þriðjudagur, nóvember 27, 2012

27. nóvember 2012 – Útrýming íslenskrar farmannastéttar

„Ísland er ekki siglingaþjóð. Það hafa fáar þjóðir unnið jafnmarkvisst að því að útrýma farmannastéttinni og Íslendingar.“

Þessi orð eru ekki stolin frá neinum. Þetta eru mín eigin orð sem ég notaði sem athugasemd við orð Guðmundar St Valdimarssonar um sjóferðabækur í tilefni af orðum hans um þörfina fyrir löglegar íslenskar sjóferðabækur. Því miður eru orð mín sannleikur. Það hafa fáar þjóðir unnið jafnmarkvisst að því að útrýma einni stétt sem Íslendingar hafa unnið að því að útrýma farmannastéttinni.


Skömmu eftir að ég byrjaði fyrst hjá Eimskip birti félagið fréttatilkynningu í tilefni af því að nýsmíðað skip þeirra, Mánafoss, hafði verið afhent félaginu árið 1971 og að þar með voru skráðir skipverjar á þrettán skipum félagsins 402. Auk þeirra voru skipverjar í leyfi. Á þessum tíma voru kannski 140 skipverjar á sjö skipum Sambandsins, um 80 á fjórum skipum hjá Hafskip, um 50 hjá Ríkisskip og allmargir hjá minni útgerðum sem áttu eitt eða tvö skip. Heildarfjöldinn á milli 800 og þúsund manns auk þeirra sem voru í leyfi og eru þá ekki taldar með áhafnir skipa Landhelgisgæslunnar sem var þá með fimm skip í rekstri. Allt voru þetta íslensk skip undir íslenskum fánum og með íslenskum áhöfnum. Skipafjöldinn komst upp í 26 skip hjá Eimskip um 1980, öll undir íslenskum fána og með íslenskum áhöfnum, en úr því fer skipunum fækkandi, en eitt og eitt leiguskip sjást með erlendum áhöfnum auk skipa á þurrleigu með íslenskum áhöfnum.


Í dag eru Hafskip og Ríkisskip sagan ein. Sambandskipin orðin að Samskip og óskabarnið sjálft búið að skipta um kennitölu eftir sukk óreiðumanna í fjármálum sem náðu yfirráðum yfir félaginu og settu það þráðbeint á höfuðið án þess að stjórnendur og starfsfólk félagsins gætu nokkru um ráðið. Ekkert skipa Eimskipa, Samskipa eða Nes hf eru undir íslenskum fána, kannski að Herjólfi undanskildum en hann er einungis í rekstri Eimskips.


Þetta er þróun sem einnig átti sér stað erlendis, en á níunda áratug síðustu aldar þegar útgerðarfélög á hinum Norðurlöndunum voru á fullu að flagga skipum sínum út undir hentifána eins og Panama og Líberíu gripu löggjafarsamkundur þessara ríkja til þess ráðs að útbúa alþjóðlega skipaskrá undir fána þjóðríkisins. Með þessu tókst að snúa óheillaþróuninni við, dönsk skip urðu aftur dönsk með dönskum yfirmönnum og undirmönnum að einhverju leyti en nýttu sér um leið ákvæði laganna um mönnun með skipverjum frá ríkjum í þriðja heiminum. Það kom einnig fram frumvarp til laga á Íslandi í sömu veru, en í meðförum þingsins var ákvæðið um að undirmenn fengju laun í samræmi við eigin heimaríki fellt út og þar með var engin ástæða fyrir íslensk útgerðarfyrirtæki að flagga skipunum heim aftur. Þarna er einungis hægt að kenna um ASÍ og SSÍ. Þau tvö skip Samskipa sem eru með íslenskum áhöfnum eru skráð með heimahöfn í Færeyjum og fjögur skip Eimskips sem eru með íslenskum áhöfnum eru skráð í Antigua og Barbuda, en með reksturinn skráðan í Færeyjum. Skip Nes hf eru skráð í Noregi með íslenskan skipstjóra og yfirvélstjóra en voru með aðra áhafnarmeðlimi frá Póllandi að hluta er ég leysti af á skipi þeirra fyrir 16 árum síðan, en mér er ókunnugt um hvernig þeim málum er háttað  í dag.


Að undanförnu höfum við nokkur verið að berjast fyrir löglegum íslenskum sjóferðabókum undir leiðsögn Hilmars Snorrasonar og svörin frá hinu opinbera eru auðvitað að það sé unnið í málinu. Hversu lengi???? Af hverju á líka að gefa út löglegar sjóferðabækur ef á að koma í veg fyrir að Íslendingar geti verið í farmennsku?
Hvar eru verkalýðsfélögin núna?

Nýjasta málið er svo hin svokallaða Farsýsla. Allt í einu er Siglingastofnun lögð niður með lögum og þar með þær nefndir og ráð sem höfðu áhrif á farmennskuna sem og önnur atriði í siglingum þar með talið Siglingaráð. Í stað þess má ráðherra skipa fagráð, en hann þarf þess ekki. Siglingaráð er fellt niður með lögum.


Íslendingar hættu að sigla á milli landa um miðja þrettándu öld og glötuðu í kjölfarið sjálfstæði sínu. Í upphafi tuttugustu aldar kom endurreisnin þar sem mikil áhersla var lögð á siglingar með íslenskum áhöfnum á skipum undir íslenskum fána. Í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar hættu Íslendingar að sigla milli landa. Spurningin er hvort sjálfstæðið glatist aftur eins og um miðja þrettándu öld?  


0 ummæli:







Skrifa ummæli