sunnudagur, október 25, 2009

26. október 2009 - Hnípin þjóð í vanda!

Mikael Torfason hélt ágæta ádrepu yfir íslensku þjóðinni í þættinum hjá Sirrý á sunnudagsmorguninn. Þótt ég sé enn dálítið ósátt við Mikael síðan á síðustu dögum hans í ritstjórnarstól DV (mér er ekkert illa ritstjóra almennt þótt halda mætti annað) þá verð ég að viðurkenna að hann komst býsna vel að orði um íslenska þjóð.

Ekki get ég endurtekið orð hans orðrétt, en meiningin er samt eftirfarandi: Þegar Íslendingum gengur vel eru þeir stærstir og bestir, þegar þeim gengur illa eru þeir minnstir og vesælastir.

Í mínu ungdæmi var þjóðremba notuð um slíkt fyrirbæri sem álit íslensku þjóðarinnar er á sjálfri sér. Í nokkur ár hegðuðu íslenskir útrásarvíkingar og ræningjar sér eins og forfeður þeirra til forna, herjuðu á lönd Evrópu með matadorpeninga að vopni, töluðu niður til annarra þjóða og sýndu þeim fyrirlitningu. Íslenska þjóðin bætti um betur og tók undir með ræningjunum. Þegar efnahagskerfið hrundi vegna fáránlegrar hegðunar ræningjanna sem höfðu lagt íslensku þjóðina að veði fyrir skuldum sínum með samþykki stjórnenda þjóðarinnar, stóð þjóðin skyndilega uppi nánast vinalaus. Hún hafði sjálf rúið sig trausti og skildi nú ekkert í því að enginn skyldi vilja draga hana upp úr því forarsvaði sem hún hafði sjálf komið sér í. Hún hafði ekki einungis drullað upp á bak heldur yfir höfuð. Síðan hoppaði hún hæð sína í loft upp þegar gamlar vinaþjóðir kröfðust þess að hún stæði við skuldbindingar sínar áður en þeir hjálpuðu henni upp úr drullusvaðinu.

Nú er íslenska þjóðin aumust allra þjóða, minnst og fátækust. Henni er vorkunn enda er hún búin að mála sig út í horn í samfélagi þjóðanna þótt einhver ljósglæta virðist vera í myrkrinu eftir að samkomulag tókst með Englendingum og Hollendingum. Er nú óskandi að Alþingi samþykki það sem fyrst svo ekki komi til endalegs hruns Íslands sem þjóðar.

Þrátt fyrir allt er þjóðin í betri málum en margar aðrar þjóðir. Hér eru miklir möguleikar á útflutningi á sjávarafurðum og álframleiðslan er á fullu og það eru miklir möguleikir á auknum útflutningi til framtíðar. Atvinnustig er hátt, miklu hærra en í mörgum löndum, jafnvel hærra en hið æskilega atvinnustig nýfrjálshyggjupostulans sáluga Miltons Friedmans. Við búum í hlýjum og björtum húsum með öllum þægindum og skatturinn er lægri en það sem er eðlilegt í mörgum löndum sem við viljum miða okkur við.

Ég held að íslensk þjóð sé að setja heimsmet í sjálfsvorkunn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli