bátsins Péturs Thorsteinssonar BA-12. Hann lenti undir hamri sýslumanns í upphafi áttunda áratugarins og seldur nauðungarsölu vestur á Patreksfjörð þar sem hann hlaut nafnið Gylfi og var hann lengi vel í rekstri Patreksfirðinga og gekk vel, en lenti í pottinum alræmda fyrir fáeinum árum eftir dygga þjónustu við íslensku þjóðina í hálfa öld og undir ýmsum nöfnum.

Kristinn Pálsson skipstjóri og útgerðarmaður skipa á borð við Berg og Vestmannaey hóf næstum aldrei vertíð á miðvikudegi, því miðvikudagur er til moldar. Þó var ein undantekning á reglunni er hann hóf vertíð á Berg á miðvikudegi. Þá vertíðina fórst skipið en sem betur fer varð mannbjörg. Eitt sinn vorum við á Vestmannaey að hefja vertíð snemma viku er bilun kom upp í spilbúnaði. Það tókst að gera við spilið skömmu eftir miðnætti aðfararnótt miðvikudags og síðan biðum við í sólarhring að kröfu útgarðarmannsins eftir fimmtudeginum áður en hægt var að halda úr höfn. Þetta var góð vertíð. Við skulum aldrei misvirða það sem stundum er kallað hjátrú.

Ég hefi ávallt heyrt talað um tunglfarann góðkunna sem Neil A. Armstrong ef ekki með fullu nafni Neil Alden Armstrong.  Af hverju mátti rannsóknarskipið ekki bera nafn hans með millinafni eða millistaf? Af reynslunni af góðu skipi vestur á Bíldudal þykir mér það miður, en vona þó að hjátrúin hafi ekki áhrif á gengi skips og áhafnar rannsóknarskipsins Neil Armstrong.

föstudagur, júlí 22, 2016

22. júlí 2016 - Gunnar og dýrin hans


Áður en ég flutti í Árbæjarhverfið leigði ég á sjöttu hæð í Krummahólum í Reykjavík. Einhverju sinni sofnaði ég í þægindastólnum framan við sjónvarpið þar sem ég var í rólegheitum heima með opið út á svalir og vaknaði skyndilega við það að eitthvert loðið straukst við hendina á mér. Mér dauðbrá en uppgötvaði þá að lítil og falleg kisa var komin inn í íbúðina hjá mér. Nágrannar mínir sem höfðu nýlega flutt í húsið höfðu fengið þessa fallegu kisu fyrir sig og dætur sínar.

Litla kisa bræddi öll hjörtu og brátt var hún orðið jafnmikið hjá mér og eigendum sínum og smám saman myndaðist ágætt vináttusamband milli mín og eigenda kisunnar auk kisu sjálfrar. Þarna var um að ræða hjónin Gunnar Árnmarsson af Stuðlaætt á Reyðarfirði og Guðbjörgu Friðriksdóttur frá Keflavík, en þau höfðu búið áratugina á undan á Tálknafirði þar sem hann var lengstum stýrimaður og skipstjóri á togaranum Tálknfirðing, en síðast með eigin smábátaútgerð sem hann flutti með sér til Reykjavíkur.

Betri nágranna var vart hægt að hugsa sér. Bæði voru hjónin gestrisin mjög og ekki vantaði frásagnargleðina í Gunnar. Eitt háði þeim verulega en það var að Gunnar hafði nokkrum sinnum fengið alvarleg hjartaáföll og því ljóst að hann þurfti að fara mjög varlega að allri erfiðisvinnu. Því seldi hann útgerðina og réði sig sem skipstjóra á hvalaskoðunarbátinn Hafsúluna og starfaði þar á meðan heilsan leyfði, en hjartað leyfði ekki langan starfsferil og hann neyddist til að fara á eftirlaun. Nágrannakærleikurinn hélt samt áfram og ef þau hjónin skruppu út á land fékk kisa að gista hjá mér á meðan og fór vel á með okkur.

Svo kom að því að ég yfirgaf nágranna mína, keypti mér íbúð í Árbæjarhverfi og leið ekki á löngu uns ég var komin með tvær nýjar kisur. Kisan okkar Gunnars sem tefldi oft á tæpasta vað á göngu um þak stórs fjölbýlishúss varð ekki langlíf, en sem betur fer fékk Gunnar hundinn Tinna í staðinn og oft rakst ég á þá félaga á göngu um brekkurnar neðan við efra Breiðholtið auk þess sem ég átti það til að reka inn nefið hjá þeim hjónum Gunnari og Beggu og ávallt var rausnarlega veitt með kaffinu og nokkrar góðar sögur sagðar af sjónum og heimilisdýrunum.

Ég viðurkenni alveg að ég var löt við heimsóknir til Gunnars og Beggu síðustu tvö árin, en hlýjan frá þeim mun ylja hjarta mínu það sem eftir lifir. Á kveðjudegi Gunnars í gömlu Garðakirkju í Garðabæ, hinni sömu þar sem móðurafi minn var skírður á síðasta áratug nítjándu aldar og fermdur þar í upphafi tuttugustu aldarinnar fóru hlýjar tilfinningar um mig í minningu um góðan mann sem svo sannarlega hefði mátt lifa miklu lengur, dýravinur og mannvinur og góður félagi.

Með þessu vil ég votta Beggu og börnum þeirra Gunnars þakklæti mitt fyrir góð viðkynni og yndislega vináttu.




þriðjudagur, júlí 12, 2016

12 júlí 2016 - Múslimar



Haldið ykkur fast.

Ég ætla að byrja á smájátningu. Mér er ekkert illa við múslíma né nein önnur trúarbrögð. Ég var alin upp í kristinni trú og ég er enn háð minni barnatrú þar sem fyrirgefningin í anda Nýja testamentisins var í hávegum höfð sem og heimspeki kristinnar trúar og þetta var rækilega innprentað í mig í bæði kirkju og skóla. Mér var kennt að virða allar manneskjur og öll trúarbrögð og ég hefi reynt að fara eftir þessari gullvægu reglu þótt vissulega hafi ég borið stöku sinnum af hinum þrönga stíg kristninnar og ekki aðeins brugðist kærleikserindinu heldur og kynnst syndinni í öllu sínu veldi.

Á langri vegferð á lífsins öldum hefi ég kynnst ótrúlegasta fólki og þar með fólki af mörgum trúarbrögðum, kristnu fólki, múslímum, búddistum, Vottum Jehóva og fólki sem trúir á nánast hvað sem er, stokka og steina og ekki má gleyma þeim nánu félögum Bakkusi og Mammon.

Eftir að Orkuveita Reykjavíkur flutti í Árbæjarhverfið ákvað ég að kaupa mér íbúð nærri vinnunni og gerði svo fyrir nærri tólf árum síðan. Þetta var ósköp indæll stigagangur en það sem vakti athygli mína var að fyrsti íbúinn sem bauð mig velkomna í húsið var innflytjandi frá Sýrlandi kvæntur íslenskri konu. Ég veit ekkert hverrar trúar hann er og það skiptir mig engu máli, en þau hjónin og börn þeirra eru löngu flutt úr blokkinni í aðra blokk í Árbæjarhverfi.  

Fljótlega eftir að ég flutti í húsið hrúguðust verkefnin að mér. Ég lenti í stjórn lóðarfélagsins sem sér um viðhald garðs og bílastæða og ég lenti í stjórn húsfélagsins. Garðurinn var í fremur slæmri umhirðu og ný stjórn hóf að kanna vandamál svæðisins. Fljótlega kom í ljós frægt vandamál í þremur stigagöngum af þrettán en það mátti sjá af því að garðurinn neðan við svalir umræddra stigaganga var þakinn sígarettustubbum. Það þurfti ekkert að fara í grafgötur með einn þeirra, næstan við eiginn stigagang.

Ein íbúð þar sem fyrri eigendur höfðu alið upp þekkta tónlistarmenn á borð við Eyþór og Bergljót Arnalds var áberandi. Einasti hávaðinn sem kvartað var yfir kom frá þeirri íbúð sem nú var í eigu Félagsbústaða. Ég þurfti ekki að bíða lengi uns ég fékk staðfestingu þess að þaðan komu stubbarnir sem íbúarnir ætluðust sennilega til að við hreinsuðum upp eftir þá. Þetta var samt ágætis fólk og viðræðugott þótt óreglan væri einhver, en aldrei fengust þau til að hætta þeim ósið að nota garðinn sem öskubakka.  

Eftir einhver ár fluttu íbúarnir í burtu með stubbana sína en inn flutti kona sem mér var kunnug með börn sín á ýmsum aldri. Ástandið lagaðist um tíma, en svo náði ein dóttirin sér í kærasta sem var ekki alveg með á nótunum og aftur hófst baráttan um sígarettustubbana auk hávaða frá íbúðinni sem vafalaust hefur truflað aðra íbúa meir en mig og okkur í næsta stigagangi. Einhverju sinni sendi ég konunni skilaboð á Facebook og bað hana um að sjá til þess að gestir hennar hættu að nota garðinn sem öskubakka, en einasta svarið var að hún lokaði á mig á Facebook. Skömmu síðar flutti hún í burtu með börn og buru og hefi ég ekki heyrt af henni síðan og þykir miður.

Það kom nýr íbúi í umrædda íbúð. Múslimi! Hann og fjölskylda hans fluttu inn eins og ekkert væri sjálfsagðara, hjón með fimm börn. Ég veit ekkert um hvort þau séu múslímar, en samkvæmt því sem ég hefi heyrt eru þau flóttamenn frá Sýrlandi og ég sé aldrei konuna öðruvísi en með höfuðklút að sið Islam. Hún fer ekki út á svalir öðruvísi en með höfuðklút. Það er hennar vandamál. Þau hjón og börn þeirra eru ósköp indæl. Það heyrist aldrei hávaði frá íbúðinni lengur og aldrei sé ég lengur sígarettustubba neðan við svalirnar.

Því miður eru hjónin í næsta stigagangi fremur ómannblendin og ekki mikið fyrir að blanda geði við nágranna sína, kannski vegna fordóma íslenska samfélagsins. Ekki veit ég. Það sem ég hefi séð til þessa fólks gefur alls ekki ástæðu til að ætla að um væntanlega terrorista sé að ræða, þvert á móti. Terroristarnir eru þeir sem sýna þessum ágætu nágrönnum mínum hatur og fyrirtlitningu.

Hver getur hugsað sér að láta múslima bjarga sér frá sjávarháska?

Ég er virkur meðlimur í björgunarsveitinni Ársæli og hópstjóri sjóbjörgunarsveitar félagsins er hugsanlega múslimi, allavega ættaður frá Palestínu og sonur helsta talsmanns múslima á Íslandi. Hann er jafngóður í björgunarsveit og við öll hin ef ekki betri. Hann þekkir örugglega fordómana frá fyrstu hendi og hefur lært af þeim og nýtir reynsluna til að gera öðrum gagn, mikið gagn!

Fyrir mig skipta trúarbrögð mannsins engu máli. Hann er einstaklingur og virkur í samfélaginu og gerir okkur öllum ómetanlegt gagn. Höldum áfram að virða manneskjur án tillits til trúarbragða!

Ég ætla að halda áfram að virða mína barnatrú og trúa því að sérhver manneskja sé góð þar til hún brýtur gróflega af sér gegn samfélaginu. Hverrar trúar voru þeir sem komu Íslandi á hausinn fyrir átta árum síðan? Voru það múslimar? Eða voru þeir kristnir eða trúðu þeir bara á Mammon?

 


sunnudagur, júlí 03, 2016

3. júlí 2016 - Búið spil.



Þessa stundina eru margir Íslendingar hnuggnir eftir stórt tap gegn Frökkum í átta liða úrslitum í Evrópukeppninni í fótbolta. Það er engin ástæða til þess. Eftir þessa keppni eru Íslendingar í 5-8 sæti í fótbolta í Evrópu, kannski nær því áttunda en því fimmta, en samt betri en flestar þjóðir Evrópu. Þeir hafa staðið sig með mikilli prýði og jafnvel antisportistinn ég var farin að hrífast með íslenska  fótboltalandsliðinu.

Höfum það í huga að Íslendingar hafa staðið sig frábærlega vel í keppninni allri, slógu Hollendinga út í undankeppninni, en þeir eru bronsverðlaunahafar frá  heimsmeistarakeppninni 2014, en gáfu Portúgölum, Ungverjum og Austurríkismönnum langt nef í riðlakeppninni og slógu síðan vini mína Englendinga út í sextán liða úrslitum. Tap gegn Frökkum var fyrirsjáanlegt. Þetta var á heimavelli þeirra og tíu þúsund manna stuðningur á áttatíu þúsund manna velli hefur lítið að segja.

Fyrri hálfleikur var okkar fólki erfiður, en þeir héldu áfram að berjast og skoruðu tvö mörk gegn einu í seinni hálfleik sem sýnir vel hve þetta lið er frábært. Ég er sannfærð um að hver einasti maður í íslenska liðinu fengi fast pláss í byrjunarliðinu hjá Fótboltasamvinnufélagi Halifaxhrepps ef þeir sæktust eftir slíku plássi, slíkir snillingar eru þetta.

Með þessum úrslitum er verkefni Lars Lagerbäck lokið með íslenska landsliðið í fótbolta. Hann er búinn að gera kraftaverk með þetta lið. Áður en hann tók við liðinu reiknaði aldrei neinn með því að landsliðið í fótbolta gæti gert nokkurn skapaðan hlut. Vissulega náðu þeir að vinna einn og einn leik en samt héldu þeir áfram að vera á botninum meðal þjóðanna og Íslendingar hugguðu sig við að þeir væru bara 300.000 meðal milljónaþjóðanna og vildi þá venjulega gleymast að það eru jafnmargir menn í hvoru liði. Lars sýndi landsliðinu fram á að það þyrfti bara aga til að vinna hvaða lið sem væri. Nú er hann hættur og vonandi að Heimir Hallgrímsson hafi lært það mikið af Lars til að halda áfram að leiða íslenska landsliðið á næstu sigurgöngu.

Mikilvægast af öllu er samt það að tala ekki liðið niður heldur að vera jákvæð, hvetja það áfram  og hlakka til næstu keppni.