Ekki ætla ég að byrja hér á að endurtaka kafla úr bók Sörens Kierkegaard „Frygt og bæven“ frá 1843, enda þykir mér bókin býsna tyrfin aflestrar í útgáfu Bókmenntafélagsins. Hins vegar á titill bókarinnar ágætlega við um það andlega ástand íslensku þjóðarinnar sem skapaðist hér á land við hrunið haustið 2008, allan þann fjölda fólks sem missti vinnuna við hrunið, oft á tíðum það sem kallaðist örugga vinnu og ævistarf. Sjálf hóf ég að hressa upp á atvinnuréttindin mín þótt ég væri í pottþéttri vinnu allt til starfsloka og er enn að öllu óbreyttu.
Það var þó ekki vegna atvinnuöryggis sem ég hóf að hlaupa á öll þau námskeið sem ég þarf að mæta á reglulega til að viðhalda atvinnuréttindunum, fremur vegna ótta við slíkar skattaálögur og hækkanir á útgjöldum að mér yrði ekki vært á Íslandi ef hrunið leiddi til ríkisgjaldþrots og slíkra álaga að ekki yrði líft á Íslandi lengur. Vissulega hafa allar álögur stóraukist, en þær hafa þó ekki leitt til persónulegs greiðslufalls þótt laun hafi verið lækkuð tímabundið.
En offjárfestingar áranna 2000 til 2008 láta þó ekki að sér hæða og sumsstaðar ganga starfsmenn um ganga þessa dagana, niðurlútir og áhyggjufullir. Hvað verður um okkur, verður einhverjum sagt upp, verða launin lækkuð niður í eitthvað sem gerir annars gott starf einskis virði? Hverjir munu eiga fyrirtækið eftir eitt ár, hvað tekur langan tíma að rétta úr kútnum? Óvissan er algjör, en þeir sem öllu ráða hafa ekkert sagt okkur enn sem komið er.
Ætti ég kannski að sækja um á togara og losa mig þannig við áhyggjurnar sem aðrir sköpuðu mér?
þriðjudagur, ágúst 24, 2010
24. ágúst 2010 - Uggur og ótti
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 20:58
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli