þriðjudagur, nóvember 20, 2012

20. nóvember 2012 - Alþjóðlegur minningardagur transfólks


Í dag er alþjóðlegur minningardagur um það transfólk sem hefur fallið fyrir morðingja hendi á síðustu tólf mánuðum Það er sorglegt að þurfa að segja að frá miðjum nóvember 2011 og til miðjan nóvember 2012 eru til skráð dæmi um 265 transpersónur sem voru myrtar. Flest voru morðin dæmigerð transfóbíumorð og mörg þeirra eru ekki einu sinni rannsökuð.  Þessi tala er ekkert endanleg því fjölmörg ríki eru ekki með í þessari tölu, flest ríki Afríku að Suður-Afríku undanskilinni, mörg Asíuríki og einhver Austur-Evrópuríki.

Það var árið 2008 sem Transgender Europe fékk alþjóðlegan styrk til að rannsaka stöðu transfólks í heiminum og einn maður fékk það hlutverk að kanna stöðu mála víða um heim. Í framhaldinu fékkst einnig styrkur til að kanna haturglæpi gagnvart transfólki og er sú vinna í fullum gangi. Það er einungis einn maður sem vinnur við þessa rannsókn og því erfitt um vik annars staðar en í Ameríku og Evrópu.

Þessi minningardagur um myrt transfólk var fyrst haldinn í Bandaríkjunum árið 1998 eftir að transkona að nafni Rita Hester var myrt í Massachusetts og transkonan og baráttumanneskjan Gwendolyn Ann Smith vildi minnast hennar. Þetta fór að vinda upp á sig og man ég að árið 2006 var tölfræðin svo ófullkomin að einungis var vitað um 28 manneskjur sem höfðu verið myrtar í heiminum það ár.  Meðal þeirra var Gisberta, transkona frá Brasilíu sem hafði flust til Portúgal en var pyntuð og myrt af hópi unglinga á kaþólsku upptökuheimili í Porto. Krafan um réttláta rannsókn á máli Gisbertu var um leið fyrsta verkefni hinna nýstofnuðu samtaka Transgender Europe sem voru stofnuð haustið 2005 í Vínarborg sem tveimur árum síðan leiddi til þess að samtökunum var falið að vinna rannsókn á transfóbíu í heiminum.

Morðunum er ekki lokið. Ég er að fá nýjar tilkynningar um hatursmorð á transfólki flesta daga og síðast í gær heyrði ég af einu slíku á Spáni.

Á Íslandi hefur lítið verið gert til að minnast myrtra transpersóna, en það er að breytast. Við erum heldur ekkert laus við transfóbíu á Íslandi og það eru nýleg dæmi um ofbeldi gagnvart transfólki hér á landi þótt ekki sé um morð að ræða.

Félagið Trans-Ísland mun standa fyrir stuttri minningarstund og kertafleytingu við Reykjavíkurtjörn (við Iðnó) á þriðjudagskvöldið klukkan 19.30 síðan samkomu í Regnbogasal Samtakanna 78 að Laugavegi 3.


0 ummæli:







Skrifa ummæli