Það var haustið 1994 sem ég kynntist Ragnari Michelsen blómasala. Ég bjó
þá í Svíþjóð en hafði komið til Íslands vegna viðtals við tímaritið Nýtt líf og
notaði tækifærið í leiðinni og sinnti ýmsum baráttumálum transfólks í leiðinni.
Meðan á dvölinni stóð hafði systursonur minn samband við mig og færði mér ósk
frá Ragnari Michelsen nágranna sínum að hann vildi hitta mig. Þar sem svo
skammt var eftir af dvöl minni á Íslandi bað Ragnar mig að hitta sig á
hárgreiðslustofu Guðlaugs vinar síns í Kirkjuhvoli þar sem Ragnar þurfti að
sinna blómaskeytingum við útför frá Dómkirkjunni sama dag.
Ég kom til Guðlaugs sem virtist ekkert vilja við mig tala en Ragnar kom
fljótlega og áttum við gott samtal þar sem Ragnar var í hópi ráðgjafa
Samtakanna 78 og hafði hann nokkrum sinnum fengið samtöl frá transfólki í felum
og vildi greiða götu þeirra.
Þetta samtal okkar Ragnars átti síðar eftir að draga dilk á eftir sér þar sem
Guðlaugur var alls ekki ánægður með að Ragnar skyldi velja stofuna hans til að
mæla sér mót við mig og olli það hálfgerðum vinslitum þeirra á millum auk þess
sem Guðlaugur notaði tækifærið og úthellti reiði sinni gagnvart Samtökunum 78
og okkur Ragnari í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 við Eirík Jónsson fréttamann nokkru síðar.
Um leið varð þetta upphafið að góðri vináttu okkar Ragnars.
Sumarið 1996 flutti ég til Íslands eftir áralanga dvöl í Svíþjóð og svo hittist
á að íbúð systursonar míns í Krummahólum 6 var samtímis laus til leigu og því fékk ég hana
leigða um leið og ég flutti heim. Þar með hitti ég Ragnar Michelsen nánast
daglega næstu árin, bjó í Krummahólum 6 í átta ár, fyrstu árin á þriðju hæð en
færði mig síðar upp á sömu hæð og Ragnar þar sem ég hélt áfram að leigja næstu
árin. Við Ragnar áttum oft langar og miklar samræður um samkynhneigð og
transgender, Hveragerði og fjölskylduhöfnun því Ragnar var einn af þeim fyrstu.
Hann var ávallt hommi og var ekkert að fela það, en samtímis var hann ekkert að
auglýsa kynhneigð sína. Hann sagði mér margar sögur af því er sumir ættingjar
hans höfnuðu honum sem persónu vegna kynhneigðar hans. Ekki vil ég þó játa að
við höfum grátið örlög okkar í kór því Ragnar var ekki einn af þeim sem bera
syndir ættingjanna á öxlum sér og gerði því frekar grín að fordómunum þótt
vafalaust hafi þeir og höfnun sumra ættingja haft áhrif á hann og tilfinningar
hans.
Á tíunda áratugnum voru Samtökin 78 orðin áhrifamáttur. Fjöldi fólks kom út úr
skápnum og reynsluboltinn Ragnar Michelsen með viðurnefnið Fleur var boðinn og
búinn að leiðbeina ungu samkynhneigðu fólki sem var að stíga sín fyrstu titrandi
skref út úr skápnum, sá gjarnan um símatíma Samtakanna 78 og eyddi mörgum
kvöldunum við að ræða við ungt og eldra fólk sem hafði aldrei þorað að taka
skrefið stóra.
En Ragnar var ekki bara Hommi með stórum staf. Hann var kristinn og kirkjunnar
þjónn, annaðist útfarir af natni blómaskreytingamannsins og hann var
líksnyrtir, lagaði illa farna líkama látins fólks sem farist hafði af slysförum
svo það gæti mætt í eigin útför með virðingu, verkefni sem verður mörgum
ofviða. Að auki var hann lengi í stjórn húsfélagsins í Krummahólum 6, lengi formaður og
síðastliðið vor var hann ákveðinn í að hætta og hlakkaði til. Vegna veikinda
sinna hafði hann selt verslunarrekstur sinn í Hólagarði nokkrum árum áður og
var hættur að sinna stuðningi við samkynhneigða sem voru að koma úr skápnum. Ég
hafði flutt úr Hólahverfinu nokkrum árum áður, en átti það til að banka upp á
hjá Ragnari ef ég átti erindi í gömlu blokkina mína og ef ég þurfti að fá góð
ráð varðandi húsfélagsrekstur var Ragnar ávallt reiðubúinn að leiðbeina mér.
Ég missti af útför Ragnars. Baráttumanneskja í hinsegin málefnum kom til
Íslands nokkrum dögum eftir andlát
Ragnars og átti tíma minn allan. Fyrir bragðið var ég austur í sveitum með
sænska vinkonu mína á sama tíma og Ragnar Michelsen var borinn til grafar. Það
breytir ekki því að Ragnar var góður vinur minn og einn sá heilsteyptasti
persónuleiki sem ég hefi kynnst um dagana. Ég held að hann hafi fyrirgefið mér
fjarveru mína frá útförinni þar sem hann var búinn að finna sér stað næst
almættinu.
Ragnars Michelsen verður ávallt með hlýleika og virðingu.
laugardagur, ágúst 04, 2012
4. ágúst 2012 - Ragnar Michelsen blómsali
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:02
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli