Mér finnst ómögulegt að skilja við hinsegin vikuna og hoppa skyndilega
yfir í önnur mál án þess að enda hinsegin umræðuna, ekki síst nú þegar
hómófóbíska liðið fer að streyma til Reykjavíkur með hjólhúsin sín í eftirdragi
í þeirri von að Gay Pride sé lokið. Ég var nefnilega einu sinni þátttakandi í
hómófóbíunni. Þótt ég hafi fengið
mannréttindaviðurkenningu Samtakanna 78 á dögunum á ég mér fortíð sem er
reyndar býsna lík margra annarra sem voru í skápnum og eru kannski enn.
Í tilraunum mínum til að fela eigin tilfinningar gekk ég fram fyrir skjöldu og
úthúðaði samkynhneigðum. Ég þekkti engan samkynhneigðan, var vélstjóri á farskipum
og togurum og notaði hvert tækifæri til að úthúða fólki sem ég hafði samúð með.
Ég gekk aldrei svo langt að úthúða hommum beint, en ég var ekkert betri en
skipsfélagarnir þegar umræður áttu sér stað í borðsalnum.
Ég kom inn á krá í Genúa á Ítalíu sem reyndist vera afkimi fyrir transkonur.
Skipsfélagi minn byrjaði á að hæðast að dömunum en ég þurfti að spyrjast margs
sem ég þorði ekki og forðaði mér af þessum „hræðilega“ stað með þúsund
spurningar í kollinum sem aldrei var svarað af því að ég þorði ekki að spyrja.
Ég læddist inn á skemmtistað í Cuxhaven og ræddi aðeins við dömurnar sem allar
voru enn með typpin sem lýti á líkamanum og lifðu af því að taka þátt í
trönsusýningum, en rétt eins og áður varð ég að hætta spjallinu við dömurnar og
gerast gagnkynhneigður karlmaður þegar skipsfélagarnir komu á staðinn. Löngu
síðar læddist ég inn á transkrárnar við Simon-Von-Utrechtstrasse í Hamborg og
naut samskiptanna við hinar transkonurnar þegar skipsfélagarnir sáu ekki til.
Á Íslandi var enn allt við það sama. Á síðari hluta áttunda áratugarins átti ég
einungis ein hjón utan eiginkonu sem ég gat tjáð mig við og það voru
fordómalausir baráttufélagar mínir í pólitík, Páll og Ingibjörg, foreldrar Stefáns Pálssonar
sagnfræðings. Að öðru leyti var algjört tóm í þessum málum og ég faldi mig opinberlega
á bakvið fordóma og háðsyrði í garð hinsegin fólks.
Það varð breyting með stofnun Samtakanna 78. Þótt ég hafi haldið áfram að
hæðast að Samtökunum fyrstu árin eftir stofnun þeirra breyttist það snarlega
fáeinum árum síðar. Daginn sem ég hætti á Vestmannaey VE 54 kallaði Kristinn
Pálsson útgerðarmaður mig á sinn fund og við áttum gott samtal um fólk og um
samkynhneigð. Hann var eldri gagnkynhneigður karl, en fordómalaus eða eins og hann sagði við mig eftir að hafa
heyrt sögusagnir um kynvitund mína eða kynhneigð. Daginn sem þú hefur fundið
það sem þú leitar að ertu velkominn aftur til Eyja og fyrr ef þú vilt. Þú átt
heima hér.
Mér er alveg sama hvað sagt er um Magnús Kristinsson eða um aðra í fjölskyldu
Kristins Pálssonar eða starfsmenn útgerðarinnar, þau verða samt vinir í hjarta
til æviloka.
Ég er löngu komin úr skápnum og um leið hætt að vera með fordóma gegn mínu
fólki. Ég á samt fullt eftir af fordómum, en þeir snúast samt ekki að hinsegin
fólki né að lituðum eða fólki sem býr við ólíka menningu.
Takk til allra sem samfögnuðu með mér er ég fékk mannréttindaviðurkenningu
Samtakanna 78.
sunnudagur, ágúst 12, 2012
12. ágúst 2012 - Fordómar?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:40
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli