föstudagur, júlí 29, 2016

29. júlí 2016 - Um skipanöfn og hjátrú.




Þessa dagana er í Reykjavíkurhöfn bandaríska rannsóknarskipið Neil Armstrong sem heitir eftir geimfaranum og fyrsta manninum sem sté fæti sínum á tunglið, Neil Alden Armstrong. Neil A. Armstrong var fæddur 1930 og lést árið 2012, 82 ára að aldri.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að gefa skipum nöfn eftir hetjum sem brotið hafa blað í sögu mannkyns, vísindamanna, landkönnuða og annarra sem fyrstir voru í sinni röð og sem fólk minnist öldum eftir jarðvist þeirra. Þannig heita stærstu skip skipafélagsins CMA CGM eftir slíkum hetjum þótt Neil Armstrong hafi enn ekki lent á kinnungi og skut einhvers risaskipa félagsins, en þess verður vafalaust ekki langt að bíða. Þá er ekki langt síðan miklar deilur uppstóðu um nafn á bresku hafrannsóknarskipi sem hefur verið í smíðum og fékk furðunafnið Boaty McBoatface í skoðanakönnun. Nafnið þótti þó ekki viðeigandi og það endaði með því að skipið hlaut nafn í höfuðið á þáttagerðarsnillingnum og náttúruverndarsinnanum David Attenborough og er það vel að hann skuli heiðraður á þennan mikilvæga hátt.

Þegar ég sá rannsóknarskipið Neil Armstrong í Reykjavíkurhöfn fór ég að leita að millinafninu Alden eða skammstöfuninni  A en sá hvergi. Mér þótti það miður. Kannski sérviska í mér en samt ekki ef grannt er skoðað.

Á unglingsárunum var ég háseti á bát vestur á Bíldudal sem bar nafnið Pétur Thorsteinsson eftir manninum sem fremstur stóð að uppbyggingu þorpsins á Bíldudal á seinnihluta nítjándu aldar. Þetta var gott skip, einn hinna svokölluðu tappatogara sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga í Stralsund í Austur-Þýskalandi á árunum 1958-1960, en einhverra hluta vegna fiskaðist ekki mjög vel á bátinn öfugt við flest önnur skip sömu gerðar. Ekki var hægt að kenna skipstjóranum um því fleiri aflaskipstjórar höfðu verið með bátinn og gert það gott á öðrum skipum, menn á borð við Pétur Valgarð Jóhannsson  og Þorstein Auðunsson, en Pétur Thorst. var hinsvegar aldrei sérstakt aflaskip. Af hverju?

Á Bíldudal þóttu sumir hafa skýringu á aflaleysi skipsins. Nafn skipsins var rangt! Maðurinn sem báturinn hét eftir hét nefnilega Pétur Jens Thorsteinsson og því hefði báturinn átt að bera fullt nafn mannsins eða að minnsta kosti joðið í millinafninu. Hver væri til dæmis Þorsteinn J. Vilhjálmsson ef ekki væri Joðið í nafninu?

Það er orðið of seint að gráta örlög bátsins Péturs Thorsteinssonar BA-12. Hann lenti undir hamri sýslumanns í upphafi áttunda áratugarins og seldur nauðungarsölu vestur á Patreksfjörð þar sem hann hlaut nafnið Gylfi og var hann lengi vel í rekstri Patreksfirðinga og gekk vel, en lenti í pottinum alræmda fyrir fáeinum árum eftir dygga þjónustu við íslensku þjóðina í hálfa öld og undir ýmsum nöfnum.

Kristinn Pálsson skipstjóri og útgerðarmaður skipa á borð við Berg og Vestmannaey hóf næstum aldrei vertíð á miðvikudegi, því miðvikudagur er til moldar. Þó var ein undantekning á reglunni er hann hóf vertíð á Berg á miðvikudegi. Þá vertíðina fórst skipið en sem betur fer varð mannbjörg. Eitt sinn vorum við á Vestmannaey að hefja vertíð snemma viku er bilun kom upp í spilbúnaði. Það tókst að gera við spilið skömmu eftir miðnætti aðfararnótt miðvikudags og síðan biðum við í sólarhring að kröfu útgarðarmannsins eftir fimmtudeginum áður en hægt var að halda úr höfn. Þetta var góð vertíð. Við skulum aldrei misvirða það sem stundum er kallað hjátrú.

Ég hefi ávallt heyrt talað um tunglfarann góðkunna sem Neil A. Armstrong ef ekki með fullu nafni Neil Alden Armstrong.  Af hverju mátti rannsóknarskipið ekki bera nafn hans með millinafni eða millistaf? Af reynslunni af góðu skipi vestur á Bíldudal þykir mér það miður, en vona þó að hjátrúin hafi ekki áhrif á gengi skips og áhafnar rannsóknarskipsins Neil Armstrong.


0 ummæli:







Skrifa ummæli