þriðjudagur, október 20, 2009

20. október 2009 - Um Icesave

Fyrir löngu síðan ákvað ég að skrifa ekki eitt einasta orð framar um Icesave og hefi staðið við það þar til nú. Þótt ég sé enn ákveðin í að láta það eiga sig, get ég ekki þagað í ljósi þess að fleiri manns eru nú að reyna að kenna Samfylkingunni um Icesave eins og að ekkert sé sjálfsagðara.

Sjálfstæðismenn eru þessa dagana að reyna að kenna Samfylkingunni um Icesave eins og þessi viðbjóður hafi orðið til á Hallveigarstígnum árið 2009. Það er auðvitað rangt. Það varð nefnilega til í aðalstöðvum Sjálfstæðisflokksins árið 2003 (frekar en 2002). Þegar ónefndir aðilar í flokknum ákváðu upp á sitt einsdæmi að færa flokksfélögum sínum og vildarvinum Landsbankann að gjöf í stað þess að setja um hann reglur um almenningshlutafélög hófst spillingin sem var undanfari Icesave. Einnig hjálpuðu þessir sömu aðilar vinum sínum með því að afnema bindisskyldu bankanna gagnvart Seðlabankanum og léttu verulega á eftirlitsskyldu stjórnvalda gagnvart bönkunum. Í Fjármálaeftirlitið var settur ungur Sjálfstæðismaður sem virtist líta á það sem skyldu sína að gera sem minnst.

Icesave var stofnað haustið 2006 þótt það hafi ekki slegið almennilega í gegn fyrr en líða tók að vori 2007. Á þessum tíma sátu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur í ríkisstjórn. Forystumenn þessara flokka hljóta því að hafa kynnst Icesave frá upphafi og ótrúlegt ef þeir hafa ekki vitað um þessa reikninga frá fyrsta degi. Þegar Samfylkingin tók við hækjunni af Framsóknarflokknum var flest annað í umræðunni en Icesave og því eðlilegt að flestir ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar hafi ekki kynnt sér þessa baneitruðu bankareikninga. Það verður samt að teljast áfellisdómur yfir Samfylkingunni að hafa ekki varað við þessum reikningum svo fljótt sem mögulegt var eftir að hún komst til þátttöku í ríkisstjórn vorið 2007. Það er jafnframt helsta sök Samfylkingar í þessu máli, eitthvað annað en Framsóknarflokksins sem var virkur í spillingunni allt einkavinavæðingartímabilið.

Eftir hrunið reyndu Sjálfstæðisflokkur og Samfylking að bjarga því sem bjargað varð. Þessir flokkar vissu það sem var, að ekki yrði hjá samningum komist ef Ísland vildi vera áfram í samfélagi þjóðanna. Framsóknarflokkurinn hljópst á brott eins og sprúttsali sem neitar sök þótt staðinn sé að verki. Með búsáhaldabyltingunni tóku nýir aðilar við stjórnartaumunum, fólk sem harðast hafði gagnrýnt fyrra samkomulag tók við ábyrgðarfullum og óvinsælum embættum og luku verkinu.

Ég fullyrði hér og nú að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi myndi þora að hafna þessu samkomulagi um Icesave ef hann væri í stjórn. Ekki einu sinni Framsóknarflokkurinn myndi þora slíku, þ.e. með því skilyrði að hin nýja forysta sé með fullu viti. Það er einfaldlega alltof mikið í húfi. Hver vill bera ábyrgð á þjóðargjaldþroti og alþjóðlegri einangrun á þessum síðustu og verstu tímum? Enginn sem ber hag þjóðarinnar sér fyrir brjósti! Allt tal stjórnarandstöðunnar um niðurlægingu er því hjóm eitt.

Samningarnir um Icesave eru nauðasamningar og það verður bara að sætta sig við það. Að tala um niðurlægingu eins og forystumenn Sjálfstæðismenn gera þessa dagana er bull. Þjóð sem lætur taka sig í þurrt rassgatið eins og Sjálfstæðismenn gerðu henni 2002-2008 er þegar svo rækilega niðurlægð, að tæplega er hægt að ganga lengra gagnvart henni, þótt gerðir séu nauðasamningar um Icesave.


0 ummæli:







Skrifa ummæli