laugardagur, ágúst 14, 2010

14. ágúst 2010 - Um mann með einfaldan smekk.

Að undan hefur umræðan um þverrandi dagskrá ríkissjónvarpsins verið mjög til umræðu og eru flestir á því að alvarlegir meinbugir séu á dagskrárstefnu sjónvarpsins og vilja breytingar á dagskránni. Ég er þessu ósammála.

Páll Magnússon útvarpsstjóri veit hvað er þjóðinni fyrir bestu. Hann gerir sér fulla grein fyrir aulabröndurum og guðlasti Spaugstofunnar sem og mannskemmandi háði þeirra í garð fyrirmanna þjóðarinnar og ekki þarf að ræða mikið um þann drykkjuskap sem fram fer fyrir framan sjónvarpsskjáinn í hvert sinn sem jaðaríþróttin handbolti er á dagskrá. Ekki er heldur ástæða til að eyða skattpeningunum okkar í hörmulega íslenska dagskrárgerð eins og kvikmyndir á borð við Blóðrautt sólarlag og Fiskur undir steini.

Páll og forverar hans hafa sömuleiðis gætt vandlega að öryggisþáttum þjóðarinnar og gæta þess vandlega að senda ekki út æsifréttir sem valdið gætu áhyggjum þegar eldgos og jarðskjálftar ríða yfir þjóðina samanber 17. júní árið 2000 þegar sýnt var frá bráðnauðsynlegum fótboltaleik einhverra fótboltaliða suður í heimi til að veita hugsuninni frá jarðskjálfta sunnanlands. Sömuleiðis gættu þeir þess vandlega að segja ekki frá eldgosi á Fimmvörðuhálsi fyrr en gjörvallir netheimar að netfjölmiðlum meðtöldum höfðu tjáð sig um gosið, enda hefði slíkt getað valdið óþarfa hræðslu hjá íbúum nærri Eyjafjallajökli sem voru þegar á flótta frá heimilum sínum eftir boð um slíkt frá lögreglu.

Páll vill að sjálfsögðu gæta að menningararfi þjóðarinnar, kenna okkar að meta Íslendingasögurnar á fornmálinu, iðka glímu og önnur þjóðleg fangbrögð, drekka mjólk í stað mjaðar og ganga okkur til hressingar í stað þess að öskra okkur vitfirrt yfir handbolta. Hann hefur vald til að gera þetta, t.d. með því að hætta að sýna ömurlega skemmtilega sjónvarpsþætti á borð við Spaugstofuna, Little Britain og Formúluna og sýna oss þess þá heldur myndarlega menn með einfaldan smekk í sjónvarpsfréttum.

Sjálf hefi ég lært mikið af hinni þjóðlegu hugsun útvarpsstjórans. Ég er að mestu hætt að horfa á íslenska ríkissjónvarpið þar á meðal lélegar auglýsingar sem eru sýndar með sviknum loforðum um bætta dagskrá. Heilsan er orðin miklu betri með heilnæmum gönguferðum og hannyrðum í baðstofunni á kvöldin undir lýsingu af grútarlampanum og get ég notið lífsins með því að gömlu góðu dagarnir þegar ekki var neitt sjónvarp eru komnir aftur.

Ef ég fæ fráhvarfseinkenni hefi ég aðgang að 60 erlendum sjónvarpsstöðvum sem ég get horft á, margar lausar við illa gerðar auglýsingar þar sem einhverjir bjánar hella bensíni upp í hvern annan á vegum Símans eða slefa eins og hálfvitar á vegum svipaðra fyrirtækja, svo ekki sé talað um vandaðar og hlutlausar fréttir án þular með einfaldan smekk!

P.s. Ætli ég geti fengið sjónvarpsskattinn minn endurgreiddan?


0 ummæli:







Skrifa ummæli