Ég heyrði í dag af sænsku Polar verðlaununum sem í þetta sinn féllu í hlut íslensku söngkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur. Ég viðurkenni að hafa lítið fylgst með þessum verðlaunaveitingum frá fyrstu árunum sem þau voru veitt og ekkert velt þeim fyrir mér síðan ég flutti heim frá Svíþjóð 1996.
Ég fór hinsvegar að velta fyrir mér hverskonar fólk hefur fengið verðlaunin. Oftast eru það gamlir tónlistarmenn sem fá þau allt frá því Paul McCartney fékk þau 1992, 22 árum eftir andlát Bítlanna og þar til Pink Floyd fékk þau 2008, þrjátíu árum eftir útgáfu tímamótaverksins The Wall og aldarfjórðungi eftir að samstarfi Roger Waters og hinna lauk. Svipaða sögu er að segja um marga hinna 38 tónsnillinga sem hafa fengið verðlaunin sem bæði eru af sviði sígildrar tónlistar sem og dægurlaga, margir aðframkomnir sökum ellihrumleika þótt einn og einn reyni að viðhalda æskuþokkanum með hjálp lýtalæknisfræðinnar.
Af einhverjum ástæðum fæ ég á tilfinninguna að verið sé að verðlauna fólk á eftirlaunum fyrir gott ævistarf fremur en að verið sé að hvetja það til nýrra dáða á tónlistarsviðinu.
þriðjudagur, ágúst 31, 2010
31. ágúst 2010 – Eru Pólar-verðlaunin til fólks á eftirlaunum?
mánudagur, ágúst 30, 2010
30. ágúst 2010 – Drottingarviðtöl við grunaða glæpamenn
Fréttablaðið eyddi nokkrum blaðsíðum í drottningarviðtal við Sigurð Einarsson fyrrum stjórnarformann í Kaupþingi eða hvað sá banki hét á meðan hann stjórnaði honum. Ég viðurkenni alveg að ég nennti ekki að lesa í gegnum allt viðtalið, en af fyrirsögnum má ætla að hann krefjist opinberrar rannsóknar á störfum sérstaks saksóknara.
Af einhverjum ástæðum spyr ég hver tilgangurinn er hjá ritstjóra Fréttablaðsins, hvort verið sé að undirbúa endurnýjaða nýfrjálshyggju af þeim toga sem kom Íslandi á hausinn fyrir aðeins tveimur árum. Það er alveg ljóst, hvort sem Sigurður verður dæmdur sakamaður eður ei, að hann átti þátt í, ásamt nokkrum tugum annarra fjárglæframanna, að koma fjármálakerfi heillar þjóðar á hausinn og slíkur glæpur yrði hvergi annars staðar í heiminum talinn bjóða minna en nokkra áratugi upp á vatn og brauð á bakvið rimla.
Nú bíð ég þess að næsta drottningarviðtal Fréttablaðsins verði við Lalla Johns þar sem hann hraunar yfir saksóknara og fangelsisyfirvöld. Hann er örugglega með skemmtilegri frásagnargáfu en Sigurður Einarsson!
þriðjudagur, ágúst 24, 2010
24. ágúst 2010 - Uggur og ótti
Ekki ætla ég að byrja hér á að endurtaka kafla úr bók Sörens Kierkegaard „Frygt og bæven“ frá 1843, enda þykir mér bókin býsna tyrfin aflestrar í útgáfu Bókmenntafélagsins. Hins vegar á titill bókarinnar ágætlega við um það andlega ástand íslensku þjóðarinnar sem skapaðist hér á land við hrunið haustið 2008, allan þann fjölda fólks sem missti vinnuna við hrunið, oft á tíðum það sem kallaðist örugga vinnu og ævistarf. Sjálf hóf ég að hressa upp á atvinnuréttindin mín þótt ég væri í pottþéttri vinnu allt til starfsloka og er enn að öllu óbreyttu.
Það var þó ekki vegna atvinnuöryggis sem ég hóf að hlaupa á öll þau námskeið sem ég þarf að mæta á reglulega til að viðhalda atvinnuréttindunum, fremur vegna ótta við slíkar skattaálögur og hækkanir á útgjöldum að mér yrði ekki vært á Íslandi ef hrunið leiddi til ríkisgjaldþrots og slíkra álaga að ekki yrði líft á Íslandi lengur. Vissulega hafa allar álögur stóraukist, en þær hafa þó ekki leitt til persónulegs greiðslufalls þótt laun hafi verið lækkuð tímabundið.
En offjárfestingar áranna 2000 til 2008 láta þó ekki að sér hæða og sumsstaðar ganga starfsmenn um ganga þessa dagana, niðurlútir og áhyggjufullir. Hvað verður um okkur, verður einhverjum sagt upp, verða launin lækkuð niður í eitthvað sem gerir annars gott starf einskis virði? Hverjir munu eiga fyrirtækið eftir eitt ár, hvað tekur langan tíma að rétta úr kútnum? Óvissan er algjör, en þeir sem öllu ráða hafa ekkert sagt okkur enn sem komið er.
Ætti ég kannski að sækja um á togara og losa mig þannig við áhyggjurnar sem aðrir sköpuðu mér?
mánudagur, ágúst 23, 2010
23. ágúst 2010 - Um þjóðkirkjuna
Undanfarna daga hefur fjöldi fólks tjáð sig á Facebook með yfirlýsingar í þá veru að það ætli sér að segja skilið við þjóðkirkjuna vegna gamalla atburða og nýrra.
Vissulega eru ”hendur” kirkjunnar blóði drifnar og mörg eru glæpaverkin sem hafa verið framin í nafni kirkjunnar í gegnum aldirnar. Það hafa þó ávallt verið menn sem hafa mistúlkað trúarboðskapinn sem hafa verið að baki þessum óhæfuverkum og sjálfsagt að rannsaka slíka glæpi og dæma eftir þeim lögum sem eru í samfélaginu hverju sinni, en ekki vera með tvenn landslög í gangi hverju sinni.
Sjálf hefi ég oft verið í andstöðu við hegðunarmunstur kirkjunnar þjóna. Þá á ég ekki einungis við ásakanir á hendur prestum og biskupum fyrir ætluð sifjabrot, heldur og harða andstöðu þeirra gegn samkynhneigðum og síðast en ekki síst orð þáverandi biskups í minn garð haustið 1994. Hið síðastnefnda leystist farsællega með bréfaskriftum okkar á milli og verður ekki endurtekið frekar.
Það er um leið ástæða til að taka fram að flestir þeir prestar og kirkjunnar þjónar sem ég hefi átt samskipti við hafa verið prýðisfólk, hafa unnið af heilindum og virt baráttu okkar fyrir betra lífi, nú síðast með því að nærri hundrað guðfræðingar skrifuðu undir áskorun um að lögleiða ein hjúskaparlög fyrir alla.
Ef ég myndi segja mig úr þjóðkirkjunni, væri ég um leið að taka afstöðu gegn þessu ágæta fólki sem hefur stutt okkur og fylgja braut meðvirkninnar sem nú er í gangi. Ég tel því best að lofa þessu góða fólki að smám saman ná yfirhöndinni í þjóðkirkjunni og koma afturhaldsöflum og svartstökkum til hliðar með hógværð sinni og jákvæðni. Ég mun því halda áfram að vera í þjóðkirkjunni, mæta örsjaldan til kirkju en, kveðja þetta líf á efsta degi í sátt við guð og menn en fá hinstu blessun að leiðarlokum frá kirkjunnar þjóni.
föstudagur, ágúst 20, 2010
20. ágúst 2010 - Fjallaferðir
Ég fór á fjall í gær. Slíkt þykir vart í sögur færandi þegar haft er í huga að þetta var tuttugasta fjallaferðin á sumrinu, en samt verður hver ferð dálítið sérstök. Svo átti þetta að vera mjög einföld ferð, fyrst á eitt fjall og síðan hækka mig upp í næsta fjall rétt hjá hinu.
Þegar ég ók inn Hvalfjörðinn gat ég ekki annað en dáðst að þessum tveimur fjöllum og því hve þetta yrði einföld ganga, fyrst Þyrill og svo Brekkukambur. Ég lagði bílnum við Hvalfjarðarbotn neðan við Síldarmannabrekkur og hélt af stað. Klukkan var ekki orðin tvö og brekkurnar voru góðar við mig og brátt var ég komin upp að Síldarmannagötum og hélt þegar til vesturs út á Þyril.
Það var farið að hvessa og bætti í vindinn eftir því sem vestar dró. Þegar ég kom að gestabókinni þorði ég ekki að fara út á ystu nöf af ótta við að missa jafnvægið, lagði grjót á gestabókina á meðan ég skrifaði í hana, tók myndir og hélt svo til austurs til að krækja fyrir Litlasandsdalinn. Áður en ég vissi af var ég komin inn á Síldarmannagöturnar. Ég hélt þær áfram uns ég sá glitta í Tvívörður í fjarska, en hélt þá til vesturs upp hægan stíganda á móti Brekkukamb sem er 649 metrar. Ekki þurfti ég að hafa áhyggjur af að ganga of langt enda hækkaði landslagið framundan.
Landslagið þarna uppi var ósköp eymdarlegt, laust grjót svo minnti á Leggjabrjót og mýraflákar. Ekki bætti úr að hvassviðrið var búið að berja á mér svo klukkutímum skipti og ég fór að finna til þreytu. Þegar ég var loksins komin á þann topp sem ég vissi nákvæmastan, fór ég því að velta fyrir mér hvort ekki væri til þægileg leið niður án þess að fara sömu leið til baka. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér ákvað ég að halda nánast sömu leið til baka og ég kom, þriggja tíma göngu eftir algjörri vegleysu, ekki einu sinni kindagötur að fara eftir fyrr en komið var niður að Síldarmannagötum.
Ég komst niður og það var lúin manneskja sem settist í bílinn að aflokinni átta og hálfs tíma án þess að mæta einni manneskju. Þótt nokkrar séu harðsperrurnar er ég samt reiðubúin að halda til fjalla á ný hið fyrsta, reyndar þegar búin að smyrja nestið og gera klárt í bakpokann fyrir göngu laugardagsins.
fimmtudagur, ágúst 19, 2010
19. ágúst 2010 – Að slasast í útlöndum
Það var í ágúst 1987. Okkur hafði seinkað á leið okkar yfir hafið og þegar við komum að lóðs við Humberfljót í Englandi var komið sunudagskvöld og ég var á vaktinni í vélarúmi. Eitthvað eyddi ég eftirmiðdeginum í að leita að leka í lensikerfi vélarrúmsins og tekið upp gólfpalla í þeim tilgangi þegar síminn úr brúnni hringdi og tilkynnt var um lóðs innan fáeinna mínútna.
Ég hætti vinnu minni við leit að leku röri í lensikerfinu og skipti vélunum yfir á léttolíu og gerði allt klárt fyrir komu til hafnar. Skyndilega heyrði ég hvernig stóra ljósavélin fór að hiksta og þrátt fyrir ítrustu aðgerðir drap hún á sér og skipið varð rafmagnslaust. Ég hafði þá þegar komið aukavél í gang og í myrkrinu á leið minni frá vélinni að rafmagnstöflunni missté ég mig þar sem ég hafði tekið upp gólfplötu, féll á milli gólfplatna og fann fyrir hræðilegum sársauka í hægri öxl.
Skipið var á viðkvæmasta stað sem hægt er að hugsa sér, um hundrað skip í kring og enginn tími til að vorkenna sér. Ég beitti því ítrasta mætti til að koma mér upp og að rafmagnstöflunni og sló inn rafmagninu og kúplaði síðan inn þeim dælum sem eru nauðsynlegar hverju skipi á keyrslu.
Einhverntímann hafði ég heyrt að ein manneskja geti komið handlegg í lið með því að leggjast á gólf, lagðist á vélarúmspallana með bilaða handlegginn hangandi niður og fann hvernig handleggurinn dróst að öxlinni og tilfinningin færðist í hann. Síðan hélt ég áfram vinnu þrátt fyrir sársaukann og hélt að hann liði hjá fljótlega.
Við komum til Immingham seint um kvöldið og eftir stutt stopp var haldið áfram áleiðis til Antwerpen. Ég var á vakt alla nóttina, þorði ekki að segja nokkrum manni frá klaufaskapnum í mér og um sexleytið morguninn var lóðs utan Humberfljótsins sleppt ég komst í koju, ennþá sárþjáð í hægri handleggnum.
Það varð lítið um svefn og enn minna um vinnu. Þegar komið var til Antwerpen hélt ég því til læknis og eftir röntgenmyndatökur var ljóst að axlarliðurinn hafði sprungið og ég sett í gifs frá háls og niður að mitti. Þá fyrst byrjaði ævintýrið!
Það var sumar í Evrópu og margar eiginkonur skipverja voru með okkur, þar á meðal eiginkonur yfirvélstjóra og annars vélstjóra. Það var því ljóst að einhver varð að taka vaktina í Rotterdam og ég taldi mig fara létt með slíkt, brotin á annarri. Vandamálið var bara að við þurftum að taka á móti olíu, bæði svartolíu og gasolíu. Ég tók vaktina, samdi við dagmanninn um að aðstoða mig við olíutökuna og hinir vélstjórarnir fóru í land með eiginkonum sínum.
Þegar olían kom, neituðu bunkergæjarnir að dæla olíunni um borð í fyrstu, en eftir að ég hafði sýnt þeim að ég væri með fullu þreki (þrátt fyrir hræðilegan sársauka) samþykktu þeir að byrja dælingu og allt fór vel.
Daginn eftir komum við til Hamborgar þar sem nýr maður kom um borð sem leysti mig af og ég komst heim í veikindafrí. Miðað við ástandið á mér, gat ég ekki borið mikið og því tók ég aðeins eina stresstösku með, fyllti hana af áfengi en skorðaði flöskurnar með sígarettukartonum og þannig fór ég heim með flugi, sem var beint frá Hamborg til Keflavíkur.
Eftir að heim er komið er sjálfsagt að kaupa sér tollvarning. Ég gat einfaldlega ekki borið meira en ég hafði þegar, en náði samt að versla löglegan varning af öli og brennivíni í glænýrri flugstöðinni, en þar sem engar voru kerrurnar komnar, rölti ég út í toll og bar mig aumlega. Ónefnd manneskja í tollinum sá aumur á mér og bar allt draslið mitt út úr flugstöðinni og ég þakka henni til æviloka fyrir að hafa aldrei skoðað í töskuna mína.
Síðan eru liðin mörg ár, en þetta skemmtilega ævintýri í flugstöðinni átti sér stað 20. ágúst 1987. Þann dag hætti ég til sjós og hefi verið landkrabbi flesta daga síðan þá!
mánudagur, ágúst 16, 2010
16. ágúst 2010 – Fjallganga
Einhver sú asnalegasta íþrótt sem ég veit er fjallganga. Það er lagt í rándýran útbúnað, gönguskó sem kosta tugi þúsunda, hlífðarfatnað sem kosta annað eins, stafi, bakpoka, GPS, áttavita og annað það sem telja verður bráðnauðsynlegt eins og kort og sjúkragögn, ekið óravegalengd að einhverju fjalli og svo er arkað af stað.
Á leiðinni upp getur ýmislegt skeð, fjallgöngumaðurinn rennur í skriðum, fer vitlausu megin við auðveldu leiðina, grípur í handfestu sem reynist svo vera laus steinn og misstígur sig í ójöfnum. Áfram er samt haldið og eftir því hærra verður komist, lekur meiri sviti af fjallgöngumanninum uns komið er á hæsta topp, þá venjulega gjörsamlega úrvinda af þreytu og lofar sjálfum sér því að fara aldrei aftur á fjall.
Síðan eru teknar nokkrar myndir á toppnum, þó með því skilyrði að toppurinn sé ekki hulinn skýjum og síðan er labbað niður aftur.
Látið mig þekkja þetta. Í sumar er ég búin að fara í 19 fjallgöngur, þó aðeins á fjórtán mismunandi fjöll. Síðasta fjallið var í dag, en þá var ráðist á Geitafellið vestan við Þrengslaveg.
Ég hafði lesið mig til um fjallið, sagt vera auðvelt uppgöngu nánast hvar sem var og þar sem ég nálgaðist fjallið horfði ég á þverhnípta hamraveggina. Ég ákvað því að rölta suður með fjallinu uns ég kom að gili einu og óð af stað upp gilið. Ekki leið á löngu uns ég fór að angra ákvörðun mína um að fara upp á þessum stað svo laust var grjótið við gilið og engin handfesta í sprungnu móberginu. Ég gafst þó ekki upp og hélt áfram og komst ofar og ofar og lét hvorki rok né regn stöðva mig.
Að lokum stóð ég á toppnum, blásandi eins og fýsibelgur, sá fátt af fjöllum vegna regnskúra og hélt niður aftur.
Enn einu fjallinu hafði verið bætt við afrekaskrá mína og nú má hefja leit að næsta fjalli sem verður lagt að fótum mér.
sunnudagur, ágúst 15, 2010
15. ágúst 2010 - Drykkjuskapur?
“Þetta eru nú ljótu bytturnar!”
Þessi orð og önnur álíka neikvæð voru oft látin falla á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar þegar glertimbraðir embættismenn voru á ferðinni á mánudögum og mættu hressum togarasjómönnum sem höfðu komið í land um morguninn eftir fleiri vikna túr á Grænlandsmiðum eða af Halanum og byrjuðu landveruna á að koma við í Ríkinu og fá sér eina bokku í tilefni af eins til tveggja daga leyfi.
Þarna voru tvær þjóðir í sama landi með andúð á hvorri annarri á yfirborðinu þótt hvorug gæti án hinnar verið, en höfðu takmarkaðan skilning á þörfum hvorrar annarrar.
Nú er ég komin með hugsunarhátt embættismannsins, því eitthvað þessu líkt fór í gegnum kollinn á mér í morgun er ég fékk mér morgungöngu um regnvott Árbæjarhverfið. Ekkert fólk sást á gangi, en einn og einn leigubíll skaust inn í hverfið með illa haldna farþega sem voru á leið heim úr samkvæmi næturinnar þar á meðal einn þar sem farþegarnir skjögruðu úr bílnum að einu húsinu. Ekki var við það komandi að ég færi að rifja upp gamlar minningar af sjálfri mér er ég var að koma heim úr viðlíka samkvæmum fyrr á árum, en fremur reynt að hneykslast yfir umræddu fólki.
Ég ætti kannski að hætta að hneykslast og reyna að læra af reynslu áratuganna.
laugardagur, ágúst 14, 2010
14. ágúst 2010 - Um mann með einfaldan smekk.
Að undan hefur umræðan um þverrandi dagskrá ríkissjónvarpsins verið mjög til umræðu og eru flestir á því að alvarlegir meinbugir séu á dagskrárstefnu sjónvarpsins og vilja breytingar á dagskránni. Ég er þessu ósammála.
Páll Magnússon útvarpsstjóri veit hvað er þjóðinni fyrir bestu. Hann gerir sér fulla grein fyrir aulabröndurum og guðlasti Spaugstofunnar sem og mannskemmandi háði þeirra í garð fyrirmanna þjóðarinnar og ekki þarf að ræða mikið um þann drykkjuskap sem fram fer fyrir framan sjónvarpsskjáinn í hvert sinn sem jaðaríþróttin handbolti er á dagskrá. Ekki er heldur ástæða til að eyða skattpeningunum okkar í hörmulega íslenska dagskrárgerð eins og kvikmyndir á borð við Blóðrautt sólarlag og Fiskur undir steini.
Páll og forverar hans hafa sömuleiðis gætt vandlega að öryggisþáttum þjóðarinnar og gæta þess vandlega að senda ekki út æsifréttir sem valdið gætu áhyggjum þegar eldgos og jarðskjálftar ríða yfir þjóðina samanber 17. júní árið 2000 þegar sýnt var frá bráðnauðsynlegum fótboltaleik einhverra fótboltaliða suður í heimi til að veita hugsuninni frá jarðskjálfta sunnanlands. Sömuleiðis gættu þeir þess vandlega að segja ekki frá eldgosi á Fimmvörðuhálsi fyrr en gjörvallir netheimar að netfjölmiðlum meðtöldum höfðu tjáð sig um gosið, enda hefði slíkt getað valdið óþarfa hræðslu hjá íbúum nærri Eyjafjallajökli sem voru þegar á flótta frá heimilum sínum eftir boð um slíkt frá lögreglu.
Páll vill að sjálfsögðu gæta að menningararfi þjóðarinnar, kenna okkar að meta Íslendingasögurnar á fornmálinu, iðka glímu og önnur þjóðleg fangbrögð, drekka mjólk í stað mjaðar og ganga okkur til hressingar í stað þess að öskra okkur vitfirrt yfir handbolta. Hann hefur vald til að gera þetta, t.d. með því að hætta að sýna ömurlega skemmtilega sjónvarpsþætti á borð við Spaugstofuna, Little Britain og Formúluna og sýna oss þess þá heldur myndarlega menn með einfaldan smekk í sjónvarpsfréttum.
Sjálf hefi ég lært mikið af hinni þjóðlegu hugsun útvarpsstjórans. Ég er að mestu hætt að horfa á íslenska ríkissjónvarpið þar á meðal lélegar auglýsingar sem eru sýndar með sviknum loforðum um bætta dagskrá. Heilsan er orðin miklu betri með heilnæmum gönguferðum og hannyrðum í baðstofunni á kvöldin undir lýsingu af grútarlampanum og get ég notið lífsins með því að gömlu góðu dagarnir þegar ekki var neitt sjónvarp eru komnir aftur.
Ef ég fæ fráhvarfseinkenni hefi ég aðgang að 60 erlendum sjónvarpsstöðvum sem ég get horft á, margar lausar við illa gerðar auglýsingar þar sem einhverjir bjánar hella bensíni upp í hvern annan á vegum Símans eða slefa eins og hálfvitar á vegum svipaðra fyrirtækja, svo ekki sé talað um vandaðar og hlutlausar fréttir án þular með einfaldan smekk!
P.s. Ætli ég geti fengið sjónvarpsskattinn minn endurgreiddan?