föstudagur, ágúst 10, 2012

10. ágúst 2012 - Af hverju veita Morgunblaðinu viðurkenningu?

Föstudaginn 10. ágúst 2012 geysast tveir aðilar fram á ritvöll DV, bæði miklir baráttufélagar mínir í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks. Þau telja bæði að Morgunblaðið sjónvarp hafi ekki átt skilið að fá mannréttindaviðurkenningu Samtakanna 78 og ég skil þau að miklu leyti en er samt ósammála þeim að einhverju leyti þótt ekki vilji ég ganga út og mótmæla þeim.

Ég kann ekki alla sögu Samtakanna 78 og er því vart dómbær á hverjir sýndu fordóma fyrr á árum og hverjir hunsuðu hverja. Ég man þó að fyrsta greinin sem ég sá og var til stuðnings baráttu samkynhneigðra var frá árinu 1977 er Fylkingin, baráttusamtök kommúnista birti grein í málgagni sínu Neistanum til stuðnings baráttu homosexual fólks og var greinin undirrituð af Pétri Tyrfingssyni, síðar sálfræðing og meðferðarfulltrúa. Ég skal ekki fullyrða hvort Rauðsokkahreyfingin hafi verið eitthvað fyrr á ferðinni með stuðning sinn. Þetta var held ég sama ár og Baldur þáverandi ritstjóri Orðabókar Háskólans kom fyrst fram með orðið samkynhneigð til notkunar í Þjóðleikhúsinu og síðan Þjóðviljanum.

Ég kom fyrst á samkomu hjá Samtökunum 78 árið 1984, nýlega fráskilin og þegar búin að lenda í fyrsta skipbrotinu í samskiptum við heilbrigðiskerfið vegna tilfinninga minna. Samtökin voru þá til húsa við Skólavörðustíg en voru einnig í Brautarholti um svipað leyti, voru í sífelldu húsnæðishraki á þessum árum og illa liðin af flestum. Einhverju sinni voru þau í húsnæðishraki sem oftar  og eftir því sem sagan segir mér, leysti þáverandi oddviti meirihlutans í borgarstjórn, maður að nafni Davíð Oddsson, úr húsnæðisvandræðunum með því að lána Samtökunum 78 húsið við Lindargötu sem varð síðan aðsetur Samtakanna 78 í nærri einn og hálfan áratug til aldamóta er þau fluttu yfir á Laugaveg 3 þar sem þau eru enn. Einhver hvíslaði því að mér að þetta hefði Davíð gert í andstöðu við suma flokksfélaga sína.

Einhverntímann heyrði ég að tillaga hafi komið um veitingu viðurkenningar til handa Davíð Oddssyni fyrir stuðning hans við Samtökin 78 á þeim tíma þótt ekki hafi orðið úr slíku.

Þættir þeir sem hafa birst fyrrihluta ársins 2012 um baráttu samkynhneigðra og síðar einnig transfólks voru góðir og eiga skilið að fá viðurkenningu. Þessir þættir eru gerðir eftir að Davíð Oddsson varð ritstjóri Morgunblaðsins og því er sennilegt að hann sé einnig ábyrgðarmaður þáttanna þótt hann hafi vafalaust lítið með þá að gera.

Ég get ekki séð að það eigi að mismuna stuðningsfólki hinsegin fólks eftir pólitískum skoðunum eða eftir eignarhaldi fjölmiðla þeirra því þá værum við í vondum málum.

Mannréttindi eiga að vera ofar pólitísku dægurþrasi .


0 ummæli:







Skrifa ummæli