Það varð talsvert tjón á húsi Heilsugæslunnar að Drápuhlíð 14 í morgun. Talsvert heitt vatn rann inn í húsið og eyðilagði allt sem fyrir varð. Þrátt fyrir tjónið má benda á að ein skýring þessa tjóns kann að vera að gamlir hitaveitustokkar liggja neðanjarðar að húsinu og því greiður aðgangur vatnsins að húsinu og þá frekar að þessu húsi en öðrum húsum í hverfinu. Ég stóð reyndar í þeirri trú að stokkarnir að húsinu hefðu verið fjarlægðir fyrir löngu, en komst að öðru við að hlusta á fréttirnar í útvarpinu.
Hvað skyldu hitaveitustokkar gera að þessu húsi inni í miðju íbúðahverfi ef marka má fréttirnar og viðtal við upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar? Svarið er einfalt. Þetta hús á sér sögu og sál, en þarna voru aðalstöðvar Hitaveitu Reykjavíkur frá 1959-1984 og dælustöð í kjallaranum. Hitaveitan flutti síðan úr Drápuhlíðinni inn á Grensásveg og heilsugæslan fékk húsið til sinna umráða í framhaldinu.
Enn í dag má heyra gamla hitaveitustarfsmenn tala um Drápuhlíðina með söknuði þótt þeir séu fáir eftir ofar moldu sem störfuðu hjá Hitaveitunni á þessum stað. Það er því grátlegra að tjónið skuli hafa verið af völdum heita vatnsins og hugsanlega vegna hitaveitubilunar í hverfinu.
sunnudagur, október 16, 2011
16. október 2011 - Hús með sál
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 18:27
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli