sunnudagur, október 02, 2011

2. október 2011 - Stjórnlagaráð

Við þingsetningu Alþingis 1. október reyndi forseti Íslands að eigna sér störf Stjórnlagaráðs og þóttist fullviss þess að hann fengi meiri völd eftir lögleiðingu nýrrar stjórnarskrár en áður. Þessu var þegar mótmælt af fleiri fulltrúum sem setið höfðu í stjórnlagaráði sem einungis töldu að um væri að ræða minniháttar breytingar á starfi forseta Íslands.

Ég fór að velta fyrir mér hvort ekki væri verið að búa til nýja stjórnarskrá sem væri svo lík hinni gömlu að hægt væri að rífast um einstakar greinar hennar til eilífðar rétt eins og hinnar gömlu. Það er enn verið að rífast um hina gömlu, hvernig skal fara með völd kóngsins, afsakið forsetans í stjórnarskrá Íslands og ég vonaðist til að þessu myndi linna með nýrri stjórnarskrá.

Fyrir ári síðan bauð ég mig fram til stjórnlagaþings sem þá hét svo ásamt rúmlega 520 öðrum einstaklingum. Ég hlaut ekki nægan stuðning til setu á stjórnlagaþingi, lenti í 43 sæti og því talsvert langt frá öruggu sæti. Í framhaldinu og eftir kærumál og síðan skipan stjórnlagaráðs ákvað ég gefa stjórnlagaráði vinnufrið til að vinna af heilindum að nýrri stjórnarskrá. Ég viðurkenni þó að mig langaði til að grípa fram fyrir hendurnar á stjórnlagaráði þegar kosið var um eitt orð í mannréttindakaflanum, en það var orðið kynvitund (gender identity), en um leið var ég víðsfjarri þegar atkvæði voru greidd. Þetta orð var fellt út úr uppkastinu að nýrri stjórnarskrá með atkvæðagreiðslu með eins atkvæðis minnihluta þar sem einn fulltrúinn viðurkenndi eftir á að hafa óvart kosið vitlaust og annar farinn í barneignaleyfi. Fyrir bragðið varð ég að senda þau boð út til félaga minna sem eru transfólk um allan heim að okkur hefði mistekist að fá kynvitund (gender identity) inn í stjórnarskrá Íslands. Um leið vil ég þakka Silju Báru og Illuga og öðrum stuðningsaðilum þessa eina orðs í stjórnarskrá Íslands fyrir einlægan stuðning þeirra við þetta orð í uppkasti að nýrri stjórnarskrá Íslands.

Það var fleira en þetta eina orð sem sitja aðeins í mér eftir að hafa lesið yfir stjórnarskráruppkastið. Það vantar allt sem ég hafði lagt áherslu á um friðarmálefni og kjarnorkuvopnalaust Ísland. Þá vantaði ákvæðið sem hefði orðið hinni evangelísk-lúthersku kirkju á Íslandi til framdráttar sem er algjört trúfrelsi á Íslandi, en einnig hugsanlegt ofurvald eins manns sem er forseti Íslands. Ég tók ekki afstöðu til valds forseta Íslands í kosningabaráttunni, en hefði örugglega hvatt til þess að forseti Íslands yrði einungis táknrænt sameiningartákn fyrir þjóðina fremur en að vera það sundrungarafl sem núverandi forseti hefur valdið með störfum sínum.

Því miður virðist forsetinn halda áfram að verða sundrungarafl í nýja stjórnarskráruppkastinu. Það finnst mér miður og hann staðfesti það með orðum sínum á Alþingi laugardaginn 1. október 2011.   


0 ummæli:







Skrifa ummæli