föstudagur, júlí 22, 2016

22. júlí 2016 - Gunnar og dýrin hans


Áður en ég flutti í Árbæjarhverfið leigði ég á sjöttu hæð í Krummahólum í Reykjavík. Einhverju sinni sofnaði ég í þægindastólnum framan við sjónvarpið þar sem ég var í rólegheitum heima með opið út á svalir og vaknaði skyndilega við það að eitthvert loðið straukst við hendina á mér. Mér dauðbrá en uppgötvaði þá að lítil og falleg kisa var komin inn í íbúðina hjá mér. Nágrannar mínir sem höfðu nýlega flutt í húsið höfðu fengið þessa fallegu kisu fyrir sig og dætur sínar.

Litla kisa bræddi öll hjörtu og brátt var hún orðið jafnmikið hjá mér og eigendum sínum og smám saman myndaðist ágætt vináttusamband milli mín og eigenda kisunnar auk kisu sjálfrar. Þarna var um að ræða hjónin Gunnar Árnmarsson af Stuðlaætt á Reyðarfirði og Guðbjörgu Friðriksdóttur frá Keflavík, en þau höfðu búið áratugina á undan á Tálknafirði þar sem hann var lengstum stýrimaður og skipstjóri á togaranum Tálknfirðing, en síðast með eigin smábátaútgerð sem hann flutti með sér til Reykjavíkur.

Betri nágranna var vart hægt að hugsa sér. Bæði voru hjónin gestrisin mjög og ekki vantaði frásagnargleðina í Gunnar. Eitt háði þeim verulega en það var að Gunnar hafði nokkrum sinnum fengið alvarleg hjartaáföll og því ljóst að hann þurfti að fara mjög varlega að allri erfiðisvinnu. Því seldi hann útgerðina og réði sig sem skipstjóra á hvalaskoðunarbátinn Hafsúluna og starfaði þar á meðan heilsan leyfði, en hjartað leyfði ekki langan starfsferil og hann neyddist til að fara á eftirlaun. Nágrannakærleikurinn hélt samt áfram og ef þau hjónin skruppu út á land fékk kisa að gista hjá mér á meðan og fór vel á með okkur.

Svo kom að því að ég yfirgaf nágranna mína, keypti mér íbúð í Árbæjarhverfi og leið ekki á löngu uns ég var komin með tvær nýjar kisur. Kisan okkar Gunnars sem tefldi oft á tæpasta vað á göngu um þak stórs fjölbýlishúss varð ekki langlíf, en sem betur fer fékk Gunnar hundinn Tinna í staðinn og oft rakst ég á þá félaga á göngu um brekkurnar neðan við efra Breiðholtið auk þess sem ég átti það til að reka inn nefið hjá þeim hjónum Gunnari og Beggu og ávallt var rausnarlega veitt með kaffinu og nokkrar góðar sögur sagðar af sjónum og heimilisdýrunum.

Ég viðurkenni alveg að ég var löt við heimsóknir til Gunnars og Beggu síðustu tvö árin, en hlýjan frá þeim mun ylja hjarta mínu það sem eftir lifir. Á kveðjudegi Gunnars í gömlu Garðakirkju í Garðabæ, hinni sömu þar sem móðurafi minn var skírður á síðasta áratug nítjándu aldar og fermdur þar í upphafi tuttugustu aldarinnar fóru hlýjar tilfinningar um mig í minningu um góðan mann sem svo sannarlega hefði mátt lifa miklu lengur, dýravinur og mannvinur og góður félagi.

Með þessu vil ég votta Beggu og börnum þeirra Gunnars þakklæti mitt fyrir góð viðkynni og yndislega vináttu.





0 ummæli:







Skrifa ummæli