Séra Baldur Kristjánsson sóknarprestur í Ölfusi og hinn ágætasti maður segir meðal annars eftirfarandi á bloggi sínu í morgun eftir að hafa hlýtt á sjónvarpsviðtal við Guðrúnu Ebbu, dóttur Ólafs Skúlasonar biskups:
Sennilega get ég þakkað Davíð Oddssyni það að ég varð aldrei mikill ráðgjafi Ólafs ( fyrir utan það að vera af annarri kynslóð og með afleitar hugmyndir). Vigfús Þór Árnason prestur hafði eftir Davíð svo að margir hlýddu á eftir að ég var ráðinn: ,,Ég skil ekkert í Ólafi að vera að raða í kringum sig þessum kommúnistum.“
Ólafur varð svo ráðvilltur að hann vissi ekkert hvað átti að gera við mig næstu mánuði. Dómur Davíðs gat verið dauðadómur.
Í æviágripi séra Baldurs í Guðfræðingatali er ekki getið eins né neins um pólitísk trúnaðarstörf hans ef frá eru talin ritstörf hans um sögu verkalýðsbaráttunnar. Þar eru hinsvegar tíunduð störf hans að íþróttum, æskulýðsstarfi og mannréttindamálum. Sjálf man ég ekki eftir honum á þeim árum er ég tók virkan þátt í róttæku starfi á áttunda áratug síðustu aldar þótt ég vilji ekki útiloka að hann hafi verið starfandi á vinstri vængnum. Það skiptir að sjálfsögðu engu máli, því fólk á að njóta hæfileika sinna án tillits til pólitískra skoðana, en ekki vegna þeirra.
Orð Davíðs um séra Baldur við þáverandi biskup segja hinsvegar þann nöturlega sannleika að á Íslandi ríkti hálfgerður McCarthyismi þegar ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar voru hér við völd.
Er ekki kominn tími til að kalla fram sannleiksnefnd svo hægt verði að svipta hulunni af þeirri spillingu sem réði hér á landi á þessum árum?
mánudagur, október 10, 2011
10. október 2011 - Séra Baldur
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 12:57
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli