Það var runninn upp sá frægi dagur 15. október 1975. Um nóttina hafði fiskveiðilögsagan verið færð út í 200 sjómílur um leið og rjúpnaveiðitímabilið hófst. Einn bekkjarfélaginn sem átti heima fyrir austan fjall kom við á Hellisheiðinni á leið í skólann um morguninn og náði að veiða eina rjúpu og kom með hana sigrihrósandi í skólann.
Okkur fannst ómögulegt annað en að nota tækifærið og gera smásprell, ekki síst vegna andstöðu dansks efnafræðikennara okkar við útfærsluna í 200 mílur, en karlinn var (og er) hinn mesti mannvinur og dýravinur af trúarsannfæringu, en hann var virkur í trúarsamfélagi Votta Jehóva og ritstjóri Varðturnsins ef mig misminnir ekki, þoldi ekki blóð og hugsanlega grænmetisæta.
Til að hrella karlinn aðeins vegna andstöðu hans, límdi ég miða framan á hræið hvar á stóð, ÉG VAR Á MÓTI 200 MÍLUNUM, svo settum við snöru um hálsinn og hengdum hræið síðan upp í dyrnar á kennslustofunni og lokuðum. Þegar kennarinn kom í tíma, opnaði hann dyrnar og við honum blasti hræið. Hann smeygði sér framhjá hræinu og gaf okkur ágæta lexíu um dýravernd en lét síðan sem ekkert væri það sem eftir var tímans.
Vesalings rjúpan fékk að hanga í dyrunum til hádegis, en í matartímanum hvarf hún skyndilega og enginn vissi hvað af henni hafði orðið, ekki fyrr en daginn eftir að lítil frétt birtist á blaðsíðu 3 í dagblaðinu Vísi um stuðning Vélskólanema við útfærsluna í 200 mílur með mynd af Hallgrími Guðfinnssyni (sem eitt sinn gekk undir viðurnefninu Strandagraður) með rjúpuna hangandi í snörunni. Við gengum á Hallgrím og kröfðumst skýringa á hvarfi rjúpunnar og í einlægni sinni svaraði hann:
„Ég var bara svangur og sá þennan dýrindis mat sem beið eftir mér í dyrunum. Þegar ég sótti matinn, kom ljósmyndarinn og smellti mynd af mér með rjúpuna og ekki gat ég farið að segja nei við einni myndatöku. En rjúpan, jú hún smakkaðist ágætlega.“
P.s. Til að skoða myndina hér að neðan betur er best að klikka á hana.
föstudagur, október 30, 2009
30. október 2009 - Enn af rjúpnaveiðum
30. október 2009 - Rjúpnaveiðitímabilið
Í tilefni af því að nú fer rjúpnaveiðitímabilið af stað, rjúpum og okkur aðdáendum þeirra til sárrar armæðu, rifjaði ég upp gamalt atvik frá skólaárunum.
Endur fyrir löngu voru algengir þýskir eðalvagnar á götunum frá þýsku Ford verksmiðjunum sem báru nafnið Taunus (framborið Tánus) og höfðu þeir tegundarnúmer í samræmi við vélarstærð, Tánus 12M, Tánus 15M og Tánus 20M.
Einn skólafélaginn fór ásamt fleirum til fjalla með alvæpni í hönd. Þeir gengu lengi um Hellisheiðina en urðu ekki varir. Eftir að hafa gengið daglangt án neins árangurs annars en góðrar líkamshreyfingar, sneru þeir til baka að bílnum. Þar sem félagi minn steig inn í bílinn hljóp skot úr haglabyssunni og af fór önnur stóratáin. Eftir þetta var vinurinn aldrei kallaður annað en Tánus 9M meðal bekkjarfélaganna.
Svo eru menn að tala um einelti í dag.
fimmtudagur, október 29, 2009
29. október 2009 - Flensugræðgi!
Flestir vinnufélagar mínir eru að einu leyti verri en aðrir starfsmenn í fyrirtækinu. Við vinnum á bakvið lokaðar dyr eða ein á ferð og því fátt um smitleiðir að okkur. Þetta hefur m.a. komið fram í því að færri veikindadagar eru að meðaltali á hvern starfsmann en gengur og gerist, hvort heldur miðað er við aðra starfsmenn eða þjóðfélagið allt að sjómönnum undanskildum, en eins og íslenskum almenningi ætti að vera kunnugt, eru íslenskir sjómenn harðgerari, heilsubetri og jákvæðari en aðrir Íslendingar. Það er eðlilegt því lítið þýðir að kveinka sér yfir kvefi eða flensu þegar trollið er fullt af fiski.
Öll hlutum við eldskírn okkar í vinnu á sjó og skítugum smiðjum. Því bítur fátt á okkur og ef einhver á það til að fá hjartaáfall, nýrnakast eða ótímabært andlát, er ávallt einhver aukavinnuhungraður vinnufélaginn tilbúinn að hlaupa í skarðið uns sá látni mætir aftur til vinnu hress og endurnærður eftir alltof stutt veikindafrí. Ekki bætir úr að engum dettur til hugar að víkja af vaktinni eða ljúga til um veikindi nema bráður bani sé yfirvofandi.
Þegar fregnir bárust af yfirvofandi svínapest horfðu menn bjartsýnir fram á veginn og mættu á vaktina með dollaraglampa í augunum og sáu í hillingum aukavaktirnar klingja í kassanum á meðan vinnufélagarnir lágu á gjörgæslu með dælutruflanir og vandræði í skolloftsgöngunum, en enn hefur ekkert skeð ef frá eru taldar martraðir á frívaktinni um stórubólu og svartadauða. Því er fólkið farið að örvænta um skjótfenginn flensugróða til nota í jólainnkaupin.
Ætli flensugræðgin sé hluti af græðgisvæðingunni?
miðvikudagur, október 28, 2009
28. október 2009 - Oasis of the Seas
Ég þori varla að skrifa mikið um hið nýja og glæsilega skemmtiferðaskip „Oasis of the Seas“, ekki í ljósi þess að einn af þessum sjö sem lesa reglulega bloggið starfar hjá útgerð skipsins og annar flúinn sæluna og farinn að stunda Norðursjóinn af miklum móð.
Samt get ég ekki hætt að dást að flottheitunum um borð. Frekar en að segja mikið, ætlaði ég að bjóða Þórði stórkaptein í kaffi og pumpa hann um herlegheitin áður en hann fer um borð í sitt skip sem er næstum því eins glæsilegt, (hverjum þykir sinn fugl fagur o.s.frv) en því miður var ég of sein því hann er á leiðinni um borð á fimmtudag og kemur ekki aftur í land fyrr en á næsta ári. Einhver fugl hvíslaði þó að mér að verð skipsins hafi verið 1,3 milljarðar dala, (um 162 milljarðar ísl kr), en það er óstaðfest.
Ég læt því gamlar tölvumyndir fylgja sem ég hef átt í tölvunni minni frá því fyrst fréttist af smíði skipsins ásamt einni nýrri frá reynslusiglingunni á dögunum.
P.s. Þessu stal ég frá Þórði : http://www.oasisoftheseas.com/
þriðjudagur, október 27, 2009
27. október 2009 - Einelti!
Kæra lesönd. Ég ætla ekki að halda langan fyrirlestur yfir þér um einelti. Nóg er komið af slíkum fyrirlestrum í dag samt.
Umræðan um einelti er þekkt vandamál í íslenskri umræðu um hin ýmsu dægurmál. Í allan dag hafa útvarps og sjónvarpsstöðvar verið undirlagðar í umræðuna um einelti. Á morgun verður umræðan gleymd. Sama má segja um baráttuna gegn umferðarslysum, baráttuna gegn krabbameini og geðsjúkdómum, einn dag á ári eru allar ljósvakastöðvar sem og dagblöð undirlögð í málefnið og svo ekki söguna meir fyrr en eftir heilt ár ef umræðan verður þá vakin upp, gjarnan í tengslum við einhverja söfnun eða upphaf áróðursherferðar. Áður en dagurinn er allur verða allir búnir að fá nóg af umræðunni og hættir að taka við meiru.
Ég er ekkert á móti umræðunni um einelti. Ég hefi sjálf orðið fyrir slíku. Umræðan er mjög þörf og þarf að heyrast mun oftar og víðar í samfélaginu, en með því að allir fjölmiðlarnir hafa fjallað um málið í dag eru þeir búnir að gera skyldu sína og ekkert heyrist meira fyrr en eftir ár í fyrsta lagi.
Mátti ekki hafa aðeins minna í dag, en eitthvað á morgun og alla hina dagana, kannski ekkert endilega um einelti, heldur um svo mörg mikilvæg málefni sem nauðsynlegt er að hafa ávallt í umræðunni svo að við verðum ávallt þess meðvituð að ýmislegt er að í samfélaginu?
27. október 2009 - Um varnarmálastofnun
Þegar blaðað er í nýjasta fjárlagafrumvarpinu kemur í ljós að 962 milljónir króna eru ætlaðar til Varnarmálastofnunar, þrátt fyrir þá stefnu stjórnvalda að leggja þennan óþarfa niður. Er ég gerði fyrirspurn um þennan lið til alþingismanna fyrir nokkru, fékk ég þau svör að hér væri sennilega um að ræða gamlan kostnað vegna radarstöðvanna sem enn er verið að greiða
Nú hefur komið í ljós að þótt þessi spillingarstofnun sé komin að fótum fram þrátt fyrir að vera tiltölulega nýleg, þá er allt vaðandi í spillingu þar og því enn frekari ástæða til að leggja hana niður hið bráðasta og gefa starfsfólkinu tækifæri á endurmenntun á öðrum og skynsamlegri sviðum mannlífsins. Það má til dæmis byrja með því að strika út þessar 962 milljónir og nota þær í brýn verkefni á sviði mannúðarmála.
http://www.dv.is/frettir/2009/10/27/fraendi-forstjora-varnamalastofnunar-i-leynithjonustuna/
mánudagur, október 26, 2009
26. október 2009 - Sparnaður?
Það var eitthvað rólegt hjá mér á vaktinni og ég greip rúmlega mánaðargamalt DV, enda er ég farin að spara mér áskrift á glænýjum Morgunblöðum, hóf að lesa mér til dægrastyttingar og bar þá niður í grein um sparnað og hvernig ég gæti sparað rúmlega hálfa milljón á ári. Ég varð margs vísari við lestur greinarinnar og brátt vissi ég allt um það hvernig ég gæti sparað nærri fimmtíu þúsund krónur í hverjum mánuði
Til þess að geta sparað þessar fimmtíu þúsund krónur verða meðal annars eftirfarandi forsendur að vera fyrir hendi: Ég sé með dýrustu nettengingu sem völ er á. Borða flatböku í hverri viku og ávalt þá dýrustu sem völ er á. Þamba gos í öll mál. Flýg norður til Akureyrar annan hvern mánuð. Drekk dýrasta öl sem völ er á í Ríkinu og reyki dýrustu sígaretturnar. Að sjálfsögðu fer ég í bíó í hverri viku, stunda myndbandsleigurnar af miklum móð, keyri í vinnuna og sendi SMS eins og fingrafimasti unglingur.
Nú er bara að byrja á að reykja, drekka dýrt öl og gos af miklum móð, éta dýrar flatbökur í hverri viku, skreppa norður á Akureyri í bíó og leigja mér myndir, margfalda niðurhalið í nettengingunni og æfa fingrasetninguna á gemsann. Að sjálfsögðu hætti ég að ganga í vinnuna og kaupi mér heimabíókerfi af dýrustu og bestu sort.
Þegar ég hefi náð þessum markmiðum öllum, get ég farið að spara hálfa milljón á ári. Þá verður gaman að lifa, eða hvað?
sunnudagur, október 25, 2009
26. október 2009 - Hnípin þjóð í vanda!
Mikael Torfason hélt ágæta ádrepu yfir íslensku þjóðinni í þættinum hjá Sirrý á sunnudagsmorguninn. Þótt ég sé enn dálítið ósátt við Mikael síðan á síðustu dögum hans í ritstjórnarstól DV (mér er ekkert illa ritstjóra almennt þótt halda mætti annað) þá verð ég að viðurkenna að hann komst býsna vel að orði um íslenska þjóð.
Ekki get ég endurtekið orð hans orðrétt, en meiningin er samt eftirfarandi: Þegar Íslendingum gengur vel eru þeir stærstir og bestir, þegar þeim gengur illa eru þeir minnstir og vesælastir.
Í mínu ungdæmi var þjóðremba notuð um slíkt fyrirbæri sem álit íslensku þjóðarinnar er á sjálfri sér. Í nokkur ár hegðuðu íslenskir útrásarvíkingar og ræningjar sér eins og forfeður þeirra til forna, herjuðu á lönd Evrópu með matadorpeninga að vopni, töluðu niður til annarra þjóða og sýndu þeim fyrirlitningu. Íslenska þjóðin bætti um betur og tók undir með ræningjunum. Þegar efnahagskerfið hrundi vegna fáránlegrar hegðunar ræningjanna sem höfðu lagt íslensku þjóðina að veði fyrir skuldum sínum með samþykki stjórnenda þjóðarinnar, stóð þjóðin skyndilega uppi nánast vinalaus. Hún hafði sjálf rúið sig trausti og skildi nú ekkert í því að enginn skyldi vilja draga hana upp úr því forarsvaði sem hún hafði sjálf komið sér í. Hún hafði ekki einungis drullað upp á bak heldur yfir höfuð. Síðan hoppaði hún hæð sína í loft upp þegar gamlar vinaþjóðir kröfðust þess að hún stæði við skuldbindingar sínar áður en þeir hjálpuðu henni upp úr drullusvaðinu.
Nú er íslenska þjóðin aumust allra þjóða, minnst og fátækust. Henni er vorkunn enda er hún búin að mála sig út í horn í samfélagi þjóðanna þótt einhver ljósglæta virðist vera í myrkrinu eftir að samkomulag tókst með Englendingum og Hollendingum. Er nú óskandi að Alþingi samþykki það sem fyrst svo ekki komi til endalegs hruns Íslands sem þjóðar.
Þrátt fyrir allt er þjóðin í betri málum en margar aðrar þjóðir. Hér eru miklir möguleikar á útflutningi á sjávarafurðum og álframleiðslan er á fullu og það eru miklir möguleikir á auknum útflutningi til framtíðar. Atvinnustig er hátt, miklu hærra en í mörgum löndum, jafnvel hærra en hið æskilega atvinnustig nýfrjálshyggjupostulans sáluga Miltons Friedmans. Við búum í hlýjum og björtum húsum með öllum þægindum og skatturinn er lægri en það sem er eðlilegt í mörgum löndum sem við viljum miða okkur við.
Ég held að íslensk þjóð sé að setja heimsmet í sjálfsvorkunn.
föstudagur, október 23, 2009
23. október 2009 - Glápsýning í Smáralind
Seint um haustið 1966 var ég á ferð í strætisvagni fullum af fólki þegar einhver kallaði upp fyrir sig: Sjáið, þarna er Sigríður Ragna! Allt fólkið í vagninum sneri sér við og glápti á stúlkuna sem hafði verið ráðin sem þula hjá hinni nýju stofnun sjónvarpinu. Ekki veit ég hvort Sigríður varð þessa vör að heill strætisvagn með innihaldi glápti á hana, en einhvernveginn þótti mér þessi uppákoma niðurlægjandi fyrir fólkið í vagninum.
Þegar ég kom til Íslands sumarið 1996 var stara eitthvað farin að minnka hjá Íslendingum, en samt þótti mér það virkilega óþægilegt þegar fólk fékk störu og glápti á mig eins og naut á nývirki. Sem betur fer kunnu flestir sig alveg, en ein og ein manneskja missti sig gjörsamlega í glápinu, í einhverjum tilfellum svo illa að ég sá ástæðu til að gera arthugasemd við glápið. Smám saman vandist þetta og eftir einhver ár áttaði fólk sig á því að ég var og er bara venjuleg manneskja.
Glápið fékk á sig nýja mynd á dögunum þegar útgefendur heimsmetabókar Guinnes fengu hávaxnasta mann í heimi til að koma til landsins og vera mörlandanum til sýnis í einn dag eða tvo. Í þetta sinn gerði Rannveig Traustadóttir alvarlegar athugasemdir við þessa sýningu og er það vel. Að minnsta kosti sé ég enga ástæðu til að fara í Smáralindina til að skoða manninn.
Á tuttugustu og fyrstu öldinni eiga sirkussýningar af þessu tagi að vera aflagðar.
fimmtudagur, október 22, 2009
22. október 2009 - Hárrétt hjá strætisvagnastjórum
Framkvæmdastjóri Strætó var beðinn um að biðja afsökunar á framferði strætisvagnastjóra í gær er þeir hinir sömu reyndu að halda áætlun. Þvílík della. Þeir gerðu það sem var hárrétt í þessu tilfelli, fundu sér og vagninum leið til að komast framhjá fólkinu sem reyndi að stöðva umferðina, Strætó bs og farþegunum til léttis.
Að stöðva umferðina á þann hátt sem gert var í gær var ekki rétta leiðin til að mótmæla mikilli umferð. Fólk getur byrjað á sjálfu sér og byrjað á að leita sér að húsnæði nær vinnunni sinni en það gerir í dag. Það er einu sinni svo að íbúar Hlíðahverfis og Norðurmýrar er ekkert öðruvísi en annað fólk, fer ekki spönn frá rassi öðruvísi en á bílnum og með því að selja bílinn sinn og taka strætó er vafalaust hið besta mál fyrir þetta fólk og minnkar vafalaust umferðina í Reykjavík og sparnað hjá viðkomandi íbúum Reykjavíkum.
Sjálf sé ég enda ástæðu til að losa mig við minn bíl því ég ek miklu minna en flestir íbúar Hlíða og Norðurmýrar þótt ég búi í úthverfi, en sjálf geng ég oftast í vinnuna, enda stutt að fara.
miðvikudagur, október 21, 2009
21. október 2009 – Tilraun til að fækka lögregluþjónum?
Ég var á ferð austur eftir Miklubraut um klukkan 22.30 á miðvikudagskvöldið þegar ég veitti athygli torkennilegri þúst á milli akbrautanna inn við Elliðaár. Fyrst sá ég ekki hvað þetta var í myrkrinu og ekki var lýsingin neitt sérlega góð á þessum stað. Þegar ég kom að staðnum þar sem þústin var, sá ég að þetta var ekkert hættulegt, bara tveir leðurklæddir lögregluþjónar að spjalla saman hjá hjólunum sínum, ljóslausir og án þess að nein endurskin sæust á þeim.
Ég hefi séð bíl bila fyrir framan mig og kastast inn að miðju í þessum sama stað á Miklubrautinni. Þar sem ég var að koma af fundi þar sem fjallað var um hið hræðilega efnahagsástand þjóðarinnar og brýna þörf á að skera niður allt sem hægt er að skera niður í ríkisútgjöldunum, velti ég því fyrir mér hvort þessi staðsetning lögregluþjónanna sé í þeim tilgangi að skera niður í rekstrarkostnaði við lögregluna í Reykjavík?
þriðjudagur, október 20, 2009
20. október 2009 - Um Icesave
Fyrir löngu síðan ákvað ég að skrifa ekki eitt einasta orð framar um Icesave og hefi staðið við það þar til nú. Þótt ég sé enn ákveðin í að láta það eiga sig, get ég ekki þagað í ljósi þess að fleiri manns eru nú að reyna að kenna Samfylkingunni um Icesave eins og að ekkert sé sjálfsagðara.
Sjálfstæðismenn eru þessa dagana að reyna að kenna Samfylkingunni um Icesave eins og þessi viðbjóður hafi orðið til á Hallveigarstígnum árið 2009. Það er auðvitað rangt. Það varð nefnilega til í aðalstöðvum Sjálfstæðisflokksins árið 2003 (frekar en 2002). Þegar ónefndir aðilar í flokknum ákváðu upp á sitt einsdæmi að færa flokksfélögum sínum og vildarvinum Landsbankann að gjöf í stað þess að setja um hann reglur um almenningshlutafélög hófst spillingin sem var undanfari Icesave. Einnig hjálpuðu þessir sömu aðilar vinum sínum með því að afnema bindisskyldu bankanna gagnvart Seðlabankanum og léttu verulega á eftirlitsskyldu stjórnvalda gagnvart bönkunum. Í Fjármálaeftirlitið var settur ungur Sjálfstæðismaður sem virtist líta á það sem skyldu sína að gera sem minnst.
Icesave var stofnað haustið 2006 þótt það hafi ekki slegið almennilega í gegn fyrr en líða tók að vori 2007. Á þessum tíma sátu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur í ríkisstjórn. Forystumenn þessara flokka hljóta því að hafa kynnst Icesave frá upphafi og ótrúlegt ef þeir hafa ekki vitað um þessa reikninga frá fyrsta degi. Þegar Samfylkingin tók við hækjunni af Framsóknarflokknum var flest annað í umræðunni en Icesave og því eðlilegt að flestir ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar hafi ekki kynnt sér þessa baneitruðu bankareikninga. Það verður samt að teljast áfellisdómur yfir Samfylkingunni að hafa ekki varað við þessum reikningum svo fljótt sem mögulegt var eftir að hún komst til þátttöku í ríkisstjórn vorið 2007. Það er jafnframt helsta sök Samfylkingar í þessu máli, eitthvað annað en Framsóknarflokksins sem var virkur í spillingunni allt einkavinavæðingartímabilið.
Eftir hrunið reyndu Sjálfstæðisflokkur og Samfylking að bjarga því sem bjargað varð. Þessir flokkar vissu það sem var, að ekki yrði hjá samningum komist ef Ísland vildi vera áfram í samfélagi þjóðanna. Framsóknarflokkurinn hljópst á brott eins og sprúttsali sem neitar sök þótt staðinn sé að verki. Með búsáhaldabyltingunni tóku nýir aðilar við stjórnartaumunum, fólk sem harðast hafði gagnrýnt fyrra samkomulag tók við ábyrgðarfullum og óvinsælum embættum og luku verkinu.
Ég fullyrði hér og nú að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi myndi þora að hafna þessu samkomulagi um Icesave ef hann væri í stjórn. Ekki einu sinni Framsóknarflokkurinn myndi þora slíku, þ.e. með því skilyrði að hin nýja forysta sé með fullu viti. Það er einfaldlega alltof mikið í húfi. Hver vill bera ábyrgð á þjóðargjaldþroti og alþjóðlegri einangrun á þessum síðustu og verstu tímum? Enginn sem ber hag þjóðarinnar sér fyrir brjósti! Allt tal stjórnarandstöðunnar um niðurlægingu er því hjóm eitt.
Samningarnir um Icesave eru nauðasamningar og það verður bara að sætta sig við það. Að tala um niðurlægingu eins og forystumenn Sjálfstæðismenn gera þessa dagana er bull. Þjóð sem lætur taka sig í þurrt rassgatið eins og Sjálfstæðismenn gerðu henni 2002-2008 er þegar svo rækilega niðurlægð, að tæplega er hægt að ganga lengra gagnvart henni, þótt gerðir séu nauðasamningar um Icesave.
sunnudagur, október 18, 2009
18. október 2009 - Eitt örlítið ættfræðibrot
Uppi á vegg í stofunni heima hjá mér eru myndir af foreldrum föður míns þeim Jóni Hildiberg Sigurðssyni og Sesselju Þorgrímsdóttur, hjóna sem dóu bæði ung, hann árið 1916, hún árið 1922. Á sínum tíma eyddi ég geysimiklum tíma í að rekja ættir hennar, foreldra hennar og þá sérstaklega ættir móðurafa hennar Jóns Jónssonar frá Skipalóni í Eyjafirði, en hann átti 22 börn með þremur konum.
Af einhverjum ástæðum gleymdist einn leggur sem er mér nær, þ.e. hálfsystkini ömmu minnar, en faðir hennar var ekkill og margra barna faðir er hann hóf sambúð með langömmu minni með ömmu mína sem ávöxt.
Þar sem ég var að grúska í því mikla riti Minningarriti íslenskra hermanna á laugardagskvöldið rakst ég á Pál nokkurn Þorgrímsson sem hafði flust til Vesturheims árið 1900 frá Snæfellsnesi og verið skráður í kanadíska herinn í janúar 1916, tók þátt í flestum eða öllum orustum deildar sinnar í Frakklandi það sem eftir var stríðsins og snéri aftur heim til Kanada árið 1919. Auðvitað reyndist hann hafa verið bróðir ömmu minnar þótt hann sé sagður þremur árum yngri í bókinni en sagt er í prestþjónustubókum
Það er kannski fullmikið fyrir friðarsinna sem mig að monta sig af einhverjum karli sem tók þátt í stríði þar sem mottóið var að drepa eða verða drepinn, en samt finn ég fyrir stolti yfir manni sem lagði sitt af mörkum til að koma á friði sem átti að útrýma öllum styrjöldum.
Það er verk að vinna að finna fleiri ættingja í Kanada en ég vissi um áður.
laugardagur, október 17, 2009
17. október 2009 – Um prest sem situr í óþökk sóknarbarna
Ég vil taka fram að ég ber engan kala til séra Gunnars Björnssonar. Hann er vafalaust hinn ágætasti maður en um leið get ég ekki skilið þvermóðsku hans þegar sóknarbörnin eru búin að lýsa frati á störf hans.
Ásökun um kynferðislega áreitni gagnvart ungum stúlkum er mjög alvarleg. Það er alveg ljóst að þegar prestur er borinn slíkum sökum af hálfu sóknarbarna sinna, er ekki hægt að ná fram sáttum með dómi. Sættirnar geta því aðeins náðst fram að samkomulag sé um slíkt á milli prestsins og sóknarbarnanna. Það var ekki í tilfelli séra Gunnars. Þar er enn ískalt andrúmsloft á milli hans og sóknarbarnanna eftir sýknudóm Hæstaréttar. Því varð hann að víkja til að ekki yrði klofningur í söfnuðinum á milli stuðningsmanna og andstæðinga prests.
Ég velti fyrir mér hvernig tekið yrði á málinu í því tilfelli sem aðskilnaður ríkir á milli ríkis og kirkju og þar sem söfnuðirnir ráða alfarið hver situr í embætti prestsins. Slíkt hlýtur að leiða af sér klofning ef prestur fær að sitja áfram eftir dómsorð sem því sem lýst er að ofan. Á sama hátt held ég að kirkjuyfirvöld hafi ekki átt annan kost en þann sem þau framkvæmdu, að færa hann til í starfi á fullum launum.
Það grátlegasta er samt það að einustu sigurvegarar í slíkri rimmu sem hér um ræðir eru andstæðingar þjóðkirkjunnar og trúleysingjar.
fimmtudagur, október 15, 2009
15. október 2009 - Um skipulag nýrra bygginga
Fyrir tæpu ári var tekin í notkun ný heilsugæslustöð hér í hverfinu, reyndar svo nærri heimili mínu að ég er einungis tvær mínútur að rölta í apótekið sem er í sama húsi. Þetta er auðvitað allt gott og blessað og ekki er amalegt að geta lagt bínum sínum við innganginn, svo nærri að hægt er að komast inn í húsið úr bílnum án þess að blotna þótt hellirigning sé. Ekki er það til að gera málin verri að göngutíminn minn í vinnuna styttist um hálfa mínútu með tilkomu nýju heilsugæslustöðvarinnar, en þá verð ég líka að ganga á grasinu.
Af einhverjum ástæðum virðast allar aðkomuleiðir við opinberar byggingar miðast við aðkomu á bíl eða úr lofti. Allt er þetta æðislega flott á loftmyndum hvort heldur er átt við heilsugæslustöðina eða opinbera fyrirtækið hinum megin við götuna, Orkuveituna. Allir gangstígar eru þráðbeinir og hægt að gera reglustiku eftir þeim, en þegar gengið er að staðnum blasir önnur mynd við Við heilsugæslustöðina liggja allir göngustígar út í umferðina á götunni, en hinum megin götunnar er venjulega gras því göngustígurinn hinum megin er venjulega allt annars staðar.
Ég hefi aldrei séð nokkra manneskju ganga eins og spýtukarl eftir hinum hönnuðu göngustígum við heilsugæslustöðina. Hinsvegar er grasið niðurtroðið þar sem fólkið styttir sér leið, t.d. ef farið er frá heilsugæslustöðinni að gangbrautinni við hringtorgið við hornið á heilsugæslustöðinni, en þar er engin hönnuð leið. Sama er að segja um opinbera fyrirtækið hinum megin við götuna þar sem gleymdist að gera ráð fyrir gangandi vegfarendum, enda sú bygging hönnuð með árið 2007 að leiðarljósi.
Hvernig væri að kenna þessum svokölluðu skipulagsfræðingum að hugsa í stað þess að láta þá vinna verkin sín með reglustriku eða gera þá að forystumönnum ónefndra grínstjórnmálaflokka?
mánudagur, október 12, 2009
12. október 2009 - Um þýddan sjónvarpsþátt
Seint á mánudagskvöldum er sýndur í Ríkissjónvarpinu þáttur sem hlotið hefur heitið Fé og freistingar. Þótt ég hefi ekki náð því að horfa á heilan þátt af þessum sjónvarpsmyndum, þá fær Ásta Kristín Hauksdóttir þýðandi þáttanna stóran mínus í kladdann fyrir að þekkja ekki muninn á transgender og kynvillingum, afsakið kynskiptingum.
12. október 2009 - Svínaflensan
Að undanförnu hafa dunið yfir landslýð fréttir frá landlæknisembættinu um svínaflensuna illræmdu. Ég get vel skilið að fólk hafi áhyggjur af flensunni vitandi að hún er ný og að mikill fjöldi getur smitast og lagst í rúmið, margfaldur sá fjöldi sem þegar hefur smitast ef þeir sem smitast hafa að undanförnu eru þá smitaðir af flensunni.
Í fréttum er jafnframt ítrekað að heilbrigðisstarfsfólk fái fyrst flensusprautuna, síðan það fólk sem er með undirliggjandi sjúkdóma, en er ekki ástæða til að kanna hvort ekki sé nauðsyn á að fleiri þurfi ekki að vera í forgangi en heilbigðisstarfsfólk og löggur? Það er staðreynd að án virkra veitustofnana og þá án rafmagns, vatns og hita eru heilbrigðisstofnanir gjörsamlega lamaðar og þessi hópur er ekkert rosalega stór, kannski innan við 200 manns hjá Orkuveitu Reykjavíkur og mun færri hjá öðrum orku- og veitufyrirtækjum, kannski samtals um þúsund manns, enda er Þá gengið út frá því að einungis sá hluti starfsfólksins sem starfar beint að framleiðslu og dreifingu á rafmagni, vatni og hita séu í forgangshópnum.
Það væri fróðlegt að vita hvort slíkur listi sé fyrir hendi í dag hjá landlæknisembættinu og orkuveitufyrirtækjunum og þá hverjir sé í forgangshópunum? Ekki veit ég.
12. október 2009 - Amerískt lagafrumvarp um réttindi samkynhneigðra
Hommar hafa aldrei verið verið vinsælir sem hermenn. Það er eðlilegt, því tilfinninganæmni þeirra er hindrun í vegi fyrir því að þeir geti orðið góðir morðingjar, þá sérstaklega ef þeir þurfa að berjast maður við mann eins og hefur átt sér stað í landhernaði. Í sjóhernaði er ekkert um að menn berist á banaspjótum með byssustingjum og handsprengjum og því þykja hommar miklu hæfari í sjóhernaði en í landhernaði þótt þeir hafi einnig verið bannfærðir í bandaríska sjóhernum því eitt skal yfir alla ganga.
Þrátt fyrir bannið, hefur bandaríski sjóherinn gert sér grein fyrir hæfileikum margra homma í sjóhernaði. Því fengu þeir hýra söngkvintettinn Village People til að syngja hvatningarsöng fyrir sjóherinn í framhaldi af laginu YMCA á áttunda áratugnum, þ.e. lagið „In the Navy“, enda töldust hommar öðrum betri viðureignar í löngum útiverum þar sem saman voru komnir hundruðir ungra karlmanna í einangrun í þröngum vistarverum.
Í fyrradag flutti Obama Bandaríkjaforseti ræðu á þingi bandarískra homma þar sem hann lýsti því yfir að hann ætlaði að leggja fram lagafrumvarp um bætt réttindi LGBT einstaklinga í hernum. (LGBT = Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender).
Sjálf hefi ég aldrei getað skilið þetta bann, þó með tilliti til formálans. Ég vil ekkert láta drepa mig og því er mér slétt sama hvort hermaðurinn sem er ráðinn til verksins er hommi eður ei. Helst vil ég að hann finni sér aðra og heiðarlegri atvinnu en þá að drepa fólk eða verða drepinn. Því sé ég enga ástæðu til að fagna þessu frumkvæði Bandaríkjaforseta sem er í eðli sínu andstætt þeim verðlaunum sem honum hlotnaðist síðastliðinn föstudag þótt vissulega eigi hommar að hafa sama rétt og aðrir á öllum sviðum mannlífsins, þá einnig til vondra verka.
Svo mælist ég til að Ríkissjónvarpið á Íslandi taki ríkisstjórnina og Morgunblaðið sér til fyrirmyndar og hætti að kalla transgender einstaklinga fyrir kynvillinga eða kynskiptinga eins og þeir gerðu í fréttatímanum á sunnudagskvöldið.
laugardagur, október 10, 2009
10. október 2009 – Mér þykir ennþá vænt um Framsóknarmenn
Ég hefi kynnst allnokkrum góðum Framsóknarmönnum þótt ég hafi ekki átt samleið með þeim í pólitík. Má þar nefna Alfreð Þorsteinsson, Sigrúnu Magnúsdóttur og fleiri.
Nú er ég farin að hafa virkilegar áhyggjur af íslenskum Framsóknarmönnum. Þótt deila megi hvort þeir hafi löngum haft óeðlilegan aðgang að miklu fjármagni úr sjóðum landsmanna, virðast þeir nú farnir að krefjast þess að norskum Framsóknarmönnum að þeir fái óeðlilegan aðgang að fjármagni úr norskum sjóðum og veiti þá Íslenskum Framsóknarmönnum.
Hvernig dettur þeim annars í hug að þjóð sem hefur neitað Íslendingum um lán þar til búið er að gera upp Icesave reikningana, fari allt í einu að veita íslenskum Framsóknarmönnum margfalt hærra lán án ábyrgðar. Grátlegast er þó að sjá Framsóknarmennina tvo sitja á blaðamannafundi með tveimur útrásarvíkingum og gráta það að Jóhanna Sigurðardóttir skyldi hafa kannað hvað til er í orðum þeirra. Það má kannski búast við að þeir fari næst að leita til Rússana eins og Davíð forðum?
Mér þykir enn vænt um Framsóknarmenn en er ekki kominn tími til að finna þeim annan formann sem er með fæturna niðri á jörðinni?
föstudagur, október 09, 2009
9. október 2009 - Friðarljós í Viðey
Ég var úti að aka á miðvikudagskvöldið þegar farþegi sem sat í bílnum hjá mér benti mér á að búið væri að kveikja á friðarsúlunni í Viðey. Það getur ekki verið sagði ég, þetta ljós sem við sjáum hlýtur að vera eitthvað allt annað.
Í gærkvöldi var ég úti að ganga með fallegu fólki og enn sá einhver geisla frá ljósatyppinu og kom með sömu athugasemd og farþeginn hjá mér kvöldið áður. Nú heyri ég í fréttum Stöðvar 2 að búið sé að fresta því að tendra friðarljósið í Viðey til morguns vegna veðurs.
Úr því að ekki er búið að tendra ljósið velti ég því fyrir mér hvort Yoko Ono hafi verið leita að friðarljósinu sínu með ljóskastara síðustu kvöldin.
-----
P.s. kl. 20.15 Og ljósið skín sem aldrei fyrr.
9. október 2009 - Friðarverðlaun Nobels
Friðarverðlaun Nobels voru stofnuð í ákaflega göfugum tilgangi, til að stuðla að friði manna á meðal og veita þeim viðurkenningu sem skarað hafa framúr á því sviði. Allnokkrir friðarverðlaunahafa hafa fengið þessa viðurkenningu fyrir fórnfúst lífsstarf þar sem þeir fórnuðu öllu fyrir vopnlausa baráttu eða mannkærleika. Má þar nefna Albert Schweitzer, Martin Luther King, Dalai Lama, Móður Teresu, Desmond Tutu og Aung San Suu Kyi. Fleiri mætti efalaust nefna sem hafa unnið fyrir verðlaununum með lífsstarfi sínu sem eru minna þekktir í dag auk þess sem ýmis samtök sem stuðla að friði og bættu mannlífi í heiminum hafa fengið verðlaunin, sbr Amnesty International.
Þrátt fyrir þennan lista hefur hópur einvalda og stríðsherra fengið verðlaunin, menn sem tóku við verðlaununum eins og blóðugir upp að öxlum í sláturtíðinni, menn á borð við Menahem Begin, Anwar Sadat, Henry Kissinger, Yasser Arafat, Shimon Peres og Le Duc Tho, en sá síðastnefndi hafnaði þeim góðu heilli. Þessir menn hafa hver fyrir sig verið sem hneisa fyrir friðarverðlaun Nobels þótt vafalaust megi finna eitt og annað jákvætt í fari þeirra t.d. að þeir hafi verið góðir við aldraða móður sína og farið reglulega út að ganga með hundinn sinn.
Enn aðrir hafa fengið verðlaunin í framhaldi af tilviljanakenndri atburðarás, menn eins og Mikhail Gorbachev, Jimmy Carter og Al Gore, allt menn sem sneru við blaðinu á miðri vegfarð og hófu að stuðla að friði í stað styrjalda.
Nú hefur Barack Obama fengið friðarverðlaun Nobels. Ekki veit ég fyrir hvað. Hann er að vísu sem friðardúfa í samanburði við stríðsglæpamanninn forvera sinn í embætti sem mig minnir að hafa fengið fleiri tilnefningar til verðlaunanna án árangurs, en hann þykir samt álíka mikill friðarsinni og Björn Bjarnason svo nefnd séu dæmi héðan af Klakaskerinu. Nægir þar að nefna stríðin í Afganistan og Írak sem eru að vísu arfur eftir forverann illræmda, en sem Obama hefur viðhaldið á þeim fáu mánuðum síðan hann tók við embætti.
Með síðustu úthlutun Nobelsverðlauna held ég að óhætt sé að endurnýja norsku Nobelsakademíuna að öllu leyti, en til vara að leggja hana niður þar til friðarsinnar fást í akademíuna.
fimmtudagur, október 08, 2009
8. október 2009 - Ólöf mágkona
Á fimmtudag, var borin til grafar mágkona mín Ólöf Jónsdóttir. Ég er kannski ekki rétta manneskjan til að minnast hennar, enda engin sérstök vinátta á milli okkar auk þess sem ég hefi einungis hitt hana í örfá skipti á síðustu tveimur áratugum, en get samt ekki setið á mér að segja nokkur orð um hana.
Fljótlega eftir að Jón bróðir minn skildi við fyrri eiginkonuna og tók við Ólöfu í lok sjöunda áratugar síðustu aldar, byrjaði einhverskonar erfiðleikasamband milli fjölskyldu minnar og Ólafar, ekki beinlínis haturssamband, fremur samskipti sem einkenndust af blöndu af vorkunnsemi og fyrirlitningu því Ólöf var ekki eins og fólk er flest. Hún lifði töluvert í sínum eigin ímyndunar- og draumaheimi og öfugt við þann stuðning sem hún þurfti á að halda til að losna úr þessum draumaheimi, gerði fólk gys að henni á laun, draumum hennar og tilfinningum. Ég var ekki mikið öðruvísi en annað fólk, þar á meðal ættingjar mínir, tók þátt í hæðninni á laun og má skammast mín fyrir það í dag.
Ólöf hlýtur að hafa fundið inn á þessa hæðni því smám saman einangruðust Jón og Ólöf frá öðrum ættingjum. Þessi einangrun var gagnkvæm, við forðuðumst þau og þau forðuðust okkur. Það var þó engin ástæða til slíks og samband þeirra við okkur var þolanlegt á áttunda áratugnum og fram á hinn níunda áratugnum en fjaraði að nokkru út þegar nálgaðist aldamótin, þó með nokkrum undantekningum.
Sjálf var ég í Svíþjóð í nokkur ár og missti tengslin, en er ég kom heim aftur 1996 virtist systkinakærleikurinn milli mín og elsta bróður míns hafa fjarað út að mestu, ekki síst eftir að ég hafði farið þá vegferð sem honum og mörgum öðrum var á móti skapi og tilfinningum. Ég vissi ekkert um afstöðu Ólafar á þeim tíma, enda var sambandið ekkert á milli mín og þeirra næstu árin á eftir. Ég hitti þó Ólöfu eitt örlítið augnablik við jarðarför móður minnar árið 2003, en síðan ekki söguna meir fyrr en ég rakst á hana og dóttur þeirra hjóna í verslunarmiðstöð fyrir fáeinum mánuðum. Var hún þá hin hressasta og báru þær mæðgur með sér að enginn kali væri af þeirra hálfu í minn garð, en ég hafði að auki fundið fyrir mildari afstöðu bróður míns í minn garð en mér hafði verið tjáð áður. Ég sá því ekki ástæðu til að erfa neitt þótt ekki yrði sambandið meira en áður við það.
Ólöf varð bráðkvödd á heimili sínu 29. september síðastliðinn. Mig langar til að votta Jóni bróður mínum, börnum þeirra Ómari og Arndísi og barnabörnum samúð mína.
miðvikudagur, október 07, 2009
7. október 2009 - Guð blessi hrunið?
Í gærkvöldi var sýndur fyrsti þátturinn af fjórum í sjónvarpinu um efnahagshrunið á Íslandi og fannst mér lítið til koma. Kannski er það vegna þess að hrunið situr enn of ferskt í mér til að ég geti horft á það úr fjarlægð tíma eða rúms. Fyrir bragðið virkaði það eins og endurtekinn fréttaauki eða kastljósþáttur.
Í gærkvöldi var einnig sýnd kvikmyndin Guð blessi Ísland í bíó. Ekki sá ég myndina, en að sögn þeirra sem ég þekki og sáu hana, var hún ekki peninganna virði. Án þess að ég geti lagt mat á myndina sjálf á meðan ég hefi ekki séð hana, þá grunar mig að ástæðan sé hin sama og með sjónvarpsmyndina, of skammt liðið frá hruninu og of margir þættir þess enn óupplýstir.
Kannski er ekki hægt að gera góða fræðslumynd um hrunið í dag. Við bíðum enn eftir skýrslu rannsóknarnefndarinnar undir stjórn Páls Hreinssonar um hrunið og grunar mig að þá muni mörg atriði líta dagsins ljós sem í dag eru mönnum hulin. Þá ganga útrásarvíkingarnir enn lausir og halda áfram að safna auði eftir gífurlegar afskriftir bankanna á kostnað okkar vesælla íbúa þessa lands. Fyrir bragðið er ekki hægt að gera raunhæfa kvikmynd um atburði liðins hrunárs þar sem endirinn er enn óljós, en verður örugglega erfiður mörgum, kvikmynd án enda.
Það er ekki langt síðan gerð var sjónvarpsmynd um Enron hneykslið þótt átta ár séu liðin frá því Enron fór á hausinn. Það tók nokkur ár að finna lausu endana og síðan dæma sökudólgana til réttlátrar refsingar.
Mig grunar að uppgjör Íslandshneykslisins muni taka að minnsta kosti jafnlangan tíma ef tekst nokkru sinni að kafa til botns í því. Þá fyrst verður hægt að gera þokkalega kvikmynd um hrunið, orsakir þess og afleiðingar.
þriðjudagur, október 06, 2009
6, október 2009 - Berin eru súr
Fyrir nokkrum árum síðan var ég á þriggja daga fundi í Tórínó á Ítalíu og vildi auðvitað kynna mér eitthvað meira af menningu borgarinnar en fundardagskrána og fundargestina sem ég þekkti alla ágætlega frá fyrri fundum. Ég spurði því hvar líkkklæði Krists væru niðurkomin í borginni og var mér þá tjáð að þau væru nánast í næsta húsi, í Jóhannesardómkirkjunni við enda götunnar þar sem fundurinn var haldinn, Via della Basilica.
Úr því að ég var komin alla þessa leið, fannst mér tilvalið að kíkja á djásnið þegar fundinum væri lokið, en þegar inn í kirkjuna var komið reyndust líkklæðin vandlega læst ofan í kassa á bak við eldtraustan glervegg og lítið spennandi þótt kirkjan sjálf væri glæsileg að sjá að innanverðu og sögurnar af Don Camilló þyrluðust upp í minningunni í þessari bílaborg þeirra Ítalanna.
Rétt eins og refurinn sem fannst berin súr þegar hann náði þeim ekki, sitja líkklæðin ekki sterkt í minningunni nokkrum árum síðar, ekki síst eftir að ég las pistil Illuga Jökulssonar um fölsuð líkklæðin sem hann hefur eftir Moggasnepli, en það vita nú allir hve mikið er að marka Moggasnepil á þessum síðustu og verstu tímum og því vissara að hafa einhvern þeim vitrari til að sannreyna sögurnar.
http://www.dv.is/blogg/tresmidja/2009/10/6/ruglid-um-likklaedid-i-torino/
http://public.fotki.com/annakk/ferir-og-vinna/43-torino---112006/
mánudagur, október 05, 2009
5. október 2009 - Um ónefndan ritstjóra og Moggablogg
Mér bárust til heyrna áðan að hinn nýi ritstjóri Morgunblaðsins væri farinn að úthúða þeim bloggskríbentum sem ekki eru á hans skoðun, þó að undanskildum Ómari Ragnarssyni og fáeinum öðrum. Ekki veit ég neitt um það. Morgunblaðið hefur ekki borist inn á heimili mitt í tvo daga og ætla ég að það komi ekki hingað að nýju um sinn. Þá sé ég enga ástæðu til að elta ólar við Morgunblaðsvefinn né Moggabloggið, en ég hefi sagt skilið við Moggabloggið fyrir nokkru síðan og held áfram að skrifa mín sóðablogg á blogspot þar sem ritstjórnarstefna Morgunblaðsins nær ekki til mín.
Það má vel vera að ritstjóri Morgunblaðsins hafi ekki verið að beina orðum sínum að mér sem mér þykir þó líklegt, en hann hafi frekar verið að kalla til sín hina nýju skoðanabræður sína og systur, hina nýju Sjálfstæðismenn sem þykjast vera í stjórn eru í reynd í stjórnarandstöðu. Hvað veit ég? Ég er hætt að lesa Morgunblaðið að sinni og reyndar er mér hjartanlega sama hverja skoðun ritstjórar Morgunblaðsins hafa á bloggskrifum eða öðrum landsins málefnum.
