Ég var að taka til í skúffum hjá mér um daginn og mætti gera meira af slíku, því meðal þess sem ég fann í skúffunum voru tvö útrunnin gjafabréf á veitingastaði í Reykjavík, annað frá 2007 og hitt frá 2008. Bæði gjafabréfin giltu til eins árs og því löngu runnin úr gildi og safaríkar nautasteikurnar á Lækjarbrekku og Karúsó sennilega löngu komnar í maga einhvers sem hefur kunnað að meta þær, en ég gat sjálfri mér um kennt með tóman maga í kreppunni.
Senn líður að því að farið verði að huga að jólum og síðan stórafmæli. Algengt er að fólki sem þykist eiga allt fái gjafabréf í afmælisgjöf, en slíkar gjafir yrðu vart til annars en að fylla skúffur af pappír í mínu tilfelli sem myndi vafalaust henda gjafabréfinu í næstu skúffu þar sem það gleymdist næstu árin.
Þetta minnir mig á árið sem ég fékk slæman brjóstsviða og fór í apótekið og fékk mér tvo pakka af brjóstsviðatöflum, enda þóttist ég vita af reynslu annarra að brjóstsviðatöflur lina verkina ef maður fær brjóstsviða. Þegar ég kom heim með brjóstsviðatöflurnar var verkurinn horfinn og ég setti töflurnar í lyfjakassann minn til nota síðar ef brjóstsviðinn kæmi aftur. Svo liðu árin og mörgum árum síðar var ég að taka til í lyfjakassanum og fann þá brjóstsviðatöflurnar í óopnuðum umbúðunum sínum. Þá voru liðin þrjú ár frá síðasta notkunardegi og ekkert annað að gera en að skila þeim til Sorpu.
Ég þarf sennilega að taka oftar til heima hjá mér!
þriðjudagur, október 18, 2011
18. október 2011 - Gjafabréf og annað skúffudót
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 13:13
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli