mánudagur, ágúst 23, 2010

23. ágúst 2010 - Um þjóðkirkjuna

Undanfarna daga hefur fjöldi fólks tjáð sig á Facebook með yfirlýsingar í þá veru að það ætli sér að segja skilið við þjóðkirkjuna vegna gamalla atburða og nýrra.

Vissulega eru ”hendur” kirkjunnar blóði drifnar og mörg eru glæpaverkin sem hafa verið framin í nafni kirkjunnar í gegnum aldirnar. Það hafa þó ávallt verið menn sem hafa mistúlkað trúarboðskapinn sem hafa verið að baki þessum óhæfuverkum og sjálfsagt að rannsaka slíka glæpi og dæma eftir þeim lögum sem eru í samfélaginu hverju sinni, en ekki vera með tvenn landslög í gangi hverju sinni.

Sjálf hefi ég oft verið í andstöðu við hegðunarmunstur kirkjunnar þjóna. Þá á ég ekki einungis við ásakanir á hendur prestum og biskupum fyrir ætluð sifjabrot, heldur og harða andstöðu þeirra gegn samkynhneigðum og síðast en ekki síst orð þáverandi biskups í minn garð haustið 1994. Hið síðastnefnda leystist farsællega með bréfaskriftum okkar á milli og verður ekki endurtekið frekar.

Það er um leið ástæða til að taka fram að flestir þeir prestar og kirkjunnar þjónar sem ég hefi átt samskipti við hafa verið prýðisfólk, hafa unnið af heilindum og virt baráttu okkar fyrir betra lífi, nú síðast með því að nærri hundrað guðfræðingar skrifuðu undir áskorun um að lögleiða ein hjúskaparlög fyrir alla.

Ef ég myndi segja mig úr þjóðkirkjunni, væri ég um leið að taka afstöðu gegn þessu ágæta fólki sem hefur stutt okkur og fylgja braut meðvirkninnar sem nú er í gangi. Ég tel því best að lofa þessu góða fólki að smám saman ná yfirhöndinni í þjóðkirkjunni og koma afturhaldsöflum og svartstökkum til hliðar með hógværð sinni og jákvæðni. Ég mun því halda áfram að vera í þjóðkirkjunni, mæta örsjaldan til kirkju en, kveðja þetta líf á efsta degi í sátt við guð og menn en fá hinstu blessun að leiðarlokum frá kirkjunnar þjóni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli