Þegar ég var í stjórn skólafélags Vélskólans á áttunda áratugnum hafði
ágætur kollegi okkar samband við okkur og sagði sögu sína ekki slétta. Hann var
með öll réttindi frá Vélskóla Íslands en fékk einungis starf sem aðstoðarmaður
í vél á sænskum skipum. Ástæðan var sú að íslensk vélstjórnarréttindi voru ekki
tekin gild í Svíþjóð né annars staðar á Norðurlöndunum. Sjálf hafði ég verið
aðstoðarvélstjóri á dönsku tankskipi eitt sumar og þar hafði ég heyrt af hinu
sama þótt ekki reyndi á réttindin í mínu tilfelli. Við könnuðum ástæðuna fyrir
því af hverju réttindin giltu ekki á Norðurlöndunum og heyrðum fleiri útgáfur
af ástæðum þessa, fyrst að Norðurlöndin
hefðu ekki viljað hafa Ísland með en síðar að Ísland hafði ekki undirritað
samkomulagið um gagnkvæm réttindi. Að sögn var það til að koma í veg fyrir að
vélstjórar af hinum Norðurlöndunum þyrptust til Íslands til að taka störfin af
Íslendingunum, en reyndin var önnur. Á Íslandi voru aðilar sem höfðu hagsmuni
af því að koma í veg fyrir að íslenskir vélstjórar og vafalaust aðrir yfirmenn á
skipum færu unnvörpum til útlanda í von um betri kjör en buðust á Íslandi.
Ekki man ég hvernig þetta fór að lokum, en með innleiðingu alþjóðskírteinis á
Íslandi var þetta mál endanlega úr sögunni, þó þannig að við þurftum að fara á
sérstök námskeið til að öðlast alþjóðaréttindi enda eru Íslendingar svo klárir
að þeir þurfa ekki að læra meira eða fara í gegnum flóknari námskeið í öryggisfræðslu. Fyrir
nokkrum árum þurfti ég að fara í átta daga námskeið í öryggismálum til að fá
alþjóðaskírteinið, fjóra daga í eldvörnum (advanced firefighting), tveggja daga
námskeið í meðferð líf- og léttabáta og tveggja daga hóp- og
neyðarstjórnarnámskeið. Svona námskeið þarf ekki á íslensk skip þó að því
undanskildu að hóp- og neyðarstjórnarnámskeiðið er skylda á öllum
farþegaskipum, Herjólfi, Baldri, hvalaskoðunarbátum og öðrum þeim fleyjum sem
flytja farþega.
Ég hefi aldrei getað skilið af hverju gerðar eru minni kröfur til réttinda á
íslenskum skipum sem eru úti í í verstu veðrarvítum sem hugsast geta en þeirra
sem sigla við betri aðstæður, en það er önnur saga. Kannski eru mannslífin á
Íslandi talin minna virði en erlendis.
Á undanförnum árum, þá sérstaklega eftir 11. september 2001 hefur ný hindrun
komið til sögunnar. Með aukinni hörku á alþjóðasviði er þess krafist að menn
geri betur grein fyrir sér, t.d. við áhafnarskipti þegar áhafnarmeðlimir koma til skips úr leyfi eða fara í leyfi. Þar
er einfaldasta leiðin að framvísa sjóferðabók. Allar siðaðar þjóðir sem stunda
siglingar gefa út sjóferðabækur fyrir farmenn sína sem þeir framvísa þegar þeir
fara frá borði eða koma úr leyfi. Sjóferðabækurnar eru vandaðar, þær eru með
mynd og stimplaðar og eru jafngildar öðrum persónuskilríkjum eins og vegabréfum
enda líta þær út ekkert ósvipað og vegabréf með öllum þeim öryggisatriðum sem
einkenna góð vegabréf. Siglingaþjóðin Ísland sker sig úr að þessu leyti því hún
gefur ekki út löglegar sjóferðabækur samanber fyrri færslu mína um
sjóferðabækur.
Þegar Hilmar
Snorrason hefur vakið athygli á þessum skorti á löglegum sjóferðabókum man ég ekki
hvort fulltrúar útgerðanna hafi stutt hann í baráttunni fyrir löglegum
sjóferðabókum. Ég minnist þess allavega ekki. Sjálf gerði ég mér enga grein
fyrir alvarleika málsins fyrr en Hilmar vakti athygli á þessu á fundi í Siglingaráði
nokkru eftir að ég tók sæti þar fyrir hönd VM. Ég styð hann að sjálfsögðu
heilshugar í þessari baráttu, enda eru hundruð íslenskra farmanna að sigla á
erlendum skipum. Sumir þeirra hafa þegar skipt um ríkisfang til að öðlast
löglegar sjóferðabækur, aðrir hafa fengið þær frá þeim ríkjum hvar skip þeirra eru skrásett, þriðji hópurinn
hrekst á milli skipa vegna sífellt harðari krafna um notkun sjóferðabókar. Um
daginn nefndi ég tvö dæmi slíks, annað þar sem viðkomandi sjómaður var settur í
land og þurfti að leita nýrrar vinnu, hitt þar sem viðkomandi þurfti að fara í
gegnum Ísrael til skips. Síðarnefnda málið leystist til bráðabirgða með
því að yfirvöld í Ísrael samþykktu að hann fengi að halda frá flugvellinum til
skips í þetta sinn, en aðeins í þetta sinn.
Síðan hefi ég heyrt um nokkur önnur tilfelli þar sem menn hafa lent í vandræðum
og þetta virðist einungis vera að aukast, meðal annars á Ítalíu. Einn Íslendingur
lenti í basli í sumar en hann var skipstjóri á skipi í eigu Eimskip-CTG í
Noregi með erlendri áhöfn að honum einum undanskildum og var í freðfiskflutningum
frá Rússlandi. Hann vakti athygli á þessu vandamáli í íslensku sjónvarpi, en
ekki minnist ég þess að hann hafi fengið neinn hljómgrunn meðal ráðamanna.
Menn hafa leitað skýringa hjá Innanríkisráðuneytinu, áður Samgönguráðuneytinu
og þar er fátt um svör, þá helst að útgáfa slíkra sjóferðabóka yrði of dýr,
hver sjóferðabók kosti kannski yfir 100.000 krónur enda væri einungis um að
ræða nokkra tugi bóka sem þyrfti að prenta og gefa út. Það er rangt. Allir
íslenskir farmenn þurfa á svona sjóferðabókum að halda og þeir eru sennilega um
tvö hundruð á skipum sem er í íslenskum rekstri. Auk þeirra eru Íslendingar á
skipum út um allan heim, farþegaskipum, tankskipum, gámaskipum, fiskiskipum.
Einn hitti ég sem var vélstjóri á lúxussnekkju í eigu einhvers arabísks olíufursta.
Þetta er því ekki spurning um nokkra tuga sjóferðabóka, heldur mörg hundruð eða
þúsundir ef allir Íslendingar með alþjóðaréttindi eru taldir með og þessar
bækur þarf að endurnýja á nokkurra ára fresti rétt eins og vegabréfin.
Það verður því að leita skýringa annars staðar. Ein skýringin gæti verið að stjórnvöld
séu að ganga erinda þeirra hinna sömu sem reyndu að koma í veg fyrir ætlaðan landflótta
íslenskra farmanna á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Ég vona samt að
svo sé ekki, en hvað á maður að halda?
P.s. Auðvitað lenti vinur minn í erfiðleikum er hann fór í gegnum Ísrael af því að sjóferðabókina vantaði. Er ekki kominn tími til að koma með íslenska sjóferðabók?