Þá er víst búið að ráða vanhæfan forstjóra til Bankasýslu ríkisins. Í útvarpsfréttum var haft eftir fjármálaráðherranum að hann gæti ekkert frekar gert í málinu. Ég man ekki nákvæmlega orðalagið, en þótti það skrýtið þegar haft er í huga hve einstöku ráðherrar virðast stundum hafa mikil völd, hvað þá þegar vanhæfur maður er ráðinn í mikilvægt starf á vegum stjórnsýslunnar.
Það er vitað að aðstoðarmenn ráðherra hafa oft greiðan aðgang að stjórnsýslunni jafnvel þótt þeirra ráðherra sé löngu hættur og farinn að stunda önnur gruggug mið. Þessi ráðning til Bankasýslu ríkisins er dæmigerð ráðning af þessum toga, kunningjaráðning, klíkuskapur, spilling! Um leið er stjórn Bankasýslu ríkisins búin að lýsa yfir vanhæfi sínu til að ráða fólk og á að segja af sér hið bráðasta. Fjármálaráðherra getur einnig hjálpað stjórn Bankasýslu ríkisins til að segja af sér, til dæmis með því að lýsa vantrausti á störf hennar ef hún segir ekki af sér án tafar. Stjórn valdamikillar stofnunar sem fær svo skýr skilaboð frá ráðherranum hlýtur að skilja hvað átt er við.
Ef ráðherrann getur ekki rekið vanhæfa stjórn þessarar stofnunar eða ef hún neitar að segja af sér er næsta ráð að breyta lögum á Alþingi svo hægt verði að reka vanhæfar stjórnir fyrirtækja.
Í búsáhaldabyltingunni forðum daga tókst að fella þáverandi ríkisstjórn vegna kröfunnar um betri stjórnarhætti. Vonir stóðu til þess að hægt yrði að bæta stjórnkerfið, gera það skilvirkara og mun lausara við spillingu en hafði verið um mörg undanfarin ár. Því miður sannar þessi ráðning að við eigum enn langt í land að koma á Nýju Íslandi í anda búsáhaldabyltingarinnar.
Ég hefi talið mig vera stuðningsmanneskju ríkisstjórnarinnar. Ég greiddi Samfylkingunni atkvæði mitt í síðustu kosningum og fagnaði nýrri ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs árið 2009. Ég er orðin efins um þetta ríkisstjórnarsamstarf, ekki vegna starfa ráðherra Samfylkingar, en verulega vegna starfa sjávarútvegs og landbúnaðarráðherrans sem mér virðist á köflum eiga meira erindi við Framsóknarflokkinn en VG og íslensku þjóðina. Nú hefur fjármálaráðherrann einnig brugðist vonum mínum og veigrar sér við að grípa inn í þegar klíkuráðning á sér stað og þingflokkur VG er hlaupinn út og suður
Ef mínir kettir væru jafn óþægir og þingflokkur VG væri ég löngu búin að senda þá í svæfingu!
laugardagur, október 15, 2011
15. október 2011 - Um Bankasýslu ríkisins
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 21:53
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli