fimmtudagur, ágúst 19, 2010

19. ágúst 2010 – Að slasast í útlöndum

Það var í ágúst 1987. Okkur hafði seinkað á leið okkar yfir hafið og þegar við komum að lóðs við Humberfljót í Englandi var komið sunudagskvöld og ég var á vaktinni í vélarúmi. Eitthvað eyddi ég eftirmiðdeginum í að leita að leka í lensikerfi vélarrúmsins og tekið upp gólfpalla í þeim tilgangi þegar síminn úr brúnni hringdi og tilkynnt var um lóðs innan fáeinna mínútna.

Ég hætti vinnu minni við leit að leku röri í lensikerfinu og skipti vélunum yfir á léttolíu og gerði allt klárt fyrir komu til hafnar. Skyndilega heyrði ég hvernig stóra ljósavélin fór að hiksta og þrátt fyrir ítrustu aðgerðir drap hún á sér og skipið varð rafmagnslaust. Ég hafði þá þegar komið aukavél í gang og í myrkrinu á leið minni frá vélinni að rafmagnstöflunni missté ég mig þar sem ég hafði tekið upp gólfplötu, féll á milli gólfplatna og fann fyrir hræðilegum sársauka í hægri öxl.

Skipið var á viðkvæmasta stað sem hægt er að hugsa sér, um hundrað skip í kring og enginn tími til að vorkenna sér. Ég beitti því ítrasta mætti til að koma mér upp og að rafmagnstöflunni og sló inn rafmagninu og kúplaði síðan inn þeim dælum sem eru nauðsynlegar hverju skipi á keyrslu.

Einhverntímann hafði ég heyrt að ein manneskja geti komið handlegg í lið með því að leggjast á gólf, lagðist á vélarúmspallana með bilaða handlegginn hangandi niður og fann hvernig handleggurinn dróst að öxlinni og tilfinningin færðist í hann. Síðan hélt ég áfram vinnu þrátt fyrir sársaukann og hélt að hann liði hjá fljótlega.

Við komum til Immingham seint um kvöldið og eftir stutt stopp var haldið áfram áleiðis til Antwerpen. Ég var á vakt alla nóttina, þorði ekki að segja nokkrum manni frá klaufaskapnum í mér og um sexleytið morguninn var lóðs utan Humberfljótsins sleppt ég komst í koju, ennþá sárþjáð í hægri handleggnum.

Það varð lítið um svefn og enn minna um vinnu. Þegar komið var til Antwerpen hélt ég því til læknis og eftir röntgenmyndatökur var ljóst að axlarliðurinn hafði sprungið og ég sett í gifs frá háls og niður að mitti. Þá fyrst byrjaði ævintýrið!

Það var sumar í Evrópu og margar eiginkonur skipverja voru með okkur, þar á meðal eiginkonur yfirvélstjóra og annars vélstjóra. Það var því ljóst að einhver varð að taka vaktina í Rotterdam og ég taldi mig fara létt með slíkt, brotin á annarri. Vandamálið var bara að við þurftum að taka á móti olíu, bæði svartolíu og gasolíu. Ég tók vaktina, samdi við dagmanninn um að aðstoða mig við olíutökuna og hinir vélstjórarnir fóru í land með eiginkonum sínum.

Þegar olían kom, neituðu bunkergæjarnir að dæla olíunni um borð í fyrstu, en eftir að ég hafði sýnt þeim að ég væri með fullu þreki (þrátt fyrir hræðilegan sársauka) samþykktu þeir að byrja dælingu og allt fór vel.

Daginn eftir komum við til Hamborgar þar sem nýr maður kom um borð sem leysti mig af og ég komst heim í veikindafrí. Miðað við ástandið á mér, gat ég ekki borið mikið og því tók ég aðeins eina stresstösku með, fyllti hana af áfengi en skorðaði flöskurnar með sígarettukartonum og þannig fór ég heim með flugi, sem var beint frá Hamborg til Keflavíkur.

Eftir að heim er komið er sjálfsagt að kaupa sér tollvarning. Ég gat einfaldlega ekki borið meira en ég hafði þegar, en náði samt að versla löglegan varning af öli og brennivíni í glænýrri flugstöðinni, en þar sem engar voru kerrurnar komnar, rölti ég út í toll og bar mig aumlega. Ónefnd manneskja í tollinum sá aumur á mér og bar allt draslið mitt út úr flugstöðinni og ég þakka henni til æviloka fyrir að hafa aldrei skoðað í töskuna mína.

Síðan eru liðin mörg ár, en þetta skemmtilega ævintýri í flugstöðinni átti sér stað 20. ágúst 1987. Þann dag hætti ég til sjós og hefi verið landkrabbi flesta daga síðan þá!


0 ummæli:







Skrifa ummæli