laugardagur, október 17, 2009

17. október 2009 – Um prest sem situr í óþökk sóknarbarna

Ég vil taka fram að ég ber engan kala til séra Gunnars Björnssonar. Hann er vafalaust hinn ágætasti maður en um leið get ég ekki skilið þvermóðsku hans þegar sóknarbörnin eru búin að lýsa frati á störf hans.

Ásökun um kynferðislega áreitni gagnvart ungum stúlkum er mjög alvarleg. Það er alveg ljóst að þegar prestur er borinn slíkum sökum af hálfu sóknarbarna sinna, er ekki hægt að ná fram sáttum með dómi. Sættirnar geta því aðeins náðst fram að samkomulag sé um slíkt á milli prestsins og sóknarbarnanna. Það var ekki í tilfelli séra Gunnars. Þar er enn ískalt andrúmsloft á milli hans og sóknarbarnanna eftir sýknudóm Hæstaréttar. Því varð hann að víkja til að ekki yrði klofningur í söfnuðinum á milli stuðningsmanna og andstæðinga prests.

Ég velti fyrir mér hvernig tekið yrði á málinu í því tilfelli sem aðskilnaður ríkir á milli ríkis og kirkju og þar sem söfnuðirnir ráða alfarið hver situr í embætti prestsins. Slíkt hlýtur að leiða af sér klofning ef prestur fær að sitja áfram eftir dómsorð sem því sem lýst er að ofan. Á sama hátt held ég að kirkjuyfirvöld hafi ekki átt annan kost en þann sem þau framkvæmdu, að færa hann til í starfi á fullum launum.

Það grátlegasta er samt það að einustu sigurvegarar í slíkri rimmu sem hér um ræðir eru andstæðingar þjóðkirkjunnar og trúleysingjar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli