sunnudagur, október 18, 2009

18. október 2009 - Eitt örlítið ættfræðibrot



Uppi á vegg í stofunni heima hjá mér eru myndir af foreldrum föður míns þeim Jóni Hildiberg Sigurðssyni og Sesselju Þorgrímsdóttur, hjóna sem dóu bæði ung, hann árið 1916, hún árið 1922. Á sínum tíma eyddi ég geysimiklum tíma í að rekja ættir hennar, foreldra hennar og þá sérstaklega ættir móðurafa hennar Jóns Jónssonar frá Skipalóni í Eyjafirði, en hann átti 22 börn með þremur konum.

Af einhverjum ástæðum gleymdist einn leggur sem er mér nær, þ.e. hálfsystkini ömmu minnar, en faðir hennar var ekkill og margra barna faðir er hann hóf sambúð með langömmu minni með ömmu mína sem ávöxt.


Þar sem ég var að grúska í því mikla riti Minningarriti íslenskra hermanna á laugardagskvöldið rakst ég á Pál nokkurn Þorgrímsson sem hafði flust til Vesturheims árið 1900 frá Snæfellsnesi og verið skráður í kanadíska herinn í janúar 1916, tók þátt í flestum eða öllum orustum deildar sinnar í Frakklandi það sem eftir var stríðsins og snéri aftur heim til Kanada árið 1919. Auðvitað reyndist hann hafa verið bróðir ömmu minnar þótt hann sé sagður þremur árum yngri í bókinni en sagt er í prestþjónustubókum

Það er kannski fullmikið fyrir friðarsinna sem mig að monta sig af einhverjum karli sem tók þátt í stríði þar sem mottóið var að drepa eða verða drepinn, en samt finn ég fyrir stolti yfir manni sem lagði sitt af mörkum til að koma á friði sem átti að útrýma öllum styrjöldum.

Það er verk að vinna að finna fleiri ættingja í Kanada en ég vissi um áður.


0 ummæli:







Skrifa ummæli