“Þetta eru nú ljótu bytturnar!”
Þessi orð og önnur álíka neikvæð voru oft látin falla á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar þegar glertimbraðir embættismenn voru á ferðinni á mánudögum og mættu hressum togarasjómönnum sem höfðu komið í land um morguninn eftir fleiri vikna túr á Grænlandsmiðum eða af Halanum og byrjuðu landveruna á að koma við í Ríkinu og fá sér eina bokku í tilefni af eins til tveggja daga leyfi.
Þarna voru tvær þjóðir í sama landi með andúð á hvorri annarri á yfirborðinu þótt hvorug gæti án hinnar verið, en höfðu takmarkaðan skilning á þörfum hvorrar annarrar.
Nú er ég komin með hugsunarhátt embættismannsins, því eitthvað þessu líkt fór í gegnum kollinn á mér í morgun er ég fékk mér morgungöngu um regnvott Árbæjarhverfið. Ekkert fólk sást á gangi, en einn og einn leigubíll skaust inn í hverfið með illa haldna farþega sem voru á leið heim úr samkvæmi næturinnar þar á meðal einn þar sem farþegarnir skjögruðu úr bílnum að einu húsinu. Ekki var við það komandi að ég færi að rifja upp gamlar minningar af sjálfri mér er ég var að koma heim úr viðlíka samkvæmum fyrr á árum, en fremur reynt að hneykslast yfir umræddu fólki.
Ég ætti kannski að hætta að hneykslast og reyna að læra af reynslu áratuganna.
sunnudagur, ágúst 15, 2010
15. ágúst 2010 - Drykkjuskapur?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 10:36
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli