miðvikudagur, ágúst 08, 2012

8. ágúst 2012 - Um "kynvillinga" fyrri ára

Ríkissjónvarpið sá ástæðu til að fjalla um samkynhneigð fyrri ára í fréttatímanum 8. ágúst í tilefni af Hinsegin dögum sem nú standa yfir í Reykjavík og mátti heyra sagt frá svokallaðri kynvillu níunda áratugarins í hálfgerðum hneykslistón.  Er það vel að hæðst sé að þessu úrelta orðfæri, ekki síst að afturhaldssemi Ríkisútvarpsins á þeim tíma er forráðamenn þess neituðu samkynhneigðum að nefna homma og lesbíur í auglýsingum um skemmtanir á vegum Samtakanna 78. Þetta var svo skemmtilega orðað að við lá að ég tæki mark á þessu bulli.

Innan við sólarhring áður bað einn starfsmaður Ríkisútvarpsins mig afsökunar á að hafa notað orð áþekkt kynvillu um transfólk í færslu sinni á Facebook um leið og hann eyddi færslunni og er það vel. Það var þó tveimur tímum eftir starfsfólk Ríkisútvarpsins hafði ákveðið að hætta að vera með fordóma í garð transfólks eftir ágæta heimildarmynd Ragnhildar Steinunnar um transkonu. Um leið eru fjölmörg dæmi á undanförnum árum um að starfsfólk Ríkisútvarpsins hafi notað þetta sama orð og önnur enn verri í þeim tilgangi að niðurlægja transfólk.  Eitt ljótasta dæmið var þegar dagskrárgerðarmaður Ríkisútvarpsins bar á söngkonu eina frá Ísrael að hún væri tæplega fertugur karlmaður í Evrópsku sönglagakeppninni 2011. Í verðlaunaskyni var hún send aftur út til að segja frá keppninni 2012. Ég fylgdist með keppninni í sænska sjónvarpinu til að sleppa bullinu hjá íslenska þulnum.

Ég hefi nokkrum sinnum lent í að þurfa að benda starfsfólki Ríkisútvarpsins á að um sé að ræða niðurlægingu er kynvilluorðskrípið kynskiptingur er notað um transfólk, en athugasemdum mínum hefur stundum verið illa tekið, jafnvel svo að starfsfólkið hefur lýst því yfir við mig að því þykir orðið ágætt og lýsi vel tilfinningum okkar. Þetta orðskrípi hefur læðst út í opinbera umræðu meðal annars inn í skýrslur Umboðsmanns Alþingis þar sem hann misskildi orðið kynáttunarvandi og notaði þess í stað orðið kynskiptihneigð. Þetta endurtók sig við samningu málefnasamnings núverandi ríkisstjórnar þar sem þurfti tvisvar að leiðrétta prófarkalesarann sem vildi endilega troða kynskiptingum inn í málefnasamninginn þar sem aðilar málsins voru ásáttir um notkun orðsins transfólk.

Fyrir okkur er ekkert grín þótt talað hafi verið um kynvillinga fyrir þrjátíu árum þegar við erum enn að berjast við fordóma í orðanotkun árið 2012. Fordómarnir eru enn við lýði.  Á Íslandi árið 2012 eru enn til dæmi þess að foreldrar afneiti börnum sínum fyrir að vera trans og síðasta dæmi þess að transfólki hafi verið misþyrmt líkamlega á Íslandi var árið 2012.

Baráttunni er ekki lokið!


0 ummæli:







Skrifa ummæli