„Jæja, Anna,svona í alvöru; ættir þú ekki að þekkja það manna best að umburðarlyndi á skoðunum að vera í báðar áttir? Eða hvað? Ætlar þú líka að taka þátt einelti og í galdrabrennunni á Snorra af því að þeir líkar ekki við lífsstíl hans? Flest er nú til“.
Fyrir fáeinum dögum tjáði ég mig á Facebook í gamni um mynd af Snorra í Betel þar sem hann stóð undir regnboga og velti fyrir mér hvort hann væri á leið úr skápnum. Ofangreind orð segja allt sem segja þarf um þessi orð mín.
Mér þóttu þessi orð Guðmundar St. Ragnarssonar óeðlileg og óþægileg. Alla tíð hefi ég borið virðingu fyrir Snorra, fjölskyldu hans og öðrum ættingjum hans. Ég hefi aldrei talað illa um þetta fólk, þvert á móti tjáð mig jákvætt og þá sérstaklega um föðurbróður Snorra sem og son hans sem mig grunar að sé nágranni minn og hefur stundað það að aðstoða nágranna mína ef þeir lenda í erfiðleikum. Ég hafði meira að segja tjáð mig jákvætt nokkrum dögum áður á bloggi um þessa ágætu fjölskyldu. Því voru orð Guðmundar St. Ragnarssonar sem rýtingur í bakið.
Ég hefi orðið fyrir meiri fordómum en gengur og gerist um meðalmanninn á Íslandi. Ég hefi svarað með því að vera jákvæð gagnvart því fólki sem sýnir mér fordóma þótt vissulega hafi það komið fyrir að ég hafi misst mig þegar fólkið sem sýndi mér fordóma gekk of langt og óskað mér pyntinga og dauða. Ég hefi orðið að berjast fyrir tilveru minni með kjafti og klóm og ég tel að ég hafi unnið sigur á þann hátt að velflestir Íslendingar eru búnir að viðurkenna mig og eru sáttir við tilvist mína. Þessi barátta var ekki sársaukalaus og örin á sálinni eru varanleg.
Meðal verstu andstæðinga minna voru einstaklingar sem töldu sig vera í baráttu gegn mér af trúarlegum ástæðum. Ég lét orð þeirra fara framhjá mér eins og vindinn, en svaraði þó þegar á mig var ráðist, oftast þó með glensi og gríni.
Falleg mynd af Snorra í Betel undir regnboganum í DV, merki samkynhneigðra um allan heim, urðu til þess að ég setti inn færslu á þá leið að ég spurði hvort Snorri væri á leið úr skápnum. Spurningin var eðlileg því margir samkynhneigðir vinir mínir földu tilfinningar sínar á bakvið fordóma gagnvart samkynhneigðum. Sjálf þekki ég þetta af eigin reynslu þar sem ég byggði upp eigin fordóma á þeim árum er ég lifði í röngu kynhlutverki.
Kvörtun Guðmundar St. Ragnarssonar yfir orðum mínum er þó óásættanleg að einu leyti. Þótt ég hafi reynt að umbera hatur og fyrirlitningu fólks í minn garð, hefi ég aldrei gert mig seka um að kyssa á vöndinn, þennan vönd sem ég var barin með en neitaði að samþykkja og kyssa. Ég mun aldrei kyssa vöndinn og mun því aldrei samþykkja orð Guðmundar um umburðarlyndi í þessum efnum. Það er kominn tími til að Guðmundur St. Ragnarsson sýni mér það umburðarlyndi að biðja mig afsökunar á orðum sínum.
sunnudagur, febrúar 19, 2012
19. febrúar 2012 - Umburðarlyndi?
föstudagur, febrúar 17, 2012
17. febrúar 2012 – Hitaveitutankarnir í Öskjuhlíð
Á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands árið 2001 lagði Björn Bjarnason þáverandi menntamálaráðherra það til að náttúrugripasafni yrði komið fyrir í hitaveitutönkunum í Öskjuhlíð og Perlunni. Þetta var furðuleg tillaga þegar haft er í huga að Björn Bjarnason er alinn upp í næsta nágrenni við tankana í Öskjuhlíð, en gömlu tankarnir voru teknir í notkun ári áður en hann fæddist.
Árið 2007 kom Mörður Árnason fram með sömu tillögu og fyrir fáeinum dögum kom Katrín Jakobsdóttir núverandi menntamálaráðherra með hugmynd um að nýta allt að tvo tanka í Perlunni undir náttúrugripasafn, en henni var snarlega bent á að tankarnir væru í notkun og yrðu í notkun um ófyrirsjáanlega framtíð. Katrín er skynsöm manneskja og skilst mér að hún hafi ýtt hugmyndinni útaf borðinu þegar henni varð það ljóst að tankarnir eru í notkun og einnig þörf fyrir rýmið sem geymir dúkkusafn. Nú vilja fimm samtök kennara og náttúruverndarsamtaka hrinda þessari hugmynd í framkvæmd.
Mér finnst hugmyndin galin.
Glerhýsi hentar engan veginn undir náttúrugripasafn. Margir gripanna þola ekki dagsljósið og myndu eyðileggjast á stuttum tíma við slíka geymslu. Þá gætu margir gripir eyðilagst, þar á meðal verðmætustu gripirnir ef eitthvað kæmi fyrir einhvern tankinn og leki kæmi að honum. Vafalaust hefur hugmynd þeirra sem komu fram með þessa tillögu verið sú að nýta hitaveitutankana fyrir safnið, en það er tómt mál því þeir eru í notkun, í þeirri notkun sem þeim var ætlað í upphafi, að geyma heitt vatn til notkunar fyrir "lattélepjandi lopatreflana" í 101 Reykjavík og 107 Reykjavík.
Einn tankurinn var tekinn af Reykvíkingum fyrir dúkkusafn fyrir fáeinum árum. Sú ráðstöfun skerti rekstraröryggi íbúa miðbæjar og vesturbæjar um fjórðung. Síðan hafa risið mörg stórhýsi í miðborginni sem sömuleiðis hafa skert rekstraröryggið og fyrirhuguð uppbygging í miðbænum mun skerða það enn frekar. Ég hefi heyrt því fleygt að búið sé að segja dúkkusafninu upp leigunni og mun það því geta flutt í hentugra húsnæði með skömmum fyrirvara og breyting á tanknum til fyrra horfs og endurnýjaðs rekstraröryggis er einfalt mál enda allar lagnir enn til staðar í „katakombunum“ undir Perlunni.
En hvað er þá til ráða? Einfaldast er auðvitað að nýta Perluna áfram á þann hátt sem gert var eftir byggingu hennar fyrir rúmum tveimur áratugum, sem miðlunargeyma fyrir heitt vatn, sem blöndunarstöð fyrir háhitavatn frá Bolholti, Elliðaárdal og Mosfellssveit og sem miðlun fyrir ylströndina í Nauthólsvík. Veitingahúsin má reka áfram og vafalaust er hægt að finna hagkvæmari not fyrir miðrýmið en nú er. Til vara má vissulega taka hluta hitaveitutankanna undir safnastarfsemi, en þá má heldur ekkert bregðast því slíkt mun valda miklum erfiðleikum í hvert sinn sem tankarnir tæmast af einhverjum orsökum og loft kemst inn á hitaveitukerfið.
Ein hugmynd gæti verið að reisa nýja tanka á öðrum stað. Það var gert þegar hitaveitutankarnir í Öskjuhlíð voru endurnýjaðir á árunum fyrir 1990 og gömlu tankarnir frá styrjaldarárunum voru rifnir og Perlan reist í þeirra stað. Þá voru tveir tankar með samtals 18000 tonna geymsluplássi byggðir við hlið dælustöðvarinnar í Öskjuhlíð, en umframvatnið sem nú nýtist meðal annars fyrir ylströndina og til uppblöndunar látið renna í „Læragjá“ meðan á framkvæmdum stóð. Eftir að Perlan var risin voru tankarnir fluttir upp á Reynisvatnsheiði og nýttir þar fyrir heitt vatn frá Nesjavöllum. Þess má geta að þeir þrír tankar sem í dag eru notaðir undir heitt vatn rýma einungis 12000 tonn, en tveir eru notaðir undir bakrennsli og sá sjötti undir dúkkusafnið. Af hverju skyldu verkfræðingarnir hafa reiknað með 18000 tonna rými í bráðabirgðatönkunum, en ekki bara einum tank með 9000 tonnum eða jafnvel enn minna? Þá má ímynda sér hve útsýni til Perlunnar myndi rýrna mikið ef reistir yrðu nýir hitaveitutankar í stað þeirra sem eru í Perlunni. Allar þessar hugmyndir að breytingum eiga það sameiginlegt að kosta gífurlega fjármuni fyrir Orkuveituna sem á ekki mikið af aurum á þessum síðustu og verstu tímum og það eitt er nægilegt til að ýta þeim út af borðinu.
Loks er ein lausn enn til í spilunum. Hún er sú að skella í lás. Láta Náttúrugripasafnið fá Perluna og hitaveitutankana og hætta að dæla heitu vatni til íbúanna í 101 og 107 Reykjavík. Þá yrði ástandið fljótlega eins og það var á árunum kringum 1940 þegar þykk og dökk mengunarský lágu yfir Reykjavík á köldum vetrarmorgnum. Þá yrðu örugglega góð not fyrir lopatreflana fyrir þá sem lepja latté alla daga :o)
http://velstyran.blogspot.com/2007/03/5-mars-2007-hitaveitutankarnir-skjuhl.html
http://mbl.is/frettir/innlent/2012/02/16/natturugripasafnid_fari_i_perluna/
sunnudagur, febrúar 12, 2012
12. febrúar 2012 - Um Snorra í Betel
Einar Gíslason sem kenndur var við Betel í Vestmannaeyjum þótti hinn ágætasti maður. Hann var fylginn sér, skemmtilegur og hann var einhver besti ræðumaður sem Eyjamenn hafa átt og hann lét ekkert koma sér á óvart.
Ein saga er fræg af þeim bræðrum Einari og Óskari Gíslasonum. Einhverju sinni var barnamessa, Einar prédikaði og Óskar bróðir var meðhjálpari. Á ákveðnu augnabliki í messunni hrópaði Einar:
„Guð almáttugur færðu börnunum epli,“ og það var sem við manninn mælt, eplin hrundu niður gegnum lúgu í lofti samkomusalarins. Einar hélt áfram ræðunni eins og ekkert hefði í skorist uns kom að því að honum fundust eplin sem duttu niður fullmörg og hann hrópaði, „þetta er nóg Óskar bróðir, þetta er nóg“ og hættu þá eplin að falla til jarðar, en Einar hélt áfram prédikuninni eins og ekkert hefði í skorist.
Sonur Óskars í Betel heitir Snorri og er helst frægur fyrir fyrirlitningu sína á samkynhneigðum. Þessi fyrirlitning hans hefur búið lengi í honum samanber viðtal við hann í DV fyrir nokkrum árum þar sem
hann talaði gegn því að samkynhneigðir ælu upp börn því þeir myndu geta smitað þau af AIDS. Nú síðast kallaði hann samkynhneigð synd og líkti samkynhneigðum við bankaræningja. Þessu til staðfestingar kallar hann til vitnis náunga einn sem hét Sál en kallaði sig Pál postula sem hafði uppi svipaðar kenningar gagnvart samkynhneigðum og og gömlu gyðingarnir sem skrifuðu Gamla testamentið. Páll postuli var ekki einn af postulunum tólf og sennilega fæddur löngu eftir að Jesús beið bana á krossinum, en hann fékk síðar postulanafnbót rétt eins og þrettándi jólasveinninn.
Sjálf ætla ég ekki að fara út í umræður um kristna trú. Ég bý að minni barnatrú þar sem fyrirgefningin stýrir lífi okkar, þar sem kærleiksboðskapurinn kennir okkur að við skulum elska náungann eins og okkur sjálf. Nú þegar rætt er um að víkja Snorra í Betel úr starfi vegna skoðana sinna sem hann hefur fært í letur á bloggi sínu, er ég ekki viss um að rétt sé að beitt verði aðferðum gyðinganna og Snorra sem prédika auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, heldur frekar að fyrirgefningu kristinna manna verði beitt.
Því eins og ég trúi því að Snorri muni sjá að sér og frá villu síns vegar, tel ég rétt að beita aðferðum Jesú Krists sem notaði fyrirgefninguna. Því vil ég beina þessum orðum til Drottins allsherjar:
Drottinn, fyrirgef þessum manni því hann veit ekki hvað hann er að gera.
föstudagur, febrúar 10, 2012
10. febrúar 2012 - Um alvopnaða sérsveitarmenn
Eins og allir Íslendingar vita er Guðríður Haraldsdóttir illræmd um land allt fyrir afbrot sín og dæmd fyrir voðaverk sín. Hún hefur þó ekki látið þar við sitja, heldur var hún staðin að verki fyrir að vera illa sofin og tilhöfð í strætisvagnaskýli á Skipaskaga á dögunum, en var bjargað frá frekari glæpum af vöskum sérsveitarmanni sem var á leið í vinnuna. Er ég las um hræðilega glæpi hennar rifjaðist upp fyrir mér lítið atvik frá fyrstu árum mínum í Svíþjóð og gat þeirra í fáeinum orðum og nú heimtar Guðríður að ég játi mína glæpi fyrir alþjóð. Mér er það ljúft.
Ég vil taka fram að þetta atvik átti sér stað áður en ég kom opinberlega úr skápnum með tilfinningar mínar, lifði í vitlausu kynhlutverki opinberlega og með sítt hár.
Ég var einhverju sinni á laugardagsmorgni á leið á vaktina mína með strætisvagni kannski árið 1991 og ég var einasti farþeginn í vagninum. Ég hafði tekið vagninn í Jakobsberg í Järfälla og leið hans lá um Barkarby og síðan gegnum Hässelby gård áður en hann kom á stoppistöðina mína nærri Hässelby strand þar sem ég var vön að hoppa af og ganga síðasta spölinn í vinnuna. Vagninn hélt áfram í gegnum Vinsta og Veddesta áður en komið var til Barkarby station og eftir stutta tímajöfnun þar hélt vagninn áfram í átti til Hässelby. Þegar farið er frá Barkarby station er smákafli þar sem er 30 kílómetra hámarkshraði. Þegar ekið var þar í gegn sá ég lögreglubíl fullan af lögregluþjónum og hugsaði með mér, djöfull eru sænskir lögregluþjónar vitlausir að reyna að ná bílum fyrir of hraðan akstur klukkan sex að morgni.
Vagninn hélt áfram og ég var áfram eini farþeginn í vagninum þar sem hann ók Skälbyvägen. Þegar við komum að gatnamótunum við Byleden þar sem er stuttur kafli með 30 kílómetra hámarkshraða sá ég annan lögreglubíl fullan af lögregluþjónum og enn undraðist ég ákafa lögreglunnar að grípa glæpsamlega bílstjóra sem fara yfir 30 kílómetra hraða. Áfram hélt strætisvagninn til enda Skälbyvägen og beygir þá til hægri inn á Växthusvägen í Hässelby. Þá var ekki komist lengra því við vorum umkringd af lögreglubílum. Lögreglubílar höfðu lokað götunni fyrir framan okkur og það voru lögreglubílar sem lokuðu öllum undankomuleiðum fyrir aftan okkur. Allt í kring voru sérsveitarmenn með alvæpni og miðuðu þeim að strætisvagninum. Mér var hætt að standa á sama.
Þar sem ég sat í strætisvagninum sá ég ofan á kollana á sérsveitarmönnum sem hlupu fram með vagninum og einhverjir gáfu fyrirskipanir og bílstjórinn opnaði dyrnar hjá sér. Einn sérsveitarmaðurinn kemur hálfur inn í vagninn, er enn í hnipri í skjóli við spjald við innganginn í vagninn og kallar eitthvað aftur eftir vagninum. Ég heyrði ekkert hvað hann sagði enda með skemmda heyrn frá sjómennskunni. Ég stóð því upp, gekk frameftir vagninum og kallaði á móti:
„Varstu að kalla á mig?“
Við þessi orð mín stóð sérsveitarmaðurinn upp í öllu sínu veldi og bað mig að koma fram og sýna sér skilríki. Ég gerði það, hann kallaði eitthvað til félaga sinna og það var sem léttir færi um allt umhverfið. Slökkt var á bláum ljósum og byssunum var slakað niður.
„Hvað er í gangi“ spurði ég.
„Það var hættulegur og síðhærður strokufangi á ferð í Jakobsberg í nótt og við héldum að það værir þú.“
„Þá vitið þið betur“ svaraði ég.
„Það er rétt, en mundu eitt,“ sagði sérsveitarmaðurinn, „ef þú lendir aftur í þeirri aðstöðu að lögreglan krefst þess af þér að þú komir fram með hendur fyrir ofan höfuð, reyndu þá að hlýða.“
Eftir þetta ævintýri gat strætisvagninn haldið áfram og lögreglan haldið áfram leit sinni að hættulegum afbrotamanni. Þessi töf kostaði það að ég kom hálftíma of seint á vaktina mína við Hässelbyverket, en aldrei fékk ég svar við einni spurningu minni til sérsveitarmannanna:
„Hvernig dettur ykkur í hug að hættulegur glæpamaður leggi á flótta undan réttvísinni með strætisvagni klukkan sex á laugardagsmorgni?“
mánudagur, febrúar 06, 2012
6. febrúar 2012 - Hugleiðing um lífeyrissjóði
Ég byrjaði til sjós á togara árið 1966 á fimmtánda ári og þar sem Lífeyrissjóður togarasjómanna hafði verið til í nokkur ár hóf ég fljótlega að greiða í sjóðinn. Síðan eru liðin nærri 46 ár eða þokkaleg starfsævi meirihluta Íslendinga. Ég er þó hvergi nærri því hætt að vinna enda rétt orðin sextug.
Þegar ég skoða inneign mína í lífeyrissjóðum kemur fljótlega í ljós að greiðslur mínar í lífeyrissjóð frá upphafi til þess tíma er verðtryggingu var komið á eru glataðar. Verðbólgan sá til þess að krónurnar brunnu hraðar en þeirra var aflað. Mér reiknast svo til að greiðslur mínar í lífeyrissjóði fyrir 1980 veiti mér einungis um 5000 krónur í mánaðartekjur og er þá gróflega reiknað og miðað við stöðuna eins og hún var fyrir hrunið haustið 2008.
Framlag mitt í Lífeyrissjóð Eimskips á níunda áratug síðustu aldar leit sæmilega út framanaf, en lífeyrissjóðurinn sameinaðist nokkrum öðrum lokuðum lífeyrissjóðum í Kjöl um miðjan síðasta áratug og síðasta yfirlit frá Lífeyrissjóðnum Kili í apríl 2008 benti til að ég fengi greiddar um 67000 krónur á mánuði. Síðan þá hafa allar fréttir bent til hruns í útgreiðslum sjóðsins, en þess má geta að á neyðarfundi í desember 2008 hélt formaður sjóðsins því fram að innlendar fjárfestingar væru tryggðar í mjög traustum fyrirtækjum, en vildi ekki gefa þau upp. Mér var þó kunnugt um hver þessi fyrirtæki voru , en þau eru nú flest farin á hausinn. Reyndar er löngu búið að skipa skilanefnd yfir sjóðnum og víkja frá þáverandi stjórn. Ég veit þó ekki stöðuna á sjóðnum í dag, en veit það eitt að útgreiðslurnar eru einungis brot af því sem ætla mátti á sínum tíma.
Þegar einn vinnufélaginn lést fyrir skömmu var til þess tekið að annar félaginn sem nú er á eftirlaunum neitaði að heilsa fyrrum stjórnarformanninum eftir jarðarförina og segir það allt sem segja þarf um stöðu mála.
Svipað er á komið með aðra lífeyrissjóði sem ég hefi greitt í undanfarin ár. Tómt tap. Vegna þeirrar rýrnunar á peningum sem ég hafði lagt í lífeyrissjóði frá því ég hóf að vinna og til ársins 1989 hóf ég að greiða í séreignarsjóði árið 1999. Fyrst í Íslenska lífeyrissjóðinn, en bætti fljótlega við Certus lífeyristryggingu, en síðar bættist Lífeyrisbók Landsbankans einnig í safnið. Einasti sjóðurinn sem stóð undir nafni var Lífeyrisbók Landsbankans því þótt hann gæfi minnstu vextina var hann sá eini sem var verðtryggður. Íslenski lífeyrissjóðurinn hrundi um leið og Kjölur og Certus reyndist horfinn að mestu. Því lokaði ég honum og lét flytja inneignina að mestu úr Íslenska lífeyrissjóðnum yfir í Lífeyrisbók Landsbankans sem gerir þó ekki meira en að geyma raunupphæðina sem ég hefi lagt inn.
Í desember síðastliðnum fékk ég bréf frá Lífeyrissjóðnum Gildi (áður Lífeyrissjóð sjómanna og þar áður Lífeyrissjóð togarasjómanna) þar sem ég er minnt á þá skerðingu sem ég verð fyrir ef ég nýti mér eftirlaunarétt sjómanna, en hún miðast við að eftir 25 ára störf á sjó hefi ég unnið mér rétt til að fara á eftirlaun við sextugt. Ég hló þegar ég sá bréfið. Ég hafði ávallt ætlað mér að hætta að vinna við 67 ára aldur, en nú má ég þakka fyrir að geta hætt við sjötugt.
Ég sit uppi með þá staðreynd að það er búið að ræna mig ætluðum lífeyri mínum, ekki einu sinni heldur tvisvar. Ofan á allt fæ ég að sjá að mennirnir sem tóku við lífeyrisgreiðslum mínum notuðu þá í vafasömum tilgangi án þess að ég hefði nokkuð um það að segja. Ég var gerð að fífli með því að samþykkja að greiða í lífeyrissjóð án andmæla.
Er ekki kominn tími til að stokka upp lífeyrissjóðakerfið og setja þjófana sem stálu peningunum mínum í fangelsi með útrásarræningjunum?