föstudagur, nóvember 30, 2012

30. nóvember 2012 - Vistarband ársins 2012


Það er athyglisvert að lesa um vistarbandið sem sett var á til að koma í veg fyrir lausagöngu fólks og var í reynd í gildi frá árinu 1490 þótt lög sem bönnuðu lausagöngu fólks væru í reynd ekki sett fyrr en í móðuharðindunum 1783.

http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=2377

Samkvæmt þessu var vistarbandið í reynd í gildi til ársins 1894 er útvegsbændur vildu komast yfir stærri hluta af vinnumarkaðnum á Íslandi og lausamennska var gefin frjáls. En er það svo í dag? Ég er ekki viss.

Eins og ég hefi bent á í pistlum mínum að undanförnu reyndu Íslendingar lengi vel að koma í veg fyrir að yfirmenn á skipum flyttu af landi brott og færu að starfa erlendis. Lengi vel var það gert með því að undirrita ekki alþjóðasamninga um gagnkvæm réttindi, en með alþjóðaskírteinum sem krafist var til að sigla íslenskum skipum undir erlendum fánum, gekk það ekki lengur og leið opnaðist fyrir Íslendinga til að sigla erlendis án íhlutunar íslenskra útgerðarmanna og skipafélaga. Eftir að sum ríki tóku upp hertar reglur á nýrri öld meðal annars með kröfu um sjóferðabækur voru Íslendingar ekkert fljótir að fylgja alþjóðareglum enda hentaði það ekki útgerðarmönnum, hvort heldur var fiskiskipa eða kaupskipa sem væntanlega hafa séð fram að missa burt fólk yrði gefin út lögleg sjóferðabók. Hér átti gamla vistarbandið að gilda áfram og gerir það í reynd með því að ekki er vilji til að gefa út sjóferðabækur.

Nú er ljóst að margar nefndir hafa verið skipaðar til að ræða útgáfu löglegra sjóferðabóka, en ekkert skeður. Þó er þetta svo einfalt. Bara taka sjóferðabókina sem nágrannaþjóðin Færeyingar gefa út og gefa út eins sjóferðabækur fyrir Íslendinga og málið er dautt. Nei það má ekki, fyrst skal skipa nefnd og svo aðra nefnd og þá hina þriðju, allt til að tefja málið.

Það má ekki hrófla við vistarbandinu sem enn ríkir árið 2012. Íslenskir sjómenn með alþjóðaréttindi gætu nefnilega látið sig hverfa og þá er úti um íslenska þrælamarkaðinn.  


0 ummæli:







Skrifa ummæli