Rétt eins og síðustu fjögur árin, þá er ég enn með mitt grunnblogg á gamla staðnum, þ.e. http://velstyran.blogspot.com þar sem ég skrifa flesta daga, þó ekki alla. Þetta er ákaflega ljúft bloggsvæði, fæ fáar heimsóknir þangað og því blessunarlega laus við skítkast frá öfgasinnuðum nýfrjálshyggjusinnum og trúvillingum.
Það er hið besta mál.
sunnudagur, október 04, 2009
4. október 2009 - Gríðarlegur stjórnarandstæðingur
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir stjórnarandstæðingur kom fram í Silfri Egils í dag þar sem hún bað Ögmundi Jónassyni stjórnarandstæðing griða og taldi gríðarlega mikilvægt að setja hann aftur inn í ríkisstjórn sem hann er í reynd á móti (ég taldi ekki hveru oft Guðfríður Lilja notaði orðið gríðarlega til að leggja áherslu á orð sín en mér vitrari maður sem nennti að horfa með athygli á þáttinn taldi 18 skipti þar sem hún notaði orðið gríðarlega). Guðfríður Lilja og Ögmundur eru ekki ein um andstöðuna gegn ríkisstjórninni innan Vinstri grænna. Þar má nefna Jón Bjarnason, Ásmund Einar Daðason og hugsanlega einnig Atla Gíslason, Það má eiginlega segja að Vinstri hreyfingin-grænt framboð sé hópur einstaklingshyggjusinna og því þar virðast jafnmargir þingflokkar og þingmenn þess eru margir. Það er alveg ljóst að það er mjög erfitt að vinna með þingflokki þar sem hver höndin er upp á móti annarri í flestum málum.
Hafa ber í huga að Framsókn er á móti Evrópusambandinu, þrátt fyrir samþykkt á síðasta landsfundi, Sjálfstæðisflokkur á móti sem og Vinstri grænir. Þegar haft er í huga að margir þingmenn Vinstri grænna og (Borgara)Hreyfingar eru einnig á móti möguleikum á því að koma á stöðugleika í fjármálum ríkisins með nauðasamningunum við Breta og Hollendinga, er eðlilegt að Vinstri grænir slíti stjórnarsamstarfi við Samfylkinguna og gangi til liðs við hægri öflin sem komu þjóðinni á vonarvöl. Þar eiga þeir heima miðað við hegðun þeirra að undanförnu.
Slíkt hlýtur að verða fagnaðarefni fyrir íhaldsmenn sem í þrælsótta sínum eru tilbúnir að koma íhaldi og Framsókn aftur til valda sama hvað það kostar, svo að þeir geti endanlega komið því litla sem enn er uppistandandi hjá íslenskri þjóð á hausinn og tryggt að þjóðin komist aldrei á lappir á ný.
laugardagur, október 03, 2009
3. október 2009 - Sýruárás?
Það fór um mig þegar ég sótti Fréttablaðið niður í póstkassa í morgun og sá fyrirsögn þess efnis að Rannveig Rist hefði orðið fyrir sýruárás í andlitið. Fyrst datt mér í hug að einhver hefði setið fyrir henni og slett á hana sýru, en við lestur fréttarinnar reyndist hún hafa fengið sýrudropa í andlitið er hún opnaði bílinn sinn fyrir tveimur mánuðum, atburður sem vitað var um fyrir löngu.
Einn sýrudropi er nógu alvarlegt atvik samt, þótt ekki sé verið að dramatísera hlutina á þann hátt sem Fréttablaðið gerði sig sekt um með fyrirsögninni. Þess þurfti ekki. Sömuleiðis yrði seint hægt að ákæra skemmdarverkafólkið fyrir sýruárás á Rannveigu nema auðvitað að ákæruvaldið taki að sér að leita hefnda fyrir atvikið.
Þetta breytir auðvitað engu um að þau skemmdarverk sem framin hafa verið á húsum og bílum starfsfólks orkufyrirtækja og verksmiðja sem og á eignum útrásarvíkinganna er engum til góðs. Í flestum eða öllum tilfellum lendir tjónið á saklausum almenningi sem þarf að greiða fyrir það með hækkuðum tryggingaiðgjöldum. Að auki veldur það dýpri gjá á milli auðmanna og yfirmanna stórfyrirtækja annarsvegar og almennings hinsvegar en við höfum séð áður og sú hætta getur skapast að farið verði að flokka fólk í svæði eftir efnahag á sama hátt og sjá má í sumum ríkjum Rómönsku-Ameríku og víðar. Því er betur heima setið en af stað farið.
Lögreglan hlýtur að vita hvaða fólk stendur að þessum skemmdarverkum, svo lík eru þessi skemmdarverk hverju öðru og fáir aðilar sem eru líklegir til slíkra ódæðisverka. Því verður að finna skemmdarverkafólkinu aðstöðu hið bráðasta, við smíði á bílnúmeraplötum og öðru slíku ef engu er hægt að ná af þeim upp í þær skemmdir sem þeir hafa unnið.
3. október 2009 - Enn um Moggann
Undanfarna daga hefur hver ritsnillingurinn á fætur öðrum bent okkur aumum á þá einföldu staðreynd að Morgunblaðið sé í einkaeigu og að eigendum þess sé alveg í sjálfsvald sett hvern þeir vilja ráða sem ritstjóra. Við sem sögðum upp Mogganum var þetta alveg ljóst, en einnig að fyrr á árinu þurftum við að greiða þrjá milljarða með blaði í einkaeigu úr almannasjóðum, þ.e. banka sem kominn er í eigu samfélagsins.
Þegar ég gerðist áskrifandi að Morgunblaðinu á síðari hluta tíunda áratugar síðustu aldar hafði Morgunblaðið breyst verulega. Það var ekki lengur þetta einstrengingslega flokksblað Sjálfstæðisflokksins sem það hafði verið frá því á þriðja áratug aldarinnar, orðið mun hófsamara þótt enn saknaði ég vissulega uppgjörs við fortíðina. Það var samt ástæða til að gerast áskrifandi og við Moggi gamli urðum dús.
Með nýjum eigendum að blaðinu á þessu ári var viðbúið að breytt yrði um áherslur við rekstur blaðsins. Það var þó ekki fyrr en við brottrekstur Ólafs Stephensen frá blaðinu sem ljóst var að breyta átti stefnunni og endurnýja flokksböndin við Sjálfstæðisflokkinn. Með þessu skildu leiðir mínar og Morgunblaðsins. Það gerðist ekki í einu vettvangi, en um leið og tilkynnt var að helsti foringi nýfrjálshyggjunnar yrði ritstjóri, varð þetta öllum ljóst og ég kvaddi Morgunblaðið með söknuði.
Bréfið sem nýju ritstjórarnir sendu fyrrum áskrifendum blaðsins og barst mér í fyrradag, breytti engu um uppsögn mína, en ég er tilbúin að endurnýja áskriftina að nýju um leið og ný og frjálslyndari ritstjórnarstefna verður gerð heyrinkunn með nýjum ritstjórum.